Heimabakað og heimilislegt andrúmsloft í Albínu á Patreksfirði

Hjónin Jóhann Magnússon og Ingunn Jónsdóttir tóku við rekstri verslunarinnar Albínu á Patreksfirði síðastliðinn vetur. Þau eru að eigin sögn landsbyggðarfólk og hafa komið víða við. Jóhann er ættaður frá Akranesi og Ingunn frá Siglufirði. Ingunn flutti til Patreksfjarðar til systur sinnar til að fara í skóla og síðar að vinna og Jóhann var á sjó á Patreksfirði og leiðir þeirra lágu saman þar. Þau byrjuðu búskap sinn á Patreksfirði og bjuggu hér fram til þrítugs. Þá fór Jóhann í nám á Bifröst í Borgarfirði en stofnaði útgerð eftir eitt ár í námi og fluttu þau hjón í kjölfarið í Hvalfjörðinn þar sem Jóhann gerði út í 10 ár. Eftir það gerðust þau kartöflubændur í Þykkvabæ í fimm ár og prufuðu svo að búa í Reykavík í 5 ár í kjölfarið af því. Jóhann segir blaðamanni BB að hann hafi svo hafa lenti í verkefnum hjá Arctic Fish, fyrst sem rekstrarstjóri í eitt ár á Flateyri, svo suður með sjó til að standsetja seyðastöð þar í eitt ár og svo fengið stöðu hjá Fjarðalaxi á Patreksfirði. Hann setti það skilyrði að Ingunn flytti vestur með sér í það skiptið því eftir að hafa hætt á sjó hafi hann lýst því yfir að vilja prufa að búa með konunni sinni í eitt skipti.

Starfið á Patreksfirði reyndist endasleppt en fjórum mánuðum eftir að hafa hafið störf þar yfirtók Arnarlax Fjarðarlax og staðan hans Jóhanns var lögð niður. Eftir það starfaði Jóhann hjá Kalkþörungafélagi Íslands en líkaði ekki við það og í kjölfarið tóku þau hjón við versluninni Albínu. Aðspurð segja þau að það hafi nú aldrei blundað í þeim að vera verslunareigendur, aðstæður hafi meira ráðið því. „Ég held að þetta sé aldrei markmið hjá einum eða neinum að reka verslun í 700 manna samfélagi, það er ekki gróða bisness. Eldamennska hefur alltaf blundað í mér og mér finnst gaman að vera í þjónustu við fólk, það gefur ákveðið auka eitthvað sem þú getur ekki metið til fjár. Ég var skipstjóri í 20 ár og þetta er svona hæfilega lítið hér í búðinni, hér get ég verið minn skipstjóri en það er nú reyndar þannig að konan sér meira og minna um verslunina og ég stend í eldhúsinu.“ segir Jóhann og brosir.

Þau hjón segja þetta vera heilmikið starf til að byrja með, það hafi þurft að endurskipuleggja fyrirtækið en reksturinn er 23 ára gamall. Hjón sem stóðu á bakvið þetta áður höfðu staðið myndarlega að rekstrinum að þeirra sögn og Ingunn og Jói mátu það sem svo að fólk vildi hafa þessa þjónustu áfram og ákváðu að demba sér í slaginn og láta þessa gamalgrónu verslun ganga í endurnýjun lífdaga sinna. Það fyrsta sem þau breyttu var að leggja meiri áherslu á eldhúsið og bjóða meira upp á tilbúinn mat þar.

Að sögn þeirra hjóna þá er byggðin hér á Vestfjörðum afar brothætt og framtíðarhorfur landsvæðisins muni ráðast mikið af því hvernig gengur í uppbyggingu laxeldis. „Þetta ræðst líka mikið af því hvernig bæjaryfirvöld hér á Vestfjörðum beita sér í þessum málaflokki því hér er verið að útdeila auðlindum og nauðsynlegt að gæta að sér í opinberum framkvæmdum og þróun samfélagsins. Ef farið er of geyst þá er það hættulegt. Þegar ný fyrirtæki hefja rekstur, svokallaðir frumkvöðlar, þá ætla þeir sér mikið og hafa stór plön, en það telst gott ef 50% af þeim áætlunum ganga eftir. Ef sveitarfélög fara of geyst í framkvæmdum þá er hætt við að það geti farið illa. En vonandi blessast þetta nú allt saman. En gott er að hafa það í huga að þetta verða aldrei stór samfélög hér, enda ráðast lífsgæði ekki endilega af fjöldanum.“ segir Jóhann.

Framtíð þeirra hjóna í versluninni Albínu er óskrifað blað að þeirra sögn. Það munu fleiri breytingar í versluninni líta dagsins ljós í haust en þar til þær birtast þá vilja þau halda þeim fyrir sjálfan sig þar sem þetta er samkeppnisrekstur. „Þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Við höfum verið að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur hingað til. Að vísu er ekkert sumar, það var seinkun á Vestfirska vorinu og það hefur áhrif á svona rekstur. Þess vegna höfum við þurft að segja upp fólki, en það kemur sumar aftur eftir þetta sumar.“ segir Jóhann að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is