Endurskoðuð tekju- og eignamörk vegna íbúða

Félags- og barnamálaráðherra hefur gefið út reglugerð sem felur í sér endurskoðuð tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu. Tekju- og eignamörkin gilda einnig um leigjendur íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur veitt lán til og eingöngu eru ætlaðar tilgreindum hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum.

Tekjumörk

Samkvæmt uppfærðum tekjumörkum skulu árstekjur leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu ekki nema hærri fjárhæð en 5.345.000 kr. (í stað 5.105.000 kr. áður) fyrir hvern einstakling en 7.484.000 kr. (í stað 7.148.000 kr. áður) fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.336.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu (í stað 1.276.000 kr. áður).

Eignamörk

Samanlögð heildareign leigjenda almennra íbúða að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 5.769.000 kr. (í stað 5.510.000 kr. áður).

DEILA