Hörður: Tveir heimaleikir um helgina í handbolta

Um helgina spilar Hörður tvo leiki við HK U heima á Ísafirði.  HK er í sjöunda sæti deildarinnar með 6 stig og eiga heimamenn góða möguleika að ná hagstæðum úrslitum úr þessum rimmum.

Um síðustu helgi lagði Hörður leið sína til Akureyrar þar sem keppt var við Þór U.  Harðverjar voru lengi í gang og lentu sjö mörkum undir í byrjun, góður kafli skilaði liðinu nær Þórsurum og voru hálfleikstölur 18 – 16 Þór í vil.  Þórsarar voru erfiðir við að eiga og lokutölur voru 38 – 30 fyrir Þór, þrátt fyrir góðan leik Óla Björns sem skoraði 8 mörk.  Annar dómari leiksins sem dæmt hafði bikarleik Harðar á Ísafirði sagði að Harðverjar hefðu tekið gríðarlegum framförum síðan í haust og óskaði Carlosi þjálfara til hamingju með þann árangur.

Leikirnir tveir við HK fara fram á Torfnesi laugardaginn 25. janúar klukkan 18:00 og sunnudaginn 26. janúar klukkan 12:00.