Að kunna að haga sér

Bryndís Sigurðardóttir

Sjónvarp allra landsmanna varpaði kastljósi sínu á dögunum á hörmulega og glæpsamlega meðferð á dýrum og á gróflega misnotkun á vilja almennings til að kunna haga sér í samfélagi manna og dýra. Vangeta, jafnvel viljaleysi, eftirlitsaðila til að taka á gráðugum dýraníðingum var himinhrópandi og málið getur ekki stoppað hér. Þó Brúnegg hafi lokað heimasíðu sinni þýðir það ekki að fyrirtækið hafi hætt rekstri, og það eru fleiri „Brúnegg“, fleiri framleiðendur sem fara ekki að lögum, sem hirða ekki um búpening sinn svo sómi sé að. Þó fjölmiðlar leiki mikilvægt hlutverk í svona eftirliti eru það þó opinberar eftirlitsstofnanir sem bera fyrst og fremst ábyrgð á að stöðva svona starfsemi. Allar skýrslur og álit þurfa að vera opinber svo neytendur og fjölmiðlar geti séð svart á hvítu hvernig málum er háttað.

Það er eins og einhvers konar meðvirkni í bland við ábyrgðarleysi, jafnvel heimildaleysi valdi því að eftirlitsstofnanir taka ekki til sín ábyrgð á upplýsingagjöf til almennings. Það er ekki langt síðan að Flateyringar drukku óafvitandi svo vikum skipti saurgerlamengað vatn vegna þess að enginn tók til sín þá ábyrgð að láta vita. Ekki Matís sem greindi mengun í neysluvatnssýni, ekki Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða né Ísafjarðarbær þrátt fyrir að fá upplýsingar þar um.

Við kjósum 63 þingmenn á alþingi, þeirra hlutverk að er að setja lög og reglur um hvernig æskilegt þykir að landinn hagi sér, hvað má og hvað má ekki. Við setjum umferðalög, lögreglan hefur eftirlit með að þeir sem ferðast í umferðinni lúti reglum og það eru viðurlög fyrir þá brotlegu. Við setjum lög um dýravernd og matvælaframleiðslu og setjum á stofn stofnanir sem eiga að fylgjast með að þeim lögum sé fylgt og við ætlumst til að þeir sinni vinnunni sinni. Það geta ekki allir verið með nefið ofan í gripahúsum bænda, við eigum að geta treyst því að þartilgerðar stofnanir geri það.

Ef neytendur gera kröfur um almennt hreinlæti og heilbrigði í matvælaframleiðslu, þurfa þeir að hætta að gera kröfu um niðurskurð í „eftirlitsiðnaði“ og ef íslendingar vilja að umhirða dýra sé forsvaranleg og samkvæmt lögum verða þeir að tíma að reka „eftirlitsstofnanir“. Næst þegar harðduglegir athafnamenn og konur kvarta yfir reglugerðafargani og rándýrum eftirlitsiðnaði er ástæða til að kveikja á gagnrýnisselluni. Og næst þegar eftirlitsstofnun verður uppvís að lélegum vinnubrögðum verða starfsmenn hennar látnir sæta ábyrgð, undanbragðalaust. Það gildir líka þegar ráðherra/ráðuneyti láta undir höfuð leggjast að styðja eða styrkja sínar stofnanir.

BS

DEILA