Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 2

Salmonella í kjúklingi

Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar um innköllun á einni framleiðslulotu vegna gruns um salmonellusmitaða ferskar kjúklingafurðir frá Matfugli ehf. 

Fyrirtækið hefur innkallað vöruna af markaði í varúðarskyni og í samráði við Matvælastofnun sent út fréttatilkynningu.

Einungis er verðið að innkalla eftirfarandi framleiðslulotu:

  • Vörumerki: Ali og Bónus
  • Framleiðandi: Matfugl ehf, Völuteigi 2, 270 Mosfellsbæ
  • Lotunúmer: 011-25-13-3-68 (heill kjúklingur, bringur, lundir, lærakjöt, bitar, kryddlegnir leggir og heill fugl), pökkunardagur 28.04.2025 – 30.04.2025
  • Dreifing: Bónusverslanir, Krónuverslanir, Kauptún

Hægt er að skila í verslun eða til Matfugls ehf. til að fá endurgreitt. Mjög mikilvægt er að gegnhita kjúkling við matreiðslu en þá er kjötsafinn í þykkasta bitanum orðinn tær og steikingahitamælir sýnir a.m.k. 75°C.

Auglýsing

Bætt við í stjórn Byggðastofnunar

Starfsmaður Innviðaráðuneytisins Aðalsteinn Þorsteinsson les upp nöfn stjórnarmanna Byggðastofnunar á ársfundinum í gær.

Innviðaráðuneytið birti nú í hádeginu tilkynningu um nýja stjórn Byggðastofnunar. Sú breyting hefur orðið frá því sem lesið var upp á ársfundinum í gær að sjöundi stjórnarmaðurinn hefur bæst við og er það Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi, en hann var í fyrri stjórn.

Þá eru nú birt nöfn varamanna í stjórninni og eru það:

  • Guðrún Helga Bjarnadóttir, Reykjavík
  • Hafþór Guðmundsson, Þingeyri
  • Kjartan Páll Þórarinsson, Húsavík
  • Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir, Akureyri
  • Sigríður Framdalz Ólafsdóttir, Hvammstanga
  • Unnar Hermannsson, Garðabæ
  • Arnar Þór Sævarsson, Reykjavík

Auglýsing

Landsnet: tenging Hvalárvirkjunar með fyrirvara

Landsnet kynnti tillögu að kerfisáætlun næstu 10 ára og framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára á fundi á Ísafirði á miðvikudaginn. Fram kom að á árunum 2027 – 2030 verður unnið að tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið með línu frá Ófeigsfirði að Miðdal á Steingrímsfjarðarheiði, þar sem verður tengivirki og annarri línu þaðan í Kollafjörð við Breiðafjörð sem tengist í Vesturlínu með nýju tengivirki.

Tekið er fram að verkefnið er birt í framkvæmdaáætlunar með þeim fyrirvara að framkvæmdir hefjist aðeins þegar samkomulag um tengingu Hvalárvirkjunar hefur verið náð.

Í skýrslu Landsnets segir að Landsnet hafi unnið að undirbúningi verkefna á Vestfjörðum með það að markmiði að auka afhendingaröryggi raforku. Sé það í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Ekki fengust svör við því hvernig afhendingaröryggið yrði betur tryggt ef framkvæmdir við Hvalárvirkjun drægjust á langinn eða frestuðust.

Heildarkostnaður við tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets er á bilinu 8,7- 10,8 milljarðar m.v. nýjustu áætlanir. Er þar átt við heildarkostnað við þessi tvö aðskildu verkefni, þ.e. annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar við nýjan afhendingarstað í Miðdal og hins vegar byggingu á nýjum afhendingarstað í Miðdal ásamt tengingu hans við flutningskerfi Landsnets í Kollafirði.

Fyrra verkefnið, nýr afhendingarstaður í Miðdal, er útvíkkun á meginflutningskerfinu og kostar sú framkvæmd um 4 milljarða króna. Seinna verkefnið, tenging Hvalárvirkjunar, felur í sér aukinn orkuflutning.

Tenging Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið felur ekki í sér gjaldskrárbreytingar þegar horft er á framkvæmdina sem eina heild, sem er nauðsynleg forsenda þar sem ekki verður af nýjum afhendingarstað við Ísafjarðardjúp án Hvalárvirkjunar eða sambærilegrar virkjunar.

Línan milli Miðdals og Kollafjarðar verður 26 km löng. Frá Hvalá í Miðdal verður lögð um 40 km löng raflína, þar af verða um 14 km í jarðstreng.

Landsnet áformar að vinna að þessu verki á árunum 2027 og að ljúka því 2030 þegar Hvalárvirkjun verður gangsett skv. áætlunum.

