Bolungavík: 160 m.kr. í útsýnispall

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt Bolungavíkurkaupstað 160 milljóna króna styrk til þess að  gera útsýnispall á toppi Bolafjalls við fjarðarminni Ísafjarðardjúps, ásamt frágangi á landi í nánasta umhverfi hans.

Útsýnispallurinn hangir utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands.

Bygging útsýnispallsins byggir á hönnun tillögu Sei Arkitekta, Landmótun og Argos sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnunina.

Í umsögn sjóðsins segir að um mjög spennandi innviðauppbygging sé að ræða , sem stuðlar að bættu öryggi ferðamanna og skapar nýtt aðdráttarafl á veiku svæði.

Styrkurinn er veittur með fyrirvara um veitingu framkvæmdaleyfis.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!