Fjölbreyttar smiðjur á Gróskudögum

Í tilraunasmiðju

Nú stendur yfir Sólrisuvikan í Menntaskólanum á Ísafirði. Meðal þess sem þar fer fram eru Gróskudagar hjá skólanum, er nemendum gefst kostur á að taka þátt í óhefðbundnu skólastarfi er hinar ýmsu bæði fróðlegu og skemmtilegu smiðjur eru starfræktar. Smiðjurnar sem nemendur geta valið um eru fjölmargar og má þar nefna:  Eðlis- og efnafræðitilraunir, borðspil af ýmsu tagi og félagsvist, kvikmyndir, bæði almennt og svo sérsmiðjur um Starwars, Fast and the furious og hryllingsmyndir. Þá er fjölmiðlasmiðja, tónlistarsmiðja, rímnaflæði, yndislestur og hinar ýmsu samskiptasmiðjur ásamt kynningu á starfsemi hjá Ísafjarðarbæ, björgunarsveitunum og Rauða Krossinum. Einnig má reyna aðeins á hæfileikana í fjölbreytileika uppistands og í að mastera listina að kareóka! Þá má glíma við að uppræta leti, finna hæfileika sína og læra að vera asnaleg í smástund. Fyrir þá sem vilja fá smá útrás er hægt að fara í gönguferðir, á kajak og gönguskíði eða taka þátt í hönnun á kennsluumhverfi nemenda. Ekki er allt upptalið, en ljóst má sjá að mikið fjör hefur verið í skólanum þessa tvo daga sem smiðjurnar fara fram. Meðfylgjandi myndir eru teknar af nemendum í fjölmiðlasmiðju Gróskudaga.

Í Sólrisuvikunni sendir útvarp MÍflugan út á tíðninni fm101 og sýningar á Sólrisuleikritinu Vælukjóli eru í fullum gangi og hefur verið bætt við aukasýningum fimmtudag, föstudag og laugardag klukkan 20 og má panta sér miða í síma 450-5555.

Nemendum gafst kostur á að taka þátt í hönnun á kennsluumhverfi nemenda.
Nemendur ásamt kennara í skapandi smiðju.
Í einni smiðjunni mátti kynnast því hvernig er að starfa í björgunarsveit.

 

 

annska@bb.is

DEILA