Það er pláss fyrir fleiri félaga í Tónlistarfélaginu

Tónlistarfélag Ísafjarðar hefur nú starfað í tæp 70 ár en á síðustu árum hefur af ýmsum orsökum félögum fækkað og nú skorar félagið á íbúa að ganga til liðs við félagið.

Hér að neðan er áskorun frá Tónlistarfélaginu:

Áskorun frá Tónlistarfélagi Ísafjarðar

Tónlistarfélag Ísafjarðar hefur nú starfað í tæp 70 ár af miklum krafti og metnaði. 

Meginverkefni félagsins alla þessa áratugi hefur verið starfsemi Tónlistarskóla Ísafjarðar, að hlúa að skólastarfinu og ekki síst tryggja skólanum gott húsnæði sem tókst loks með miklum ágætum fyrir tæpum 20 árum. 

En Tónlistarfélagið hefur líka haldið uppi gríðarlega metnaðarfullu tónleikahaldi gegnum tíðina og veitt Ísfirðingum og nágrönnum tækifæri til að hlýða á sumt það besta í íslensku tónlistarlífi auk þess að hingað hafa komið fjölmargir erlendir listamenn í heimsklassa og leikið á vegum félagsins. Og Ísafjörður hefur löngum haft einstaklega gott orð á sér meðal tónlistarmanna, sem sækjast eftir að leika í yndislega salnum okkar.

Á síðustu árum hefur félögum í Tónlistarfélaginu fækkað nokkuð vegna brottflutnings fólks o.fl,  en nú vill félagið styrkja samband sitt við þá fjölmörgu sem hafa áhuga á tónlist, vilja fjölbreytt og metnaðarfullt tónleikahald og vilja viðhalda þeim menningarbrag sem tónleikahaldið hefur sett á bæinn. Til þess þarf það stuðning ykkar, tónlistarunnendanna

Stjórn félagsins vill hvetja ykkur til að ganga í félagið nú þegar og fá um leið áskrift að fernum tónleikum félagsins.  Fyrstu áskriftartónleikarnir verða sunnudaginn 19.nóvember með hinum glæsilega tenórsöngvara Elmari Gilbertssyni og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara. (Miðaverð er 3.000 kr., með afsl. 2.000). Aðrir áskriftartónleikar verða á nýju ári og verða kynntir síðan en víst er að um áhugaverða listamenn verður að ræða.

Félagsgjaldið er 7.500 kr. (4 áskriftartónleikar innifaldir), en verð á staka tónleika er oftast á bilinu 2.500-3.000 kr.  

Ef þið viljið ganga í félagið er hægt að leggja inn á reikning félagsins 0156-26-002626, kt. 6502690209. Líka verður hægt að skrá sig á fyrstu tónleikunum eða hringja í undirrituð og þá er hægt að senda reikning.

Rétt er að benda á að áskrift gildir ekki á alla tónleika sem félagið kemur að. Stundum eru tónleikarnir á vegum listafólksins sjálfs og félagið er stuðningsaðili, en hefur ekki ráð yfir aðgangseyri o.s.frv.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja Tónlistarfélaginu lið með þessu móti eru líka velkomnir að starfa með félaginu á ýmsan hátt og geta haft áhrif á stefnu þess og starf enda eru félagsmenn mikilvægt bakland og stuðningshópur.

Þeir sem ekki vilja fá sendan tölvupóst  um tónleika félagsins, ættu líka endilega að láta vita af því.

Með kveðju og von um góðar viðtökur,

f.h. stjórnar Tónlistarfélags Ísafjarðar

Steinþór Bjarni Kristjánsson form. duik@simnet.is

Sigríður Ragnarsdóttir, stjórnarm. smidjugata5@gmail.com

 

 

DEILA