Hljóp Boston-maraþonið á Ísafirði

Boston-maraþonið átti að vera í apríl en vegna COVID var því frestað í fyrsta sinn í meira en 120 ára sögu hlaupsins. Að endingu var ákveðið að maraþonið yrði rafrænt, því máttu þátttakendur hlaupa hvar sem er í heiminum.

Tyler Wacker, meistaranemi í Sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða hljóp til dæmis í Bostonmaraþoninu á Ísafirði og til Bolungarvíkur síðastliðinn miðvikudag.

Samnemendur hans í Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun studdu dyggilega við bakið á honum.

Hlaupinu lauk hann á 3 tímum og 55 mínútum. Þetta er í sjötta sinn sem Wacker hleypur maraþon.

Hann sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta hlaup hafi verið mjög sérstakt.
Yfirleitt eru maraþon mannþröng og þar er erfitt fyrir vini þína og fjölskyldu að finna þig. Þegar þú ert einn að hlaupa vita allir nákvæmlega hvar þú ert. Það var sérstakt að því leytinu til, vinir mínir hittu mig á nokkrum stöðum og gáfur mér vatn og háa fimmu. Þannig að, algjörlega minnisstætt maraþon.

Veðrið var mjög gott. Það var svolítið erfitt, að koma til baka frá Bolungarvík. Ég hafði vindinn í fangið og það var erfiðasti hlutinn.

DEILA