Góð viðkoma á Vestfjörðum

Mynd: Ólafur K. Nielsen

Viðkoma rjúpna virðist hafa verið góð á Vest­fjörðum, Norðaust­ur­landi og Aust­ur­landi í sum­ar en lé­legri á Vest­ur­landi og Suður­landi. Veiðimenn hafa sent Náttúrfræðistofnun Íslands rjúpnavængi og búið er að aldursgreina 1.300 fugla en gert ráð fyrir að alls berist þrjú til fjögur þúsund vængir til aldursgreiningar.

Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur og rjúpnasérfræðingur hjá NÍ, sendi rjúpnavinum nýlega tölvupóst þar sem meðfylgjandi töflu yfir aldursgreiningar fugla frá haustinu var að finna. „Hlutföllin eru mjög skrítin fyrir Norðausturland og greinilega bjöguð þ.e. hlutfall unga hærra en vænta má í hauststofni. Þetta helgast líklega af aðstæðum fyrstu veiðihelgina er menn gengu að hópum á snjólausu landi. Ungar draga sig gjarnan í hópa við slík skilyrði,“ segir í tölvupósti Ólafs. „Við leitum til veiðimanna og biðjum þá að senda annan vænginn af þeim fuglum sem þeir fella ásamt með upplýsingum um veiðimann og veiðistað. Allir fá greiningu á sínum afla. Senda á sýnin á Náttúrufræðistofnun Íslands, Urriðaholtsstræti 6-8, 210 Garðabæ.“

smari@bb.is

 

 

 

DEILA