Auglýsing

Leiðrétting veiðigjalda mun skila sér í bættum innviðum

Mikil umræða hefur átt sér stað um frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu veiðigjalda, jafnt á þingi sem og úti í samfélaginu. Sjávarútvegsmál hafa alltaf kallað fram sterkar skoðanir og réttlætiskennd hjá þjóðinni, hvort sem er í umræðum um kvótakerfið, veiðigjöld, eða strandveiðar.

Þjóðin á fiskinn í hafinu og í umboði hennar geta stjórnvöld ráðstafað aflaheimildum og lagt á gjald fyrir nýtingu þessarar verðmætu eignar. Um það er sem betur fer ekki lengur neitt vafamál í umræðunni.

Leiðrétting veiðigjalda er stórt sanngirnismál fyrir þjóðina og hún á að fá réttláta hlutdeild í arði af eigin auðlind, í samræmi við lögin.

Staðreyndin er sú að þjóðin hefur verið hlunnfarin. Hún hefur ekki fengið þann arð af greininni sem mælt er um í lögum um veiðigjald. Það er þess vegna sem lagt er til að leiðrétta veiðigjöldin.

Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.

Sanngjörn veiðigjöld sem renna til uppbyggingar innviða geta því stuðlað að sátt um stjórn fiskveiða. Áratuga ágreiningur hefur staðið um kvótakerfið og hvað sé réttlátt og sanngjarnt afgjald af notkun þessarar verðmætu eignar þjóðarinnar. Hækkun veiðigjalda snýst ekki um að breyta kvótakerfinu heldur að leiðrétta veiðigjöld á þann hátt að þau miðist við verð á markaði en ekki verð sem fundið er út með öðrum hætti.

Þetta er sanngjörn og réttlát leiðrétting sem atvinnugreinin ræður mjög vel við og mun leiða af sér hraðari uppbyggingu innviða á Íslandi. Litlum og meðalstórum útgerðum verður hlíft og ávinningurinn fer í uppbyggingu innviða.

Sterk staða íslensks sjávarútvegs

Sjávarútvegurinn er og hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslensku efnahagslífi. Hann er ein af stoðgreinum samfélagsins, ekki aðeins hvað varðar verðmætasköpun og útflutning, heldur líka þegar kemur að byggðafestu, atvinnuöryggi og tækniþróun. Íslenskur sjávarútvegur er í dag meðal þeirra öflugustu og sjálfbærustu í heiminum og það er ekki sjálfgefið. Það er árangur áratuga vinnu, umbóta og mikilla fjárfestinga í nýsköpun, tækni og þekkingu. Þessi árangur er líka sprottinn vegna þessa ramma sem íslensk stjórnvöld hafa mótað þeim.

Góður árangur greinarinnar birtist skýrast í hagtölum. Arðsemi útgerða hefur verið gríðarleg á síðustu árum og fjárfestingar hafa verið umfangsmiklar, bæði í skipum, tækjabúnaði og vinnslu. Þessi velgengni hefur gert fyrirtækjum í greininni kleift að auka við sig, bæði hér heima og erlendis, og eflt stöðu sína sem alþjóðlegir leikmenn á sviði matvælaframleiðslu. Það má vel fullyrða að Ísland sé fremst meðal þjóða þegar kemur að sjávarútvegi.

Undanfarin ár hefur íslenskum útgerðarfyrirtækjum gengið afar vel og eigendur margra þeirra notið verulegs fjárhagslegs ávinnings. Þessi mikli hagnaður hefur hins vegar ekki einvörðungu verið nýttur til að efla grunnrekstur fyrirtækjanna heldur hafa eigendur beint fjármagni í fjölbreytta starfsemi sem á sér enga beina tengingu við sjávarútveg. Með öðrum orðum hafa tekjur sem orðið hafa til með nýtingu sameiginlegra fiskistofna verið nýttar til að kaupa eignarhluti í alls kyns öðrum atvinnugreinum. Má þar nefna stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, fjármálastofnanir, verslunarkeðjur sem selja matvörur, eldsneyti og aðrar nauðsynjar, flutningafyrirtæki, innflutningsfyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, fyrirtæki á sviði matvæla- og landbúnaðarframleiðslu, skyndibitastaði, sósu- og majónesframleiðslu og þetta er aðeins brot af því sem mætti telja upp. Þess utan hefur þessi hópur verið stórtækur í fasteignakaupum og þróun fasteignaverkefna, og við bætast fjárfestingar erlendis sem aldrei hafa verið skráðar eða greindar með heildstæðum hætti.

Leiðrétting veiðigjalda mun lenda þyngst á stærstu útgerðunum sem hafa sannarlega til þess bolmagn. 10 stærstu útgerðirnar greiða 69% af veiðigjöldunum, 30 stærstu fyrirtækin borga 90% af veiðigjöldunum,

Stjórnvöld sem hlusta – komið til móts við minni útgerðir.

Frumvarpið hefur tekið veigamiklum breytingum eftir að hafa farið í samráðsgátt þar sem kallað var eftir athugasemdum. Þær snerust að miklu leyti um áhyggjur af afkomu minni útgerða og auk þess  var kallað eftir frekari greiningum.

