Sjávarútvegsskólinn kominn með nema eftir árs hlé

Árið 2020 var fyrsta starfsár Sjávarútvegsskólans undir merkjum UNESCO.

Frá upphafi hefur Sjávarútvegsskólinn verið rekinn af Hafrannsóknastofnuninni og boðið upp á rannsóknartengt sex mánaða þjálfunarnám fyrir fagfólk í sjávarútvegi frá þróunarlöndum.

Eftir um árs hlé hefur skólinn nú aftur tekið til starfa og er hópurinn nú sá stærsti og kemur frá 17 löndum.

Þriðjudaginn 14. september var hefðbundinn dagur brotinn upp og farin vettvangsferð í Tilraunaeldisstöðina að Stað við Grindavík þar sem starfsmenn stöðvarinnar, þeir Matthías, Agnar og Tómas tóku á móti hópnum og kynntu fyrir honum starfsemina. Stöðin vakti mikinn áhuga og útskýrðu starfsmennirnir hin ýmsu verkefni sem þar eru unnin. Fólkið var mjög áhugasamt og spurði mikið út í starfsemina.

Auk starfsmanna Sjávarútvegsskólans, þeirra Stefáns, Agnesar og Zaw var Haraldur Einarsson veiðarfærasérfræðingur með í för og leiddi fólk í allan sannleika um ólík veiðarfæri og virkni þeirra við netaverkstæðið í Grindavík.