Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 3

Stóra upplestr­ar­keppnin á sunn­an­verðum Vest­fjörðum

Stóra upplestr­ar­keppni grunn­skól­anna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum 2025 var haldin í gær, 7. maí, við hátíð­lega athöfn í Patreks­fjarð­ar­kirkju.

Mikil spenna ríkti í kirkjunni, enda höfðu keppendur lagt mikið á sig í undirbúningi sínum. Í fyrstu umferð fluttu þeir svipmyndir úr skáldsögunni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson. Í annarri umferð völdu þeir ljóð úr bókinni Allt fram streymir, sem inniheldur ljóð eftir fjölmarga höfunda. Í lokaumferðinni fluttu keppendur ljóð að eigin vali.

Allir upplesararnir fengu viðurkenningarskjal, blóm og bókina Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur að gjöf. Lionsklúbbur Patreksfjarðar styrkti keppnina með gjafabréfum frá Landsbankanum, sem voru veitt sem verðlaun fyrir þrjú efstu sætin.

Tónlistarskóli Vesturbyggðar tók einnig þátt í dagskránni. Íris Ásta Lárusdóttir flutti lagið Lunar Eclipse og Lara Alexandra Gomes flutti He’s a Pirate.

Dómnefndina skipuðu Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Jónas Snæbjörnsson og Sandra Líf Pálsdóttir. Þau réðu ráðum sínum um stund en komust að lokum að niðurstöðu.

Eydís Hanna Bjarnadóttir úr Bíldudalsskóla hlaut þriðja sæti, Katrín Hugadóttir úr Tálknafjarðarskóla annað sæti og sigurvegari keppninnar var Alexander Nói Ásgeirsson úr Patreksskóla.

Auglýsing

Styrkir til kaupa á nytjahjólum

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að veita sérstaka styrki til kaupa á nytjahjólum (e. cargo bikes) gegnum Loftslags- og orkusjóð.

Styrkirnir verða allt að 200.000 kr. eða að hámarki 1/3 af kaupverði hvers hjóls.

Um er að ræða hjól sem eru sérstaklega hönnuð til þess að flytja farm og farþega, eru dýr í innkaupum en geta nýst með sams konar hætti og einkabílar og þannig dregið úr akstri og brennslu jarðefnaeldsneytis.

„Rafbílavæðingin skiptir máli, en til þess að ná alvöru árangri í loftslagsmálum þurfum við ekki síður að ýta undir breyttar ferðavenjur, vistvænni og fjölbreyttari ferðamáta sem gera líka samfélagið okkar skemmtilegra. Stuðningur við kaup á nytjahjólum er liður í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Auglýsing

Gul veðurviðvörun – Hálku og krapi á fjallvegum

Í nótt kóln­ar tals­vert með suðvest­an átt og mun snjóa á fjall­vegi eins og Dynjandisheiði, Þröskulda og Stein­gríms­fjarðar­heiði.

Suðvestan 8-15 m/s og slyddu eða -snjóél, einkum á fjallvegum. Lítið skyggni í éljum, jafnvel krapi og hálkublettir og því æskilegt að bílar séu búnir til vetraraksturs.

Í til­kynn­ingu frá veður­fræðingi Vega­gerðar­inn­ar seg­ir að á morg­un sé spáð slyddu­hryðjum um vest­an­vert landið og það verður hvasst að auki. Við þess­ar aðstæður muni verða krapi á fjall­veg­um og sum staðar hálka. Það muni einkum eiga við þjóðveg­inn norður í land og eins vest­ur á firði.

Auglýsing

Vestfirðir: veruleg íbúafjölgun í apríl

Mikil íbúafjölgun varð á Vestfjörðum í aprílmánuði. Í byrjun mánaðarins voru 7.566 íbúar með lögheimili í fjórðungnum en þeim fjölgaði í 7.598 í byrjun maí. Fjölgunin er 32 íbúar.

