Skartaði glæsilegum bolvískum búningi í forsetaboði

Svanborg í góðum félagsskap með forseta vorum Guðna Th. Jóhannessyni

Bolvíkingurinn Svanborg Þóra Kristinsdóttir var sérlega glæsileg í boði sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid buðu til í menningarhúsinu við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld. Svanborg skartaði þar fallegum íslenskum upphlut og vakti mikla athygli fyrir glæsileika, en hún var eina konan sem var í íslenskum þjóðbúningi í samkvæminu. Búningurinn á sér langa sögu, hann kemur upphaflega frá langömmu Svanborgar Ingunni Guðlaugu Valmaríu Jóhannsdóttur frá Bolungarvík. Hún ætlaði búninginn svo sonardóttur sinni, Ingunni Hávarðardóttur og var amma Svanborgar, Sóley Magnúsdóttir búin að ákveða að Svanborg fengi síðan búninginn, en íslenskir búningar hafa í gegnum tíðina oft verið einhverjir dýrmætustu erfðagripirnir innan fjölskyldna.

Elstu hlutar búningsins nálgast brátt 150 ára aldur, en gullið og beltið er frá árinu 1870. Búningurinn hefur verið notaður af konum í ættinni en síðustu ár hefur hann verið í vörslu Svanborgar sem búsett er í Danmörku. Hún segist þar hafa fengið mörg tækifæri til að skarta búningnum en hún starfar sem upplýsingafulltrúi og verslunarstjóri í Nordatlantisk Hus í Óðinsvéum, meðal annars er hún var eitt sinn fjallkona í Óðinsvéum á 17.júní.

Svanborg segir í spjalli við Smartland að hinn nýi forseti Íslendinga hafi átt kvöldið og heillað alla upp úr skónum og geti Íslendingar sannarlega verið stoltir af honum. Segir hún aðkomu hans hafa staðið upp úr öðru þetta kvöld og nefnir sértaklega hversu vel máli farinn forsetinn sé og góður ræðumaður.

Svanborg var sérlega glæsileg í íslenskum upphlut. Mynd: mbl.is/Golli

annska@bb.is

DEILA