Gísli á fjalirnar á morgun

Okkar maður er mættur í Þjóðleikhúsið og er að gera klárt fyrir fyrstu sýningu á Gísla á Uppsölum en uppselt mun vera á fyrstu þrjár sýningarnar og bætti leikhúsið snarlega við þremur sýningum við þær upphaflegu þrjár sem voru fyrirhugaðar. Á heimasíðu Þjóðleikhússins er sýningunni líst sem einstöku leikverki um einstakan mann, hér sé um að ræða áhrifamikla sýningu sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar. Fyrsta sýning er á morgun kl. 19:30.

Elfar Logi hefur farið víða um land með þetta fertugasta leikverk sem Kómedíuleikhúsið hefur sett upp en vinsælast hingað til hefur verið einleikurinn um Gísla Súrsson. Í viðtali við bb.is í nóvember sagði Elfar: „Ég er bara í Gíslatöku ekkert annað og ann því vel, ætli maður geri ekki næst leikrit um vorn bæjarstjóra Gísla Halldór eða nafna hans Landa Einarsson.“

Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi fer fögrum orðum um sýningu Elfars, „Þeir Elfar Logi og Þröstur Leó fara afskaplega næmum höndum um þetta viðkvæma efni og draga upp látlausa en blæbrigðaríka mynd af einbúanum og einstæðingnum sem þjóðin tók á einhvern undarlegan hátt að hjarta sér þegar hún kynntist honum fyrst í frægum þáttum Ómars. Örlög hans, hvernig stórvel gefinn maður dagar uppi í íslenskum afdal á tuttugustu öld, eru og verða trúlega alltaf ráðgáta. Ráðningu þeirrar gátu er ekki að finna í þessar fallegu sýningu og það er kannski, þegar upp er staðið, hennar helsti styrkur.“

Nú gefst sunnlendingum tækifæri til að njóta listar Elfars Loga og rifja upp í leiðinni þá upplifun að minnast Gísla á Uppsölum sem við kynntumst með Ómari Ragnarssyni.

bryndis@bb.is

DEILA