Íbúðalánasjóður hyggst setja landsbyggðina á oddinn

Nauðsynlegt er að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu húsnæðis um allt land. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri ályktun stjórnar Íbúðalánasjóðs, en stjórnin fundaði á Sauðárkróki fyrir helgi. Tilefni fundarins þar var opnun nýs húsnæðisbótasviðs Íbúðalánasjóðs sem varð til með yfirtöku sjóðsins á útgreiðslum húsnæðisbóta. Stjórnin samþykkti einnig að grípa til aðgerða til að bæta stöðu leigjenda sem rannsóknir sýna að búa við mun hærri húsnæðiskostnað en aðrir hópar.

Félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, var viðstaddur opnun húsnæðisbótasviðsins á Sauðárkróki og fagnaði í ávarpi sínu ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að setja húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni í forgang. Þá sagði hann leigjendur vera hóp sem þurfi verulega aukinn stuðning enda búi allt of stór hluti þeirra við fátækt og lítið sem ekkert húsnæðisöryggi.
„Landsbyggðin hefur því miður allt of lengi setið eftir í úrræðum stjórnvalda. Það er nauðsynlegt að fara í aðgerðir til þess að tryggja betur húsnæðisöryggi landsmanna, óháð búsetu. Við getum ekki látið það viðgangast að fólki mæti húsnæðisskortur og oft á tíðum val um annars flokks húsnæði þegar það flyst út á land, því það er oft eina húsnæðið sem er laust. Þetta er óviðunandi og skekkir enn frekar samkeppnisstöðu minni sveitarfélaga,“ er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

DEILA