Vesturverk: áfram unnið að Hvalárvirkjun

Vesturverk segir í eftirfarandi athugasemd að Hvalárvirkjun hafi ekki verið slegið á frest heldur hafi verið hægt á undirbúningi virkjunarinnar og miðað sé við að vera samhliða framvindu skipulags  fyrir tengilögn frá nýrri virkjun og að tengistöð.

Athugasemd Vesturverks:

Í ágætri grein Teits Björns Einarssonar 23.8. er eftirfarandi málsgrein sem VesturVerk ehf. vill leiðrétta:

“Austurgils-, Skúfnavatna- og Hvalárvirkjun eru allt spennandi virkjanakostir en kalla á nýjan tengipunkt inná kerfi Landsnets í Ísafjarðardjúpi. Þessir kostir hafa verið í deiglunni og undirbúningur Hvalárvirkjunar var langt kominn þegar framkvæmdaraðili ákvað að slá öllu á frest vegna kostnaðar við að tengjast kerfinu í Ísafjarðardjúpi samkvæmt gildandi gjaldskrá. Þar við situr og er ekkert í hendi um framhaldið”.

VesturVerk ákvað ekki að „slá öllu á frest” eins og það er orðað í grein Teits, heldur að hægja á undirbúningi virkjunar Hvalár á meðan Landsnet vinnur að skipulagsmálum fyrir tengilögn frá virkjun að nýrri tengistöð sem er í undirbúningi við innanvert Ísafjarðardjúp. Það er ljóst að Landsnet á fyrir höndum vinnu að skipulagsmálum næstu tvö til þrjú árin og miðast undirbúningur Hvalárvirkjunar við að vera samhliða í þeirri vinnu þannig að tímasetning framkvæmda beggja aðila haldist í hendur.

VesturVerk vinnur áfram að rannsóknum á vatnasviðum Hvalárvirkjunar, Skúfnavatnavirkjunar og Hvanneyrardalsvirkjunar. Er nýlokið ferð á Ófeigsfjarðarheiði til aflestrar og ástandsskoðunar á mælum félagsins en á síðasta ári var farið á heiðina í leysingum til að ná snjó- og flóðamælingum. Munu upplýsingar vera notaðar m.a. til að bæta reiknilíkan fyrir mat á rafmagnsframleiðslu.

VesturVerk hefur nýlokið samningum við landeigendur um framlengingu á gildistíma rannsóknar- og nýtingarsamnings og heldur ótrautt áfram undirbúningi að virkjunarhugmyndum sínum.