Gistinóttum á Vestfjörðum og Vesturlandi fjölgar um 62%

Gistinætur á hótelum hér á landi í janúarmánuði voru 281.400 sem er 43% aukning miðað við janúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 47% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 17%. Í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag má sjá að aukningin á Vesturlandi og Vestfjörðum sem teknar eru saman í flokki var 62% á milli ára, í fyrra voru skráðar gistinætur í janúarmánuði 3.901        og í ár voru þær 6.311, ekki er boðið upp á sundurliðaðar tölur á milli landshlutanna og nær talningin einungis til hótela sem opin eru allt árið.

Flestar gistinætur á hótelum í janúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 206.500 sem er 30% aukning miðað við janúar 2016. Um 73% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Á tólf mánaða tímabili frá febrúar 2016 til janúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 3.907.600 sem er 34% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Á sama tíma var aukningin á Vestfjörðum og Vesturlandi 42%, þar sem skráðum gistinóttum fjölgaði úr 122.921 í 173.945.

Nánar um gistináttafjölda má lesa á vef Hagstofunnar.

annska@bb.is

DEILA