Sjávarútvegsmótaröðin í Vesturbyggð

Keppendur á Oddamótinu. Mynd: Gunnar Þórðarson.

Fyrra mótið var haldið á laugardeginum á Litlueyrarvelli á Bíldudal, í blíðskaparveðri. Keppendur voru 42 og keppt í höggleik og punktakeppni.

Það er Golfklúbbur Bíldudals sem hélt mótið sem var styrkt af laxeldisfyrirtækinu Arnarlax. Arnarlax var stofnað 2009 af rótgrónum Bílddælingum sem vildu snúa vörn í sókn í atvinnumálum staðarins. Fyrirtækið er í dag stærsta fiskeldisfyrirtæki á Íslandi með yfir 100 manns í vinnu á Bíldudal, Hafnarfirði, Bolungarvík og Þorlákshöfn.

Sigurvegari í höggleik kvenna var Sólveig Pálsdóttir frá Ísafirði Með 84 hög, Einar Gunnlaugsson í höggleik karla með 73 högg og sigurvegari í unglingaflokki yngri en 17 ára var Ásgeir Óli Kristjánsson með 81 högg og sigurvegari í unglingaflokki var Jón Gunnar Shiransson.

Í punktakeppni án forgjafar sigraði Ásgeir Óli Kristjánsson með 25 punkta, Jón Gunnar Shiransson sigraði unglingaflokk með 23 punkta, Einar Gunnlaugsson í karlaflokki með 34 punkta og Ólafía Björnsdóttir sigraði í kvennaflokki með 22 punkta. Í punktakeppni með forgjöf sigraði Unnsteinn Sigurjónsson frá Bolungarvík með 38 punkta.

Á sunnudeginum var Oddamótið haldið á Vesturbotnavelli við Patreksfjörð. Það var Golfklúbbur Patreksfjarðar sem hélt mótið með stuðningi Odda hf. Það voru þrjátíu þátttakendur sem þreyttu keppni í mildu sumarveðri.

Oddi er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða og rekur eigin útgerð, vinnslu og markaðs-starfsemi. Félagið gerir út skipin Núp BA og Patrek BA, sem samanlagt afla á fimmta þúsund tonn af fiski. Fyrirtækið er með salfiskframleiðslu, framleiðir ferskvöru til útflutnings ásamt frystingu. Fyrirtækið á sögu til ársins 1967 en það var stofnað til að vinna afla af 100 lesta báti, Vestra BA-63.

Sigurvegari í höggleik kvenna var Brynja Haraldsdóttir á 91 höggi, í höggleik karla sigraði Kristinn Þórir Kristjánsson með 79 högg og sigurvegari í unglingaflokki var Jón gunnar Kanishka Shiransson með 88 högg.

Í punktakeppni með forgjöf sigraði Guðni Ólafur Guðnason með 43 punkta.

Keppendur á mótinu á Bíldudal.
Mynd: Gunnar Þórðarson.

Fyrir þá sem ekki þekkja vel til golfíþróttarinnar er rétt að útskýra muninn á höggleik og punktakeppni; með eða án forgjafar. Í höggleik er einfaldlega talið á hversu mögum höggum kylfingur klárar 18 holur, og er þar talað um að hann sé á pari, eða undir/yfir pari. Par vallararins er ákveðið og eru vellir yfirleitt með par þrjú holur, par fjögur eða par fimm holur. Punktamót er hins vegar miðað við punktakerfi þar sem hver hola er gerð upp fyrir sig eftir ákveðinni aðferð. Þó menn klúðri einni eða tveimur holum með skramba eða þaðan af verra, geta þeir endað sem sigurvegarar ef vel gengur með restina. En þá er komið að fyrirbæri sem heitir punktakeppni með forgjöf. Þar sem allir keppendur hafa sömu möguleika, enda leikur hver og einn á sinni forgjöf. Sá sem er með t.d. níu punkta far níu högg dregin af hringnum og sá sem er með 18 í forgjöf fær eitt högg í forgjöf á hverja holu. Þetta kerfi er án efa ein af ástæðum þess hversu vinsæl golfíþróttin er og almenn þátta í mótum er mikil. Kerfið er reyndar þannig að þó aðili hafi háa forgjöf, þarf hann að spila mjög vel miðað við sína getu til að sigra mót. Það er ekkert gefið hvað það varðar.

Næsta mót Sjávarútvegsmótaraðarinnar verður haldið á Tungudalsvelli 13. júlí og daginn eftir fylgir Klofningsmótið í kjölfarið.

DEILA