Stóru málin í samfélaginu

Jóhann Bæring Pálmason

Undanfarana daga hefur nokkuð verið rætt og ritað um þrjú mál sem Í-listamenn hafa verið að reka í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Mál þessi eiga það sameiginlegt að varða nokkuð mikil fjárútlát til bæði skemmri og lengri tíma lítið og sitt sýnist hverjum.

Safnmuna geymslan sem engin virðist hafa áhuga á að flytja inn í.

Fyrir um ári síðan var gerður leigusamningur við einkahlutafélag um leigu á um 460 m² rými sem nýta ætti fyrir skjalasafn, byggðasafn og eitthvað fleira. Samningur sem sagður er hljóða upp á um 8,4 milljónir á ári og er til 10 ára.  Búið er að afhenta bænum húsnæðið en enginn virðist vilja flytja þar inn. Mun það vera vegna þess að brunavarnir eru í algerum ólestri og húsið heldur víst hvorki vatni eða vindum. Þarna stendur því ónotað húsnæði sem við greiðum 8,4 milljónir á ári fyrir eða 84 milljónir á samningstímanum.

Á sama tíma og verið er að byggja einangruð stálgrindarhús 312 m² að stærð fyrir um 50 milljónir. Hús sem vel mætti skipta upp í 2 hæðir að hluta eða öllu leyti og værum við þá komin með allt að 624 m². Að vísu ætti þá eftir að innrétta húsið, leggja rafmagn og vatn. Enn ég á erfitt með að ímynda mér að innréttingar, rafmagn og vatn í geymslu húsnæði færu mikið yfir 50 milljónir. Værum við þá komin með húsnæði til eignar til langs tíma.

Reiðvöllurinn sem varð að reiðhöllinni.

Þegar Bolungarvíkurgöngin voru byggð þurfti að flytja hesthúsabyggðina sem stóð í Hnífsdal. Byggðin var flutt inn í Engidal og frá þeim tíma hafa hestamenn og Ísafjarðarbær rökrætt um hvernig skuli bæta reiðvöllinn sem hestamenn höfðu byggt upp í Hnífsdal.

Í þónokkur ár hefur hestamönnum staðið til boða að byggður verði fyrir þá eins völlur og þeir höfðu á nýjum stað í Engidal eða að þeir fengju greiddar að mér skilst 27 milljónir og ættu að sjá um verkið sjálfir. Lengi vel hafa hestamenn ekki svarað tilboði bæjarins enn nú er komin upp ný staða. Reiðvöllurinn er skyndilega orðin að reiðhöll upp á 50 milljónir sem bærinn skal til framtíðar greiða 49% af rekstrarkostnaði til viðbótar.

Til að réttlæta þann samning sem nú er verið að gera við hestamenn er bent á að svo langt sé liðið frá því að völlurinn þeirra var tekinn og að HSV, regnhlífarsamtök íþróttafélaga, hafi lagt blessun sína yfir samninginn um byggingu reiðhallarinnar. Ég hef verið að hugsa nokkuð út í þátt HSV í þessu máli. HSV fær inn á borð til sín kynningu á samningi sem þau hafa enga aðkomu að. Eiga þau sem þar sitja að segja „nei þetta er ekki í samræmi við okkar markmið“. Af sjálfsögðu fagnar stjórn HSV allri uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu. Enn HSV er ekki aðili að samning þessum og hefur því ekkert um innihald hans að segja.

Það sem mér finnst alvarlegast við samning þennan er annars vegar að þarna er samið við eitt félag fram hjá þeim verkferlum sem komið hefur verið upp í samstarfi HSV og Ísafjarðarbæjar. En þar hefur HSV farið fyrir þeirri vinnu að forgangsraða þeim verkefnum sem íþróttafélögin vilja fara í og þannig hafa félögin komið sameinuð um verkefnalista til bæjarins. Eða er það kannski vilji núverandi bæjaryfirvalda að hvert og eitt félag komi og hamist í þeim með sýnar kröfur?

Hitt atriðið sem ég er ekki sáttur við í þessu ferli er að þarna á að byggja skemmu sem kannski 20 manns munu nota, enn á sama tíma eru hundruð barna hlaupandi um á ónýtu parketi í aðal íþróttahúsi bæjarins og hafa ekkert val um hvort þau mæti þar eða ekki.

