Íhuguðu að sniðganga tendrun jólaljósanna

T.Í. hefur komið að tendrum jólaljósanna með margvíslegum hætti og má hér sjá Lúðrasveitina leika fyrir gesti

Kennarar við Tónlistarskólann á Ísafirði sýndu á fundi sínum á mánudag eindreginn vilja til að koma ekki að tendrun jólaljósanna á Silfurtorgi með nokkrum hætti, en Lúðrasveit skólans og barnakór hafa í gegnum tíðina glatt bæjarbúa með tónlistarflutningi sínum við þetta tilefni. Einnig er hefð fyrir því að T.Í. og velunnarar skólans haldi vinsæla torgsölu sína við tendrunina. Í hugum margra eru þessir tveir viðburðir líkt og hanski og hönd sem falla fullkomlega að hvoru öðru og þætti algjört óráð að hrófla við einhverju sem hefur gefist svo vel.

Ástæða þess að kennarar vildu ekki koma að skemmtuninni þessu sinni er að þeir vildu vekja athygli á því að tónlistarkennarar hafa nú verið samningslausir í tæpa 13 mánuði. Segja þau að hvorki virðist ganga né reka í samningaviðræðum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og samninganefndar sveitarfélaganna, þar sem kennarar krefjast þess að störf þeirra verði metin til jafns við störf kennara í öðrum skólagerðum. Tónlistarkennarar eru að jafnaði með 10-15% lægri laun en grunnskólakennarar og gera má ráð fyrir að munurinn verði jafnvel enn meiri eftir nýgerða kjarasamninga við FG. Segir frá þessu í færslu um Torgsöluna á Fésbókarsíðu skólans.

Aðventan er mikill álagstími hjá tónlistarkennurum og tónlistarfólki því tónlistin er ómissandi hluti hennar rétt eins og jólaljósin. Segja kennarar að þeir finni ávallt velvilja bæjarbúa en hann verði þó ekki látinn í launaumslagið, því var þetta örþrifaráð íhugað af kostgæfni, en eftir mikla umhugsun ákváðu stjórnendur skólans í samráði við kennara að Tónlistarskólinn taki sem fyrr þátt í þessari gleðistund bæjarbúa þrátt fyrir allt. Við þá ákvörðun vó þyngst samfélagsleg ábyrgð og að gefa börnunum kost á að rækta þá tilfinningu.

Er því á ný leitað til foreldra nemenda skólans og forráðamanna, um að gefa varning á torgsöluna, tertur, smákökur, jólasælgæti, jólasíld, föndur eða annan skemmtilegan varning, sem tekið verður á móti í anddyri Grunnskólans á laugardaginn frá kl 14-15.

annska@bb.is

DEILA