Skóbúðin leitar mynda af veisluborðum

Skóbúðin leitar nú mynda af veisluborðum.

Hverdagssafnið Skóbúðin á Ísafirði setur nú upp sýninguna „Undirbúningurinn fyrir veisluna“ þar sem gefur að líta ljósmyndir af veisluborðum af öllum stærðum og gerðum, bæði nýjar og gamlar myndir frá hinum ýmsu viðburðum. Að loknum veisluundirbúningi sem oftar en ekki tekur drjúgan tíma hverfa kannski  kökurnar fljótt, en rétt áður en það gerist er örlítil stund þar sem dáðst er að afrakstrinum – sjálfu veisluborðinu og hefð hefur skapast fyrir því að fanga það á mynd áður en gestirnir mæta á staðinn.

Í Skóbúðinni er lögð áhersla á að segja sögur úr hversdagslífinu og eru notaðir til þess hinir ýmsu miðlar. Í þessari sýningu sem nú er í undirbúningi er leitast við að draga fram sögu kvenna, sem ekki er fyrirferðamikil í hefðbundnum sagnfræðiritum, þar sem störf þeirra sem snéru oftar en ekki að heimilinu. Þó svo þessar endurteknu athafnir eins og eldamennska, umönnun, bakstur og þrif þyki jafnan ekki í frásögur færandi þá snerta þær daglegt líf okkar og verða að minningum, reynslu, móta einstaklinga og eiga stóran þátt í mótun samfélags.

Nú leitar þær Skóbúðarstöllur, Björg og Vaida, að myndum af veisluborðum á sýninguna og ef þið eigið slíkar myndir í ykkar fórum og viljið taka þátt, vinsamlegast sendið þær á netfangið: skobudin.hversdagssafn@gmail.com og látið einnig fylgja með upplýsingar um hver/hverjar stóðu á bak við veisluna og hvert tilefnið var. Einnig er hægt að fara ljósmyndir Skóbúðina þar sem hægt er skanna þær inn.

annska@bb.is

DEILA