Ítreka ósk um vetrarþjónustu í sveitum

Önundarfjörður í vetrardýrð.

Búnaðarfélagið Bjarmi í Ísafjarðarbæ fer fram á að bæjaryfirvöld taki til efnislegrar meðferðar ósk félagsins um vetrarþjónustu á sveitavegum í bæjarfélaginu. Í byrjun desember fundaði félagið með bæjarstjóra, embættismönnum og fulltrúum Vegagerðarinnar þar sem félagsmenn rökstuddu ósk sína um vetrarþjónustu alla virka daga. Í dreifbýli í Ísafjarðarbæ eru yfir 30 heimili með heilsársbúsetu. Með bréfi til bæjarstjóra dagsettu 9. janúar er erindi Bjarma ítrekað og farið fram á málið fá efnislega afgreiðslu hjá stjórnýslu sveitarfélagsins þar sem „fyrrgreind fundarhöld virðast ekki hafa dugað til að máli komist í efnislega afgreiðslu,“ eins og það er orðað í bréfi formanns Bjarma.

Í afgreiðslu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að mikill vilji sé hjá Ísafjarðarbæ til að leita leiða svo bæta megi snjómokstur umfram það sem hann er í dag. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar og bæjarstjóri hafa verið með þetta mál til skoðunar  og vonast bæjarráð er til að hægt verði að þoka þessum málum til betri vegar.

smari@bb.is

DEILA