Sundlaugin og sólbaðsaðstaðan.

Það er gaman að fara með börnin í skemmtilegan sundlaugargarð á góðviðrisdegi og horfa á þau skemmta sér á meðan maður liggur í pottinum og slakar á. Því miður hefur ekki verið hægt að gera hér á Ísafirði. En nú hyggst Í-listinn breyta því og byggja við Sundhöll Ísafjarðar útiaðstöðu með potti, rennibraut og busl laug. Þá á í leiðinni að gera nýja búningsklefa og eitthvað fleira. Framkvæmdir sem kosta eiga 408 milljónir og til viðbótar við það þarf svo að lagfæra gömlu laugina og allan búnað sem henni fylgir. Það mun vera framkvæmd sem kostar að mér er sagt af kunnugum mönnum um 300 milljónir.

Við erum sem sagt í þeirri stöðu núna að vera að velta því fyrir okkur hvort við eigum að byggja upp útiaðstöðu og endurbæta 60+ ára gamla 16,67 metra sundlaug fyrir um 700 milljónir. Á fundi um sundlaugamál með bæjarstjóra og þáverandi byggingafulltrúa Ísafjarðarbæjar, gaf byggingafulltrúinn það út að 25 metra útilaug með pottum og rennibraut myndi kosta um 750 milljónir. Miðað við hvað kostar að byggja 300 m² stálgrindaskemmu þá get ég ekki ímyndað mér að það kosti mikið meira en 200 milljónir til viðbótar að byggja yfir laugina.

 Í-listi lýðræðis og opinnar stjórnsýslu.

Ég minnist þess ekki að áður hafi jafn mörg mál komið inn á borð æðstu stofnana bæjarins jafn seint og nú. Málum sem þarf að afgreiða með flýti og helst áður en fundargerð er send út. Þetta er gert þrátt fyrir fögur fyrirheit um aukið lýðræði og gagnsæja stjórnsýslu sem mikið var rætt um fyrir síðustu kosningar.

Meirihlutinn talar um að aldrei hafi bæjarsjóður staðið jafn vel fjárhagslega og á sama tíma hefur minnihlutinn stórar áhyggjur af stöðunni. Minnihlutinn heyrist kvarta yfir því að fá seint og illa svör við fyrirspurnum sínum. Málum er snúa að yngstu borgurum okkar sífellt frestað og plástrar settir til að þagga aðeins niður í hópnum en á sama tíma er verið að ausa peningum í „hobbí“ verkefni okkar fullorðna fólksins.

Hvað þarf í gott samfélag?

Að mínu mati er það lykilatriði að vera með góð leik- og grunnskóla, góðar aðstæður til atvinnuskipunnar, heilbrigðisþjónustu og mannlíf. Þegar þetta er komið getum við farið að einbeita okkur að því að skapa aðstæður til tómstunda iðkunar.

Eins og staðan er í dag finnst mér við vera á kolvitlausum enda í uppbyggingu samfélags okkar. Undanfarna mánuði og ár höfum við verið í plástra leikjum með undirstöðuatriðin eins og leik- og grunnskólamálin. Höfum eitt fleiri tugum milljóna í bráðabirgðalausnir leikskóla, dægradvöl og félagsmiðstöð. Þau framtíðarplön sem við virðumst vera að leggja peninga í á þessari stundu auka bara enn frekar á þau vandræði sem við höfum verið að leysa til bráðabirgða og enn eru þau mikilvægu í lausu lofti.

Er ekki kominn tími á að við stokkum aðeins upp spilin aftur og byrjum á byrjuninni. Klárum að leysa úr vanda leik- og grunnskólanna. Förum svo í að huga að tómstundariðjum okkar eins og skjala og dóta söfnun, sólbaði og pottalegu eða dýratamningum.

Leikskólapláss og dægradvöl þurfum við til að foreldrar geti unnið og greitt útsvar. Sundlaug þarf að vera til að sinna lögboðinni skólaskyldu. Gólf íþróttahús þarf að vera heilt til að krakkar slasi sig ekki í lögboðnum kennslustundum. Klárum þessi verk og förum svo að huga að hinu sem skemmtir okkur.

Jóhann Bæring Pálmason

DEILA