Yfirstjórn slökkviliðsins færist til Ísafjarðar

Yfirstjórn slökkviliðs Súðavíkurhrepps mun færast til slökkviliðs Ísafjarðarbæjar samkvæmt þjónustusamningi sem sveitarfélögin vinna að. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að áfram verði starfrækt slökkvilið í Súðavík. „Eina breytingin verður sú að það verður ekki slökkviliðsstjóri í Súðavík heldur verður yfirumsjón liðsins hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar sem mun sjá um æfingar, halda utan um útkallslista og þess háttar,“ segir Pétur.

Hann segir að á kjörtímabilinu hafi Súðavíkurhreppur lagt áherslu á og verið forystu um að mynda brunasamlag Ísafjarðarbæjar, Súðavíkuhrepps og Bolungarvíkurkaupstaðar og hann telur þjónustusamning Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps vera eitt skref í því.

smari@bb.is

DEILA