Frá 1. desember sl. hefur íbúunum fjölgað um 54 sem gerir 0,7% fjölgun á þessum 5 mánuðum. Er það nærri tvöfalt meiri fjölgun en á landsvísu, sem var 0,4%, á sama tíma.

Á síðustu fimm mánuðum hefur mest fjölgun orðið í Ísafjarðarbæ. Íbúar eru nú 4.025 og hefur fjölgað um 28 manns. Bara í apríl fjölgaði íbúunum í Ísafjarðarbæ um 25.

Þá hefur síðustu fimm mánuði fjölgað um 11 manns í Vesturbyggð og um 10 manns í Súðavík.

Auglýsing

Vísindaportið: eitrun hreindýrahjarðar

09.05.2025 kl. 12:10 í Háskólasetrinu á Ísafirði.

Í vísindaporti vikunnar ætlar Kristine að leiða okkur í gegnum alvöru ráðgátu sem byggð er á sannri sögu, jafnvel glæpasögu! Hér er um að ræða eitrun hreindýrahjarðar sem leiddi til dauða 127 hreindýra.

Í þessum fyrirlestri mun Kristine Pedersen segja okkur frá því hvernig hægt er að beita þekkingu á mengun til að rekja uppruna eitrunarinnar og koma auga á sökudólginn. 

Þó að Kristine elski góða glæpasögu, tengir hún yfirleitt ekki vinnu sína við mengun við glæparannsóknir. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af vinnu tengdri mengun – allt frá því að finna og rannsaka mengun til að meta umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir. 

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: 1.167 m.kr. afgangur af rekstri

Ársreikningur síðasta árs fyrir Ísafjarðarbæ var lagður fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Í bókun Í listans, sem hefur meirihluta, segir að  rekstur Ísafjarðarbæjar hafi gengið einstaklega vel árið 2024 og haldi því áfram að styrkjast. Reksturinn skilaði afgangi sem nemur 1.167 milljónum króna. Tekjur voru hærri og gjöld lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þá segir að allar kennitölur vísi í sömu átt. „Skuldahlutfall lækkar; árið 2023 var það 134% en var 116% árið 2024, þegar áætlun gerði ráð fyrir að það færi í 125%. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 114% en var 122% árið 2023. Skuldaviðmið A og B hluta er 95% og 72% fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri var tæp 15% og handbært fé jókst mikið.“

Framkvæmt fyrir milljarð króna

Á síðasta ári var framkvæmt og fjárfest fyrir tæpan milljarð. Umfangsmestu fjárfestingarnar voru gatnagerð, hafnarframkvæmdir, umbætur í fráveitu og vatnsveitu og snjóflóðavörnum á Flateyri.
„Áfram er auðvitað nauðsyn að sýna aðgæslu í rekstrinum. Það er krefjandi að reka sveitarfélag og má lítið útaf bera. Ársreikningur ársins 2024 er þó til marks um að vel hafi tekist og með ráðdeild og skynsemi horfum við bjartsýn fram á veginn.“

Fjárhagsleg markmið hafa nær öll náðst

Bókuninni lýkur með þessum orðum: „Í upphafi kjörtímabilsins ákvað Í-listinn að setja sér metnaðarfull fjárhagsleg markmið. Skemmst er frá því að segja að þau hafa nær öll náðst. Það er auðvitað ekki einungis góðum rekstri sveitarfélagsins að þakka heldur umsvifum í fjölbreyttu atvinnulífi og góðum tekjum hafnarinnar og að því þarf að hlúa.“

Auglýsing

Iwona og Janusz Frach heiðruð af forseta Póllands

Frá afhendingu heiðursmerkisins. Mynd: aðsend.

Í tilefni af þjóðhátíðardegi Póllands þann 3. maí veitti Andrzej Duda, forseti Póllands, tónlistarkennurum við Tónlistarskólann á Ísafirði, Iwonu og Janusz Frach, gullkross fyrir framúrskarandi framlag í þróun menningarsamskipta á milli Íslands og Póllands.

