Um bæjarmálin

Daníel Jakobsson

Samstarf í bæjarstjórn er almennt gott. Í lang flestum málum erum við bæjarfulltrúar sammála og höfum getu til að rökræða/rífast á fundum en förum svo út sem félagar sem geta gert sér glaðan dag saman. Við höfum ólíkar skoðanir en virðum það hvort við annað. Það þarf að vera hægt í litlu samfélagi.

En það þýðir ekki að við séum sammála um allt. Það er meiningarmunur á okkur og við höfum ólíkar stefnur og leiðir að markmiðum. Sá munur á áherslum hefur kristallast ágætlega á síðustum missernum þegar að tekjur sveitarfélagsins hafa aukist mikið og atvinnuástand er gott. Við Sjálfstæðismenn höfum viljað gæta aðhalds, greiða niður skuldir, fjárfesta hóflega og lækka álögur. Meirihlutinn hefur hinsvegar aðra sýn, vill taka lán fyrir fjárfestingum, fjölga stöðugildum hjá bænum án þess rökstyðja þörfina. Byggja upp deildir og fjárfesta án þess að sýnt sé fram á að bærinn geti gert þetta fyrir minni fjárhæð en ef ver-kefnin væru boðin út. Ákvarðanir er teknar eftir geðþótta hverju sinni og langtímahugsun skortir. Geta bæjarins til að koma inn þegar að ver árar verður því minni eða engin.

Þrjú mál sem verið hafa á dagskrá upp á síðkastið hefur verið tekist á um. Sundlaugin, skjalageymslan og reiðskemman. Þessi þrjú mál eiga það sammerkt að það er nánast búið að fullvinna þau í meirihlutanum á meirihlutafundum og leiða þau þar til lykta bak við lokaða hurð, áður en þau koma til umræðu í bæjar-ráði, nefndum eða bæjarstjórn. Þegar við í minnihlutanum komum að þeim, er búið að taka veigamiklar ákvarðanir og meirihlutanum lítið haggað. Það hefur leitt til þess að teknar hafa verið vondar ákvarðanir, samningar eru illa gerðir og hagsmunum sveitarfélagsins er ekki gætt.

Norðurtanginn

Þegar Norðurtanginn var tekinn á leigu var það tilfinning mín að búið var að gefa leigusala fyrirheit um að taka ætti húsið á leigu. Það var ekki raunverulegur vilji til að skoða alvarlega aðra kosti eða ræða be-tur framtíðarfyrirkomulag safna. Reyndar var fallið frá því að leigja allt húsið, en niðurstaðan var engu að síður sú að taka á leigu mjög dýrt hús í stað þess að byggja geymsluhúsnæði sem hefði verið mun ódýra, jafnvel þó að það hefði verið tímabundin ráðstöfun. Eftirfylgni með framkvæmdum var svo ábótavant að tekið var við húsinu og byrjað að greiða leigu (þrátt fyrir að bæjarstjóri haldi öðru fram), áður en húsið var tekið út af Eignasjóði. Vegna þess að eftirfylgni og samningar voru ekki nægjanlega góðir er málið nú komið í hnút og óljóst hvort það endi þannig að sveitarsjóður skaðist ekki. Við þessu var varað áður en samningurinn var gerður og aðrar leiðir lagðar til.

Sundhöllin

Í sundhallarmálinu kom tillaga um hönnunarsamkeppnina alveg þvert á alla stefnu bæjarins og án samráðs. Ekkert hafði verið rætt um endurbætur á sundhöllinni, það var ekki á langtímafjárhagsáætlun og aftur var ekki vilji til að skoða málið heildstætt og bera saman fleiri kosti. Minnihlutinn lagði á það mi-kla áherslu að áður en farið væri í kostnaðarsama hönnunarsamkeppni, færi fram skrifborðsúttekt þar sem fjárhæðir og þarfir væru skoðaðar. Í kjölfarið væri hægt að bera saman mismunandi kosti. Það var ekki gert. Málið var keyrt áfram en nú virðist meirihlutinn vera á því að leyfa íbúum að kjósa um málið og jafnvel aðra kosti. Á þá að fara í hönnunarsamkeppni um þá kosti líka áður en hægt er að fara lengra? Hver er svo eiginlega afstaða bæjarfulltrúa meirihlutans til sundhallartillögunnar. Á bara að gera það sem íbúarnir vilja (sem er út af fyrir sig göfugt) eða hafa þau einhverja skoðun sjálf; hvað þau vilja að gert verði við þær tillögur sem liggja fyrir og þau hafa sett um 20 m.kr. í? Vilja þau fara í þessa framkvæmd nú

þegar niðurstöðurnar liggja fyrir? Ef svo er gengur það þvert á yfirlýsingar sumra bæjarfulltrúa sem sögðu í ræðustól í bæjarstjórn að ef þetta væru einhverjar hundruðir milljóna þá styddu þau þetta ekki.

Til viðbótar við þetta mál er rétt að halda til haga hvernig sundlaugarmálið hófst. Á fjárhagsáæltun fyrir árið 2014 sem samþykkt var samhljóða var gert ráð fyrir að deiliskipuleggja og hanna Torfnessvæðið. Ástæðan var sú að um langt bil hafði verið rætt hver væri framtíðarnotkun svæðiðsins. Var pláss fyrir fjölnotahús, sundhöll, líkamsrækt o.s.frv.? Öll þessi umræða strandaði á því að ekki var búið að taka ákvörðun um hvernig skipulagi yrði háttað. Arkitektastofa hafði verið fengin í að koma með nokkrar tillögur og út frá þeim átti að skipuleggja svæðið. Þegar að formanni bæjarráðs var falið það verkefni að útfæra þessa samkeppni og skiplagsferli, var tillaga formannsins sú að hætta við allt og fara í hönnunarsamkeppni um pottaaðstöðu af því að við hefðum ekki efni á neinu nema nokkrum pottum. Þetta kemur okkur svo í koll núna, þegar að búið er að samþykkja að leggja fjármagn í gervigras á Torfnessvæðinu. Þá kemur upp sú staða að ekki liggur fyrir hvernig skipulagi þarna er háttað og nú erum við því að falla á tíma með það að vanda til skipulags á svæðinu eða þá að uppbygging tefst.

Reiðskemman

Ákvörðun meirihluta Ísafjarðarbæjar að semja við hestamannafélagið Hendingu um byggingu reiðhallar er annað dæmi um algjöran skort á samráði. Á meðan bæjarstjórn sat vinnufundi fjárhagsáætlunar bæjarins þar sem fjárfestingaráætlun næstu ára var rædd var verið að semja við Hendingu um byggingu reiðhallar. Ekki var minnst á þessa samninga einu orði né gert ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun. Þegar að fjárhagsáætlunin var nýsamþykkt var kynntur óformlega samningur sem umboðslaus bæjarfulltrúi var búinn að ná við hestamenn og það tilkynnt að meirihlutinn væri á bak við samninginn. Samt var ekki haft fyrir því að koma málinu á fjárhagsáætlun, ekki var minnst á þessar viðræður einu orði eða spurt hvaða afstöðu við hefðum til upphæða eða efnistaka samnings. Því staðreyndin er að þrátt fyrir að ágreiningur sé um upphæð samningsins og þá forgangsröðun sem í honum birtist, er eiginlega enn meiri ágreiningur um efnistök samningsins sem er galopinn tékki á bæjarsjóð. Þar má nefna að stofnað sé hlutafélag um framkvæmdina sem bærinn mun eiga með Hestamönnum, ekki lá fyrir skilalýsing á húsnæðinu þegar samið var, ekki var fyllilega klárt hvernig fara ætti með virðisaukaskatt af byggingunni og áætlun um byggingarkostnað og rekstur lá ekki fyrir þegar málið hafði verið til lykta leitt.

Til viðbótar má svo benda á að með þessu er forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja að engu höfð og látið að því liggja að það sé sérstakt markmið að ljúka þessu þrætumáli Hestamanna og bæjarins og það sé hægt að kaupa frið þar sama hvað það kostar skattborgara.

Vond og illa unnin mál

Niðurstaðan í öllum þessum tilvikum eru því vond og illa unnin mál. Skjalageymsla þar sem fermetraverð er svo hátt að það jafnast á við fínasta íbúðarhúsnæði, reiðhöll án skilalýsingar og almennilegrar áætlunar um rekstur og byggingarkostnað, og tillögu um sundhöll sem enginn veit hvort eigi að byggja né hvort aðrir kostir séu betri. Allt er gert þannig að engin samstaða er um málið, hvorki í bæjarstjórn eða meðal bæjarbúa almennt. Íbúalýðræði hefur breyst í meirihlutaræði. Nóg er að hafa meirihluta í meirihlutanum því þar eru ákvarðanirnar teknar.

Daníel Jakobsson

DEILA