Sigríður Ásgeirsdóttir sýnir í Gallerí Úthverfu

Það er nóg um að vera í myndlistarlífinu á Ísafirði um þessar mundir er önnur sýning vikunnar opnar í Gallerí Úthverfu. Nú stendur yfir sýning bandaríska myndlistarmannsins Cale Coduti en það er  Sigríður Ásgeirsdóttir sem opnar sýningu á verkum sínum á sunnudag. Sigríður sýnir þar vatnslitamyndir sem hún vann að í Siena á Ítalíu vorið 2016. Í þeim fæst hún við fræbera af ýmsum plöntum sem hún tíndi upp á leið sinni á vinnustofuna. Hún vatnslitaði hún plönturnar ferskar og svo aftur eftir því sem þær eltust þar til þær voru orðnar eins og kunningjar á vinnustofunni, málaðar á hinum ýmsu stigum þroskaferils síns. Nokkrir plöntuhlutanna eru einnig með á sýningunni.

Sigríður hefur allan sinn feril verið innblásin af náttúrunni og áhrifum náttúrunnar á mannssálina. En einnig af formunum sem náttúran er svo auðug af, yfirborði landsins og því óstjórnlega afli sem náttúran býr yfir. Þó Sigríður Ásgeirsdóttir hafi mest unnið í steint gler, þá hefur hún einnig notað margvísleg önnur efni til listsköpunar. Hún hefur unnið teikningar með títuprjónum, blýteikningar með lausu blýi, bókverk og skúlptúra.

Sigríður Ásgeirsdóttir lagði stund á myndlistarnám hér heima í Myndlistaskólanum í Reykjavik á árunum 1976-1978. Hún lauk BA Hon. prófi frá Edinburgh College of Art árið 1983 og Post Graduate Diploma frá sama skóla árið 1984.

Sýning Sigríðar opnar kl. 16 sunnudaginn 19. febrúar og stendur til sunnudagsins 19. mars. Hún er opin eftir hádegi virka daga og/eða eftir samkomulagi.

annska@bb.is

DEILA