Þetta er æðsta heiðursmerki sem forsetinn veitir fyrir slíkt starf.

Athöfnin fór fram þriðjudaginn 6. maí í sendiráði Póllands í Reykjavík.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi viðurkenning skuli hafa verið veitt einstaklingum úr okkar ísfirska samfélagi“ sagði pólskættaður viðmælandi Bæjarins besta. 

Auglýsing

Jarðhitaleit og orkuskipti í forgrunni á íbúafundi á Patreksfirði

Grafísk mynd sem sýnir borsvæðin 2023 á Patreksfirði.

Blámi, Orkubú Vestfjarða og ÍSOR stóðu fyrir íbúafundi sem haldinn var á Patreksfirði 6. maí 2025. Á fundinum var fjallað um stöðu jarðhitaleitar á svæðinu og möguleika hennar í tengslum við orkuskipti og framtíð fjarvarmaveitu bæjarins.

Á fundinum kom fram að töluvert af jarðhita er að finna á víða á Vestfjörðum og þörf sé á frekari rannsóknum til að átta sig á hvar og hvernig er hægt að sækja hann.

Á Patreksfirði hafa verið boraðar 16 jarðhitaholur, alls um 2.500 metra dýptar, og hafa niðurstöður sýnt að þar leynist volgur jarðhiti, aðallega um 25–30°C. Síðasta borholan sem var boruð árið 2023, með merkinguna GE-14, gaf yfir 30 sekúndulítra af um 25°C heitu vatni. Haldið verður áfram að bora eftir heitu vatni á Patreksfirði en í sumar verður boruð vinnsluhola, um 300 metra djúp, ásamt fleiri rannsóknarholum.

Síðustu ár hafa sjónarmið tekið breytingum hvað varðar jarðhita og hefur áherslan á nýtingu volgs vatns (25-60°C) samhliða aukist í takt við tækniframfarir á borð við samspil jarðhita við varmadælur og aukna þörf fyrir hagkvæmari orku til húshitunar.

Í erindum fundarins kom skýrt fram að jarðhiti getur leikið mikilvægt hlutverk í orkuskiptum á landsbyggðinni. Með því að nýta jarðhita í stað rafmagns eða jarðefnaeldsneytis til húshitunar skapast sjálfbærari innviðir, sparnaður í orkukostnaði og aukið orkuöryggi. Þar að auki losar slíkt raforku sem nýta má í annað og styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Enn fremur var rætt um að takmörkuð afhendingargeta raforku á Vestfjörðum gæti hamlað þróun samfélagsins, atvinnulífs og lífsgæða. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í innviðum og gera jarðhitann að burðarás í núverandi veitukerfum.

Niðurstaða fundarins var sú að þrátt fyrir að jarðhitaleit sé tímafrek og krefjandi, sé hún nauðsynleg og lofandi. Með réttum fjárfestingum og áframhaldandi rannsóknum gæti Patreksfjörður orðið fyrirmynd annarra byggðarlaga í sjálfbærri orkunýtingu og framtíðarlausnum í húsahitun.

Auglýsing

Stjórn Vestfjarðastofu: áhyggjur af hækkun veiðigjalda

Gylfi Ólafsson er formaður stjórnar Vestfjarðastofu.

Stjórn Vestfjarðastofu lýsir þungum áhyggjum af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hækkun á veiðigjaldi og væntanlegum áhrifum þess á atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum.

Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar. Þar segir að miðað við þær forsendur sem liggja að baki breytingu á veiðigjaldi megi telja ljóst að áhrifin verði mjög íþyngjandi og komi afar hart niður á litlum og meðalstórum bolfiskútgerðum.

