6 nemendur við Finnbogastaðaskóla

Síðasta vor var sagt frá því að líkur væru á að skólahald í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi legðist af, er útlit var fyrir um hríð að einungis eitt barn myndi stunda nám við skólann komandi starfsár. Í ágústmánuði taldist þó tryggt að af skólahaldi yrði og voru þá fjögur börn skráð til náms við skólann. Máltækið segir að það sé lengi von á einum og jafnvel tveimur líkt og í þessu tilfelli, en sex nemendur stunda nú nám við skólann. Jón G. Guðbjörnsson greinir á Litlahjalla frá þeim miklu breytingunum sem urðu á Finnbogastaðaskóla á síðasta ári er allt starfsfólk skólans hætti:

Elísa Ösp Valgeirsdóttir hætti sem skólastjóri í lok október, en hún var búin að vera skólastjóri frá árinu 2010. Einnig hætti Vígdís Grímsdóttir sem kennari, hún var búin að vera kennari við skólann frá 2012. Þá hætti Hrefna Þorvaldsdóttir sem matráður um áramótin, en hún var búin að vera matráður við skólann í um 25 ár meira og minna. Í haust tók Helga Garðarsdóttir við sem skólastjóri og nýr kennari við skólann er Selma Kaldalóns og maður hennar Björn A Guðbjörnsson, og er hann matráður við skólann. Selma og Björn komu með tvö börn sem eru á skólaskyldum aldri. Nú eru sex börn við nám í Finnbogastaðaskóla.  Allt þetta nýja starfsfólk kemur af höfuðborgarsvæðinu segir í frétt Jóns.

annska@bb.is

DEILA