Stofnvísitala þorsks lækkar

Stofnvísitala þorsks samkvæmt haustmælingu hefur lækkað töluvert frá árinu 2017 þegar hún mældist sú hæsta frá upphafi haustmælingarinnar og er nú svipuð því sem hún var árin 2008-2009.

Lægri vísitala í ár stafar af því að minna fékkst af 35-75 cm þorski. Stofnvísitala ýsu hefur farið hækkandi frá 2017 en vísitala ufsa hefur farið lækkandi frá árinu 2018.

Fæða þorsks var fjölbreytt en magn loðnu, rækju og ísrækju í mögum þorsks hefur minnkað á síðari árum. Á haustin eru ýmis botndýr algengasta fæða ýsu en meira var nú af síli í mögum ýsu en sést hefur frá árinu 2007.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna Hafrannsóknastofnunar í stofnmælingum botnfiska að haustlagi en leiðangurinn fór fram dagana 4. október til 3. nóvember 2021. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!