Um fiskeldi – meiri hagsmunir fyrir minni sérhagsmuni.

Magnús Reynir Guðmundsson

Síðustu ár hefur fiskeldi á suðursvæði Vestfjarða vakið verðskuldaða athygli.Bjartsýni íbúa á þessu svæði hefur aukist og íbúar annarra svæða á Vestfjörðum hafa fylgst með áformum um frekara fiskeldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi.

Enginn vafi  virðist vera á því að fiskeldi í stórum stíl geti haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum. Strandlengja Vestfjarða er u.þ.b. 1/3 hluti af strandlengju Íslands, tæplega 2.000 km. af  6.000 km. Vestfirðingar hafa gert sér grein fyrir þeim miklu möguleikum sem firðir þeirra og flóar geta haft í framtíðinni, m.a. í fiskeldi og ferðamennsku. Sveitarstjórnir á Vestfjörðum og víðar um land hafa þó bent á, að úthlutun þessara gæða er ekki í  þeirra höndum, heldur hjá ríkisstofnunum suður í Reykjavík. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta þannig, að sveitarstjórnirnar fái skipulagsvald og úthlutunarrétt  gæðanna, sem liggja við bæjardyrnar. Ekki er verið að krefjast þess að faglega hliðin, t.d. varðandi fiskeldið, verði ekki háð almennum landslögum hvað varðar umhverfi og eftirlit, en ráðstöfunarréttur verði alfarið í höndum heimafólks í gegnum sveitarstjórnir sínar.

Töluvert hefur borið á því að sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Orra nokkurn Vigfússon, sem virðist hafa það sem aðaláhugamál þessi misserin að koma íslenskum bújörðum í hendur breskra auðkífinga, reki skefjalausan áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum og þar með gegn atvinnuuppbyggingu og jákvæðri þróun byggðar á svæðinu. Þingmenn Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum verða nú að taka höndum saman og verjast óvinum landsbyggðarinnar á borð við Orra Vigfússon, „landsölumanninn“ sem kemur nú hverri  laxveiðiánni á fætur annarri í hendur breskra milljarðamæringa.

Magnús Reynir Guðmundsson

DEILA