Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi – Sjónarmið 44. tbl

Finnbogi Hermannsson

Um miðja síðustu viku gerðist sá hversdagslegi atburður að dálkahöfundur þessi þurfti að fara á kamarinn heima hjá sér á Bakkavegi 11 í Hnífsdal. Með því að dimmt var yfir og degi tekið að halla var það augljóst mál að kveikja rafmagnsljós á klósettinu. Það gerðist í sömu svipan og hann snerti slökkvarann að rafmagni sló út upp á punkt og prik.  Ævinlega fyrsta hugsunin að rafmagnsleysið sé hjá manni sjálfum. Hugsanlega farið hranalega að slökkvaranum,  peran sprungið af þeim völdum og lekaleiðararofinn slegið út.  Reynsla er fyrir því. Konan varð vitni að þessu og taldi sig hafa heyrt peruna springa. Nú varð ekki hjá því komist að paufast niður í kjallara og slá inn. En þá voru allir rofarnir uppi, alveg bísperrtir. Nú, það voru líklega stofnöryggin. Hafði lent í því að stofnöryggi færu. Þau eru tvö að mig minnir. Í þessum svifum kallaði konan og sagðir mér að gá hvort ljós væri í Hrauni. Þar væri alltaf ljós á hlaðinu. Ég skreiddist aftur upp stigann og út í dyr og það var ekkert ljós í Hrauni. Gáði svo kringum mig í Hnífsdal og sá hvergi glætu. En fólk var auðvitað í vinnu og skildi ekki eftir ljós heima hjá sér.

Svo leið og beið og ekkert kom rafmagnið.  Undir klukkan þrjú kom rafmagnið skyndilega eins og hland úr fötu og hafði þá verið rafmagnslaust í um hálftíma.  Þykir langur tími á tölvuöld. Peran á klósettinu glotti nú framan í mig eins og tungl í fyllingu svo og önnur rafmagnstól á heimilinu. Ekkert hafði slegið út og stofnöryggin strýheil í kjallaranum. Þakkaði guði fyrir miskunnsemi hans.

Ég hugsaði með mér fullur sektarkenndar að svona geti gerst, fari maður ekki vel að slökkvurum, einkum á klósettum. Var enn þá viss um að rafmagnsleysið væri mér að kenna. Gat ekki verið nein tilviljun að öllu slægi út akkúrat þegar ég kveikti á ljósinu á náðhúsinu.  Eins gott að það kæmist ekki upp hvernig í öllu lá.

Þegar leið á daginn tóku að berast fréttir af því að helstu rafmagnslínur landsins hefðu rofnað svo sem strengurinn úr sjálfri  Búrfellsvirkjun og Hrauneyjarfossvirkjun og ég veit ekki hvað. Meira segja varð straumlaust norður í landi. Og auðvitað kom ekkert rafmagn inn á vandræðaskepnuna Vesturlínu fremur en fyrri daginn.  Ekki batnaði sálarástand mitt við þessi tíðindi og aðgát skal höfð í nærveru slökkvara .

Skammt er síðan að varaaflsstöð var reist í landi Bolungarvíkur. Sú stöð býr yfir þeirri náttúru að fara þegar í stað í gang, slái út veiturafmagni á svæðinu og veitir mannfólkinu þá birtu og yl. Stöð þessi er  ofurmannvirki og gott ef hún sést ekki frá tunglinu eins og Kínamúrinn og Flóaáveitan. Kostaði  bygging hennar fimmtánhundruð milljónir. Þótti ástæða til að rafmagnsráðherrann kæmi vestur við vígslu stöðvarinnar ásamt fleira stórmenni og allir með tvöfalda hjálma á höfði. Stöðin var nefnilega reist í miðju kríuvarpi á Sandinum  og krían ágeng þarna. Sérstakt net var ofið til að setja stöðina í gang og heitir Snjallnet með stórum staf. Í síðustu viku virkaði Snjallnetið ágætlega en stöðin dýra neitaði að fara í gang nema eftir dúk og disk og tilfæringar. Síðast þegar rafmagn fór af Vestfjörðum, neitaði þessi fimmtánhundraðmilljóna varaaflsstöð að snúast. Snjallnetinu var ekki um að kenna, heldur mannlegum mistökum skv. upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða. Rétt er að halda til haga að fyrirtækið Landsnet, ein afæta orkukerfisins, á stöðina ásamt olíubirgðum en Orkubúið manúerar hana þegar hún hrekkur ekki sjálf í gang.

Hluti af sjálfsmynd Vestfirðinga er rafmagnsleysi. Fáir taka það illa upp þótt rafmagnið fari. Við erum líka svo þakklátir Vestfirðingar þegar það kemur aftur. Jafnvel í mestu sumarblíðum fer rafmagnið eins og hendi sé veifað. Þá er yfirleitt bjart af degi og fer lítið fyrir rafmagnsleysinu nema á vinnustöðum og þá fá menn sér bara kalt kaffi og taka í nefið á meðan þeir bíða eftir rafmagninu. Þetta eykur á félagslega samheldni á vinnustað og eitthvað til að tala um.

Svona er nú það.

Annað sem styrkir sjálfsmynd Vestfirðinga, til eða frá, er að þeir eru orðnir afgangsstærð í fluginu, ekki bara innanlands heldur einnig á Grænlandi. Er þá orðið alllangt seilst. Nú er það ekki lengur háð flugskilyrðum fyrir norðan og austan hvort púsluspil daglegs flug gengur upp hjá Flugfélaginu, heldur hefur Núkk bæst við og gott ef ekki Kúlúsukk. Hvort flogið verði til Ísafjarðar þann daginn. Flugvallarvinir fyrir sunnan boða að innanlandsflugið leggist af, verði Reykjavíkurflugvöllur fluttur. Sjáum vér ekki betur en Flugfélagið sjálft stefni að því að leggja flug innanlands niður með því að kaupa sífellt lengri og lengri flugvélar sem geta svo hvergi lent nema á brautum Flugvallarvina í Vatnsmýrinni eða í Keflavík.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Rekið saman í Hnífsdal við rafmagnstýru frá Orkubúinu og Landsneti

Finnbogi Hermannsson

DEILA