„Á Vestfjörðum eru eingöngu litlar og meðalstórar útgerðir í bolfiskveiðum og vinnslu. Þrátt fyrir að frítekjumark hafi verið hækkað, þá verður sú hækkun étin upp að miklu leyti upp vegna aukins þunga í gjaldtöku á þorsk og ýsu í nýjustu breytingum frumvarpsins. Misræmi milli útreikninga ráðuneytis og SFS verður að skýra til þess að hægt sé að treysta  útreikningum vegna áhrifa af frumvarpinu.“

Óásættanleg áform sem skerða samkeppnishæfi og framlegð

„Miðað við greiningar Deloitte og fyrirtækjanna sjálfra á nýjustu ársreikningum Vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja eru áformin óásættanleg með tilliti til mikillar skerðingar á samkeppnishæfni og framlegð þessara sjávarútvegsfyrirtækja. Slíkur skortur á samkeppnishæfni kemur niður á endurnýjun á tækjabúnaði og fjárfestingu í framþróun, nýsköpun og þjónustukaupum. Fram hafa komið áhyggjur forsvarsmanna minnstu eininganna um tilvistargrundvöll sinn ef breytingarnar ganga eftir sem ber að taka alvarlega. Afleiðingar skertrar samkeppnishæfni og minni fjárfestinga hafa bein áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga og fjölmargar afleiddar þjónustugreinar sem skapa umsvif og tekjur.“

Stjórnin segir í ályktun sinni að eftir „miklar umræður undanfarnar vikur um hækkun veiðigjalda hefur ríkisstjórnin ekki svarað því hvernig staðinn verði vörður um samkeppnishæfni fyrirtækja og samfélaga á Vestfjörðum. Breytingum á frítekjumarki frá fyrstu drögum fylgja aðrar breytingar á útreikningum með tilheyrandi óvissu um endanlega niðurstöðu.“

Fleiri íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda

„Aðrar íþyngjandi tillögur á samfélög á Vestfjörðum undanfarinna missera svo sem innviðagjald á skemmtiferðaskip, kolefnisgjald og hækkun á sérstökum laxaskatti í ofanálag leggst ofan á allt annað til þess að draga úr þeim viðnámsþrótti sem hefur einkennt síðustu ár á Vestfjörðum.“

Ályktuninni lýkur með því að stjórn Vestfjarðarstofu „skorar á stjórnvöld að bregðast hratt við og endurskoða enn frekar tillögu sína um hækkun á veiðigjaldi þannig að tekið verði tillit til réttmætra áhyggja atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er lágmarkskrafa að áhrifin af hærra veiðigjaldi á samfélög á Vestfjörðum verði könnuð með ítarlegri hætti áður en lengra er haldið.“

Auglýsing

Ert þú samfélagsfrumkvöðull?

Samfélagsleg nýsköpun og samfélagsfrumkvöðlar eru ekki ný af nálinni á Íslandi en hugtökin eru þó ekki vel þekkt (eða á allra vörum) og viljum við gera okkar til að bæta úr því. Hugtökin nýsköpun og frumkvöðlar eru þó vel þekkt og eitt og annað sameiginlegt, en helsti munurinn sá að bæði uppsprettan og markmiðin eru af öðrum toga þegar „samfélags“ forskeytið bætist við.

Dagana 12.-14. maí verður fundaröð MERSE um Vestfirði þar sem rýnt verður í þessi mál. Verkefnastjórar MERSE, Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir fara yfir áðurnefnd hugtök og hvernig þau birtast okkur hér á Vestfjörðum. Einnig munu þær fara yfir hvað evrópska samstarfsverkefnið MERSE gengur út á, hvað er búið að eiga sér stað innan þess og hverju við höfum komist að.

Fundirnir eru öllum opnir, en þeir eru ekki síst hugsaðir sem tækifæri til að koma saman fyrir þá sem vinna á sviði samfélagslegrar nýsköpunar eða hafa hug á því að gera það.

Auglýsing

Nýjustu fréttir