Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 4

26 aðgerðir til sjálfsvígsforvarna

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að móta aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað ráðherra skýrslu sinni þess efnis.

Áætlunin tekur til áranna 2025–2030 og felur í sér 26 aðgerðir um markvissar og gagnreyndar sjálfsvígsforvarnir á öllum stigum, bæði almennar og sértækar.

Eins og skýrsluhöfundar benda á eru sjálfsvíg alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt.

Á Íslandi hefur árlegur meðalfjöldi sjálfsvíga verið 41 síðustu fimm ár (2019–2023). Rannsóknir hafa sýnt að hvert sjálfsvíg er samfélaginu dýrkeypt auk þess sem hvert sjálfsvíg hefur áhrif á heilsufar og líðan fjölmargra í nærumhverfi þess látna.

Áhrifaríkar sjálfsvígsforvarnir stuðla að því að þau sem þurfa aðstoð fái viðeigandi stuðning á öllum stigum. Þannig má fyrirbyggja aukinn vanda og koma í veg fyrir dýrari úrræði vegna minnkandi getu til að sinna athöfnum daglegs lífs, stunda vinnu og nám. 

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi 2025–2030

Auglýsing

Eldblóm á Hnjóti

Sýningin „ELDBLÓM – hvernig dans varð vöruhönnun“ fyrir Vestan! verður í Minjasafninu á Hnjóti þann 10. maí 2025 kl 17:00.

Á sýningunni verður sérstakt verk frumsýnt, unnið með hönnunarteymi Þykjó og börnum á svæðinu en það er samstarf með Hönnunarsafni Íslands, Minjasafninu Hnjóti og List fyrir alla

Sýningin Eldblóm opnar á Vestfjörðum í Galleryinu á Minjasafninu Hnjóti og er sett upp í annað sinn. Sýning vakti mikla á Hönnunarmars en hún opnaði á Hönnunarsafni Íslands. Fjallað var um verkefni Eldblóma sem eitt af 5 áhugaverðustu verkefnum hátíðarinnar af FRAME magazine og heilsíðu umfjöllun um verkefni í franska tímaritinu Elle Decor.

Sýningin er nú sett upp í annað sinn í Örlygshöfn með styrk frá Safnasjóði og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Auglýsing

Bolungavík: ekki tilefni til að bregðast við dómi Landsréttar

„Við höfum farið yfir þetta með bæjarlögmanni sveitarfélagsins og það er okkar mat að ekki sé tilefni til að bregðast við þessum dómi sérstaklega“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík aðspurður um áhrif dóms Landsréttar frá 27.2. 2025 í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlax á tekjur hafnasjóðs kaupstaðarins af eldisfiski. Í dómnum var innheimt aflagjald Vesturbyggðar af eldisfiski dæmt ólögmætt.

samningur í gildi og enginn ágreiningur

„Það er í gildi samningur um greiðslu hafnargjalda vegna löndunar á laxi í Bolungarvíkurhöfn. Öll fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum hafa greitt samkvæmt þeim samning og er ekki til staðar neinn ágreiningur um þær greiðslur.“

Jón Páll bætir því við að ánægja sé með samninginn og við „teljum hann endurspegla sanngjarnt gjald fyrir Bolungarvíkurhöfn og fiskeldisfyrirtækin. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á innheimtu gjalda í Bolungarvíkurhöfn eða forsendur þeirra.“

ánægð með samstarf við fiskeldisfyrirtækin

„Við erum mjög ánægð með það samstarf sem við höfum átt við fiskeldisfyrirtæki vegna þeirra starfsemi í Bolungarvík og teljum hann vera hagfeldan fyrir alla aðila. Rekstur hafnarinnar hefur gengið vel undanfarin ár og er höfnin hryggjarstykki í atvinnulífi Bolungarvíkur. Undanfarið ár hefur verið unnið að nýrri framtíðarsýn fyrir hafnarsvæðið þar sem verið er að skilgreina stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Það er mikilvægt að Bolungarvíkurhöfn sé vel rekin og hafi fjárhagslegan styrkleika til að standa undir slíkri framtíðarsýn og haldi áfram að vera nauðsynlegir innviðir fyrir verðmætasköpun á svæðinu.“

