Frumkvöðlakonur funda

Í kvöld efna Vinnumálastofnun og frumkvöðlakonur á Vestfjörðum til fundar í Vestrahúsinu. Á fundinum verða styrkir til atvinnumála kvenna kynntir en á vegum Vinnumálastofnunar hefur styrkjum til kvenna til að sinna viðskiptahugmynd eða þróa verkefni, verið veitt frá árinu 1991. Styrkirnir eru veittir af Velferðarráðherra en það er Vinnumálstofnun sem hefur vistað verkefnið hin síðari ár. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ár og er umsóknarfrestur til 20. febrúar.

Á fundinum í kvöld verður einnig kynning á FREE verkefninu en það er samstarfsverkefni fimm þjóða um að styrkja frumkvöðlakonur á landsbyggðinni. Það eru Ísland, Bretland, Litháen, Króatía og Búlgaría sem standa að þessu verkefni. Aðalmarkmið FREE verkefnisins, sem er styrkt af Evrópusambandinu,  er að aðstoða frumkvöðlakonur á landsbyggðinni til að koma hugmyndum sínum og fyrirtækjum á framfæri með fræðslu og hvatningu auk þess að efla tengslanet kvenna.  Markhópur verkefnisins eru frumkvöðlakonur sem hafa nú þegar viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd eða hafa nýlega stofnað fyrirtæki.

Tengslanet frumkvöðlakvenna á svæðunum verða sett upp og munu leiðtogar, frumkvöðlakonur sem eru í rekstri, stýra þeim á hverju svæði fyrir sig. Gert er ráð fyrir því að tengslanetið starfi í 10 mánuði að lágmarki á tilraunatímabilinu og að a.m.k. sex fundir verði haldnir á tímabilinu en þróun hvers tengslanets og framtíð er í höndum leiðtoganna sjálfra og netsins sem myndað verður og þannig því reynt að virkja grasrótina á hverjum stað.

Stofnaður hefur verið facebook hópur um verkefnið en fundurinn hefst kl. 20:00 í Vestrahúsinu.

DEILA