Vöntun á framtíðarsýn í fiskeldi

 

Það er skortur á heildstæðri framtíðarsýn varðandi fiskeldi í Ísafjarðardjúpi að mati skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar. Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um frummatsskýrslu Háafells ehf. um 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Nefndin gerir ekki athugasemd við frummatsskýrsluna en beinir því til ríkisvaldsins að veita fé til vinnu við strandsvæðaskipulags í Djúpinu. Sú vinna hófst fyrir nokkrum árum að frumkvæði sveitarfélaga og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Sú vinna hefur hinsvegar legið í dvala í þónokkurn tíma vegna fjárskorts og áhugaleysis ríkisvaldsins.

„Það er sérhverju samfélagi, stóru sem smáu, nauðsynlegt að geta nýtt aðliggjandi auðlindir sér og íbúum sínum til hagsbóta. Í því samhengi skiptir gríðarlega miklu máli að sú auðlindanýting skapi störf á svæðinu og auki hagsæld íbúanna, fyrirtækjanna og samfélaganna í heild,“ segir m.a. í umsögninni og jafnframt er bent á að bæjaryfirvöld hafa áhyggjur af því að að ekki liggi fyrir umhverfismat á heildarálagi fiskeldis í Djúpinu og hver sammögnunaráhrifin verða. Með því er átt við samlegðaráhrif margra fiskeldisleyfa sem og afleidd áhrif, eins og efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif.

smari@bb.is

DEILA