Auglýsing

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: fiskeldi eykur hagvöxt

Kvíar í Arnarfirði

Í nýrri skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álit sjóðsins á stöðu efnahagsmála á Íslandi segir að hagvöxtur hafi dregist saman um 0,5% á síðasta ári, aðallega vegna sértækra þátta (m.a. fiskveiðiafli undir væntingum og takmarkanir á orkuframboði) sem drógu úr útflutningi, og lítils vaxtar einkaneyslu.

Búist er við að hagvöxtur aukist í 1,8% á árinu 2025 og 2,4% árið 2026 og verði studdur af vexti útflutnings, hækkun rauntekna og áframhaldandi slökun á peningalegu aðhaldi.

Horfur um hagvöxt á næstu árum eru sagðar góðar og „búist er við að vöxtur virðisaukandi útflutningsgreina muni auka framleiðni og að innflæði vinnuafls muni leiða til aukinnar atvinnu að einhverju marki.“

Athyglisvert er að sendinefndin bendir einkum á aukin útflutningsverðmæti í lyfjaframleiðslu og fiskeldi sem forsendu hagvaxtarins.

Það er ekki ferðaþjónustan né sjávarútvegurinn sem mun bera uppi batnandi lífskjör á næstu árum samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fiskeldið og lyfjaframleiðslan. Þaðan munu koma nýjar útflutningstekjur með vaxandi framleiðslu í þessum greinum. Þessar auknu tekjur dreifast svo um þjóðfélagið og standa undir nýjum störfum og hækkandi launum.

Fiskeldið á Íslandi, þ.e. laxeldið í sjókvíum, hefur vaxið mikið á síðusta áratug þrátt fyrir mikinn áróður gegn greininni í flestum Reykjavíkurfjölmiðlunum og er framleiðslan um 50 þúsund tonn á ári sem skilar um 50 milljörðum króna. Þegar hafa verið gefin út framleiðsluleyfi fyrir um 100 þúsund tonn á ári og fyrirsjáanlegt er að öllu óbreyttu að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu fáum árum og tekjurnar þar með líka. Þessar nýju tekjur inn í hagkerfið, ásamt tekjum af lyfjaframleiðslu, eru forsenda lífskjarabata almennings á næstu árum. Án þeirra verður ekki kaupmáttaraukning heldur líklega hið gagnstæða, að einhver samdráttur verður í almennum lífskjörum.

Ríkisstjórnin hyggst skattleggja fiskeldið enn meira enn orðið er og boðar hækkun fiskeldisgjaldsins þannig að af hverju kg verði skatturinn mun hærri en veiðigjaldið sem boðað er á sjávarútveginn og SFS telur að gangi of nærri útgerðinni. SFS hefur ekkert sagt um þá hækkun og engar auglýsingar birt hvorki með innlendum né erlendum leikurum. Það er umhugsunarefni.

Það er rétt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að von um batnandi lífskjör á næstu árum byggir að verulegu leyti á framgangi fiskeldisins, einkum laxeldis í sjókvíum. Það er þjóðarhagur að vinna að framgangi atvinnugreinarinnar. Það verður gert með því að búa vel greininni og gera fyrirtækjunum kleyft að auka framleiðsluna og nýta auðlindir lands og sjávar til verðmætasköpunar.

Það þykir okkur Vestfirðingum líka skynsamlegt því laxeldið er vítamínssprauta fyrir fjórðunginn og er að byggja upp samfélagið á Vestfjörðum að nýju eftir samdrátt og niðurlægingu um aldarfjórðungsskeið sem á sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Nú eru bjartir tímar framundan á Vestfjörðum ef stjórnvöld fylgja leiðsögn.

