Kynntar tillögur um betra íbúalýðræði

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 12. nóvember voru kynntar tillögur Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur að betra íbúalýðræði. Í tillögunum kemur fram að með vísan í málefnasamning Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ hafi eitt af áhersluatriðum meirihlutans verið að tengja hverfisráðin betur við bæjarstjórn. Það væri til dæmis hægt með því að bæjarstjórn tilnefni bæjarfulltrúa sem tengilið við hverfisráð og að bæjarstjórn eða bæjarráð fundi með hverfisráðum. Þá væri mögulegt að bæjarstjórnarfundir yrðu haldnir reglulega í minni byggðalögum og að íbúafundir yrðu haldnir oftar um ákveðin málefni sem væru á döfinni hverju sinni.

Þórdís Sif leggur þess vegna til að bæjarstjórn ákveði hvernig farið verði með málefni íbúalýðræðis í stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar og að bæjarstjórn tilnefni bæjarfulltrúa sem tengiliði hverfisráða. Þeir bæjarfulltrúar sjá þá um að fylgja eftir málefnum síns hverfis en reynslan af þessu verði endurmetin að tveimur árum liðnum.

Þá er meðal annars lagt til að bæjarmálasamþykktum verði breytt þannig, að almennt verði leitað álits hverfisráða í þeim málum sem metin eru mikilvæg fyrir bæjarfélagið eða hafi bein áhrif á íbúa byggðakjarnans. Hverfisráðum verði þó alltaf heimilt að senda Ísafjarðarbæ umsagnir eða tillögur. Svo er nefnt að bæjarstjórn geti mótað ferla þar sem hverfisráð og aðrir aðilar sem eru í samskiptum við bæinn geti fylgt eftir sínum erindum og séð hvernig þeim framvindur innan kerfisins.

Einnig er mælst til þess að bæjarstjórn fundi með hverfisráði, ungmenna- og öldungaráði að minnsta kosti einu sinni á ári. Og samráðsfundur bæjarstjórnar og formanna hverfaráða verði einnig einu sinni á ári.

Fyrstu skrefin gætu falist í því að bæjarstjórn tilnefni bæjarfulltrúa sem tengiliði. Með því væri komið til móts við einhver þeirra atriða sem nefnd voru á málþingi 2017 en þar var fjallað um það hvernig mætti gera góðan bæ betri. Með þessu gæti skapast meira traust á milli íbúa og bæjarstjórnar, hverfisráðin væru meira ráðgefandi og samskiptum milli hverfisráða og fulltrúa bæjarstjórna komið í fastari skorður. Þá fylgdi með meiri staðarþekking í bæjarráð og hægt væri að koma upplýsingum beint á framfæri við bæjarfulltrúa, svo dæmi séu nefnd.

Þórdís Sif bæjarritari býðst til að gera tillögu að viðmiðum sem skulu viðhöfð í samskiptum tengiliða og hverfisráðs. Hún leggur jafnframt til að þar sem hverfaráðin séu sex talsins en bæjarfulltrúar níu, þá verði annað hvort tveir til vara eða að tveir tengiliðir verði við þau hverfisráð sem lengst eru frá Ísafirði, eins og í Dýrafirði, Önundar- og Súgandafirði. Gætt verði þess að þeir tengiliðir komi ekki úr sama flokki.

Niðurstaða bæjarráðsfundar var sú að fela bæjarstjóra að gera tillögu að hlutverki tengiliðs við hverfisráðin. Bæjarráð fól bæjarstjóra enn fremur að gera breytingar á erindisbréfi bæjarráðs vegna meðferða íbúalýðræðismála í stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA