Skattaspor Arnarlax 616 milljónir

Samkvæmt úttekt PwC var skattaspor Arnarlax hf. á Bíldudal 616 milljónir kr. á síðasta ári. Skattaspor sýna með einföldum hætti þær skattgreiðslur og gjöld sem fyrirtæki greiða til samfélagsins. Mest, eða 377 milljónir kr., var greitt í tekjuskatt starfsfólks. Á síðasta ári var meðalfjöldi starfsmanna Arnarlaxi og tengdum félögum um 118 starfsmenn. Til viðbótar starfa þar verktakar við ýmis verkefni.

Innlegg í umræðuna

Skipting skattaspors Arnarlax.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að úttekt PwC sé mikilvægt innlegg í umræðuna um fiskeldi. „Núna höfum við svart á hvítu hvað þetta eina fiskeldisfyrirtæki skilar til samfélagsins. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna sem hefur allt of oft verið á villigötum,“ segir Víkingur og bendir jafnrframt á að síðasta ár var fyrsta ár þar sem fyrirtækið hafði tekjur.

 

Umtalsverð hafnagjöld

Arnarlax er með starfsemi í þremur sveitarfélögum, Vesturbyggð, Ölfusi og Tálknafirði. Í tengslum við þessar starfsstöðvar greiðir félagið ýmis gjöld sem renna til þessara sveitarfélaga sem alls nema 55 milljónum kr. og eru stærsti hlutinn afla- og hafnargjöld, eða 48 milljónir kr.

30 milljónir í umhverfissjóð

Á síðasta ári greiddi Arnarlax 30 milljónir kr. í umhverfissjóð sjókavíeldis. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 2008 og í hann greiða fyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi í samræmi við umfang fyrirtækjanna. Sjóðurinn fjármagnar verkefni sem lúta að því að aðlaga fiskeldi á Íslandi sem best að umhverfisskilyrðunum á Íslandi. Sjóðurinn sinnir þessu hlutverki sínu með þeim hætti að hann greiðir kostnað við rannsóknir vegna til dæmis burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður auk þess sem sjóðnum er heimilt að veita veiðirétthöfum styrki til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem ekki er hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

Fyrsta ár með tekjur

Víkingur segir að fólk eigi að hafa í huga að þarna er bara verið að tala um skattaspor eins fyrirtækis. „Það er viðbúið að skattaspor Arnarlax stækki á næstu árum enda erum við í vexti. Að auki höfum við verið í mjög fjárfrekri uppbyggingu og vorum fyrst að fá tekjur í fyrra. Það ræður því að fyrirtækið sjálft er ekki að greiða tekjuskatt vegna uppsafnaðs skattalegs taps af rekstrinum.“

Miðað við tekjuáætlun Arnarlax mun skattinneign klárast á næsta ári og að óbreyttu mun fyrirtækið þá greiða tekjuskatt.

Um skattaspor

Skattaspor er tæki fyrir íslensk fyrirtæki til að sýna með einföldum hætti þær skattgreiðslur og gjöld sem fyrirtækið greiðir til samfélagsins. Skattaspor fyrirtækis samanstendur af öllum þeim sköttum og gjöldum sem fyrirtæki greiðir til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. Skattar skiptast venjulega í tvennt, annars vegar skattar fyrirtækisins (s.s. tekjuskattur og virðisaukaskattur) og svo skattar mannauðs fyrirtækisins (tekjuskattur, útsvar, tryggingagjald). Auk þess greiða félög ýmis opinber gjöld til ríkis og sveitarfélaga. Er í skattasporinu einnig gerð grein fyrir þessum gjöldum.

 

DEILA