-k

Auglýsing

Ísafjörður: Landsnet kynnir kerfisáætlun í dag

Landsnet verður með kynningarfund á Ísafirði í dag. Fundurinn verður í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og hefst kl 16.

 Gerð verður grein fyrir helstu breytingum í kerfisáætlun 2025-2034. Sérfræðingar Landsnets, sem komu að gerð hennar, munu sitja fyrir svörum varðandi þau atriði sem fram koma á kynningum fundanna.

Kerfisáætlun Landsnets gefur innsýn inn í áætlanir fyrirtækisins um þróun og endurnýjun flutningskerfisins næstu 10 árin, 2025 – 2034. Í langtímaáætlun má lesa um forsendur og forgangsröðun til tíu ára. Í framkvæmdaáætlun kemur fram nánari greining á verkefnum næstu þriggja ára 2026 – 2028.

Meðal verkefna sem gerð er grein fyrir er tenging Hvalárvirkjunar við flutningskerfið.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2028 og að þeim ljúki árið 2030.
Tímasetning verkefnisins er þó með fyrirvara um framgang framkvæmda við virkjunina.

Um verkefnið segir í þriggja ára áætluninni:

„Verkefnið snýr að tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið um nýjan afhendingarstað við Ísafjarðardjúp í Miðdal. Byggt verður nýtt tengivirki og lína sem tengist flutningskerfinu um nýjan afhendingarstað í Miðdal, þar sem byggt verður við nýtt tengivirki. Vesturverk stefnir á að taka í rekstur nýja virkjun, Hvalárvirkjun árið 2030. Tengja þarf virkjunina við meginflutningskerfi Landsnets og verður það gert í tveimur aðskildum framkvæmdum hér, annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar og hins vegar með uppbyggingu nýs afhendingarstaðs í Miðdal.“

Fundurinn er opinn almenningi og allir velkomnir.

Auglýsing

Stjórn og starfsfólk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða heimsækir Árneshrepp

Gestirnir í Krossneslaug. Mynd: aðsend.

5. og 6. maí komu góðir gestir í Árneshrepp þar sem stjórn og starfsfólk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða komu  heimsóttu ferðaþjóna á væðinu og héldu fund með áhugasömum íbúum í Árneshreppi og kynntu starfsemi sjóðsins.

Einig fóru þau yfir þau verkefni sem unninn hafa verið á síðustu árum, það er göngustíg niður að Kistuvog þar sem galdrabrennur voru til forna. Stígurinn er einstaklega vel heppnaður með listaverkum úr rekavið unnið af Guðjóni Kristinnssyni frá Dröngum.

Einnig skoðuðu þau útsýnispall við Norðurfjarðarhöfn og svæðið þar um kring sem hefur tekið miklum stakkaskiptum.

Ungmennafélagið Leifur heppni fékk nú úr síðustu úthlutun styrk að upphæð 13,3 milljónir kr. til að gera göngustíg að Krossneslaug og útsýnispall ofan við laugina. Krossneslaug er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða.

Stokkar og steinar sf fékk styrk að upphæð 8,5 milljónir kr. Styrkurinn felur í sér stækkun á bílastæði við Kistuvog. Allur frágangur mun taka mið af umhverfinu með grjóthleðslum og renna inn í aðliggjandi landslag. Kistuvogur er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða og er mikið sóttur af ferðamönnum.

Guðjón Kristinson mun sjá um bæði þessi verkefni enda einstakur hagleiksmaður.

Auglýsing

Góðar gjafir frá Kvenfélaginu Hörpu á Tálknafirði og Kvenfélaginu Sif á Patreksfirði

Á myndinni eru frá vinstri: Petrína Sigrún Helgadóttir formaður kvenfélagsins Sifjar Patreksfirði, Margrét Brynjólfsdóttir sjúkraþjálfari Hvest á Patreksfirði og Nancy Rut Helgadóttir formaður kvenfélagsins Hörpu Tálknafirði. Mynd: aðsend.

Endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði hefur fengið tvö ný æfingatæki að gjöf frá kvenfélögunum Hörpu og Sif. Tækin munu nýtast í daglegri þjálfun og endurhæfingu notenda.

Kvenfélagið Harpa gaf Concept2 SkiErg skíðagöngutæki. Tækið byggir á loftmótstöðu og virkjar alla helstu vöðvahópa. Það hentar vel til almennrar styrktar- og þolþjálfunar og má einnig nota í sitjandi stöðu, sem nýtist sérstaklega þeim sem eru í hjólastól.

Kvenfélagið Sif gaf Concept2 BikeErg æfingahjól. Hjólið notar sömu tækni og önnur Concept2 tæki, er með kúplingu eins og reiðhjól og tengist öppum á borð við Zwift og ErgData. Það hentar vel fyrir almenna þolþjálfun og sérstaklega þeim sem eru nýkomnir úr aðgerð á hné og þurfa á endurhæfingu að halda.

Stofnunin þakkar kærlega fyrir gjafirnar sem munu nýtast vel í fjölbreyttri þjálfun fyrir alla þá sem þangað koma.

Auglýsing

Strandveiðar: 143 bátar lönduðu 101 tonni

Strandveiðibátar landa í Bolungavíkurhöfn á mánudaginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Strandveiðar smábáta hófust á mánudaginn. Þann dag lönduðu 143 bátar samtals 101 tonni af afla í 10 höfnum á Vestfjörðum.

Flestir lönduðu í Bolungavíkurhöfn eða 38 bátar og afli þeirra var 27,6 tonn. Á Patreksfirði landaði 31 bátur og var afli þeirra 20,5 tonn. Hólmavík kom næst, en þar landaði 21 bátur 15,5 tonnum.

Suðureyri var í fjórða sæti. Þaðan reru 20 bátar og komu þeir með 13,5 tonn að landi. Á Tálknafirði lönduðu 13 bátar 9 tonnum og á Bíldudal var landað 5,1 tonni af 8 bátum. Sex bátar lönduðu á Þingeyri og voru með 4,3 tonn.

Á Drangsnesi var landað 2,4 tonnum af þremur bátum. Tveir bátar reru frá Flateyri og voru með 1,8 tonn. Loks landaði einn bátur á Brjánslæk 882 kg.

Auglýsing

Friðlandið á Hornströndum 50 ára

Í tilefni þess að 50 ár eru um þessar mundir síðan stofnað var til Friðlands á Hornströndum, efnir Hornstrandanefnd til afmælismálþings á Ísafirði föstudaginn 23. maí, milli klukkan 15 og 18.

Á dagskránni eru nokkur stutt erindi og umræður er líta að náttúrufari og þýðingar friðunarinnar á það, til samfélags fólksins og sögu þess sem og skipulags og framtíðarsýnar.
Aðgangur að málþinginu er endurgjaldslaus og öllum heimill. Boðið verður upp á kaffiveitingar.
Um kvöldið verður efnt til kvöldvöku á Dokkunni þar sem gestum gefst tækifæri á að spreyta sig í þekkingu á Hornströndum í PubQuiz.

Nánari dagskrá verður send út mjög fljótlega.
Hornstrandanefnd er skipuð fulltrúum Landeigendafélags Sléttu – og Grunnavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Náttúruverndarstofnunar.

Auglýsing

Ekkert tilboð barst í málun og múrviðgerðir

default

Bolungarvíkurkaupstaðar óskar nýlega eftir tilboði í verkið Aðalstræti 22 – múrviðgerðir og málun þar sem helstu verkþættir eru múrviðgerðir, málun utanhúss, endurnýjun á gleri og endurnýun þakants

Útboðsfrestur var til 29 apríl en þegar til kom barst ekkert tilboð í verkið.

Auglýsing

Nýjustu fréttir