Það bárust líka fjölmargar umsagnir sem sýndu mikla ánægju með frumvarpið. Stjórnvöld hlustuðu á framkomnar athugasemdir og hafa komið til móts við minni útgerðir með því að hækka frítekjumarkið verulega. Þessi breyting er metin á 1,5 milljarð króna til lækkunar á væntum tekjum af hækkun veiðigjalds.

Bættir innviðir styrkja samkeppnisstöðu og bæta lífskjör

Af hverju er verið að  hækka veiðigjaldið? Þetta er fyrst og fremst réttlætismál fyrir þjóðina að fá leiðrétt afgjald fyrir eignina sína og það er verið að sækja tekjur til að vinna á innviðaskuldinni.

Eitt það árangursríkasta sem stjórnvöld geta gert til að styrkja samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja er að bæta innviði, laga vegi, lengja vetrarþjónustu, bora göng og byggja brýr.

Góðir innviðir bæta lífskjör. Það er brýn þörf á að lækka innviðaskuldina þar sem við höfum ekki náð að byggja upp innviði í takti við þarfir atvinnulífs og landsmanna.

Veiðigjöldin munu skila sér í innviðauppbyggingu. Gefin hafi verið skýr fyrirheit þess efnis og birtist það m.a. í  nýkynntri fjármálaáætlun  þar sem gert er ráð fyrir miklum fjármunum í t.a.m. í vegakerfið.

Uppbyggingu og viðhald innviða þarf að setja í forgang. Góðir innviðir eru forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og bættra lífskjara. Til þess þurfum við tekjur og þær þarf að sækja til breiðustu bakanna.

Góður stuðningur

Það er gott að finna þennan mikla stuðning við frumvarpið, hvort sem er á fundum eða í heitum pottum. Þjóðarviljinn er líka skýr í þeim í könnunum sem hafa verið gerðar á afstöðu fólks sem birtist síðast í könnun sem birtist í gær sem sýnir að 69% segjast vera hlynnt frumvarpinu um breytingar á veiðigjöldum en 18% andvíg. Stuðningurinn hefur aukist eftir því sem málið fær meiri umræðu og eftir birtingu  taktlausra auglýsinga frá SFS. Fólki er misboðið.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur dæmist fyrst og fremst af verkum sínum en þá er óneitanlega gott að finna þennan mikla stuðning meðal almennings.

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Auglýsing

Ísafjarðarbær: skipuð nefnd um byggingu á nýrri slökkvistöð

Núverandi slökkvistöð á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn að skipa nefnd um byggingu á nýrri slökkvistöð á Ísafirði. Samþykkt var erindisbréf fyrir nefndina.

Sigurður Arnar Jónsson, Sveinn H. Þorbjörnsson og Sveinn Ingi Guðbjörnsson voru kosnir aðalfulltrúar, og Hermann Grétar Hermannsson, Þorkell Lárus Þorkelsson og Steinunn Guðný Einarsdóttir verða varafulltrúar í nefndinni, auk bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem verða einnig aðalfulltrúar, og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og skipulagsfulltrúi sem verða varafulltrúar þeirra.

Auglýsing

Vikuviðtalið: Hrund Karlsdóttir

Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur Hrund Karlsdóttir leiðir móðurömmu sína Bjarneyju Kristjánsdóttur, sem komin er á tíræðisaldur.

Ég heiti Hrund Karlsdóttir,er 48 ára gömul reyndar bráðum 49 og kem frá Bolungarvík – einu af fallegasta bæjarstæði landsins að mínu mati.

Hér á ég mínar rætur, hef alið upp barn og sinnt starfi sem ég brenn fyrir.

Ég er elst af 5 systkinum.

Ég á eina dóttur,Karólínu Mist, sem er nú á öðru ári í læknisfræði í Háskóla íslands.

Ég er gríðalega stolt af henni og þeirri miklu elju sem hún hefur sýnt.

Sjálf starfa ég sem formaður í Verkalýðs og sjómannafélagi Bolungarvíkur.

Réttindarmál launafólks eru mér hjartansmál og tel ég þau grundvöll að sanngjörnu og virðingarfullu samfélagi.

Ég fer alltaf glöð í vinnuna þar sem verkefnin eru fjölbreytt og krefjandi.

Fyrir utan verkalýðsstörfin hef ég einnig mikinn áhuga á sundi.

Ég hef þjálfað sund í 14 ár og það hefur gefið mér ómælda ánægju að vinna með börnum og sjá þau vaxa og dafna í íþróttinni.

Það er fátt jafn hvetjandi og að fylgjast með gleði og framförum ungra iðkenda.

Ég er þakklát fyrir að búa í litlu samfélagi þar sem nándin er sterk og fólk þekkir hvert annað.

Hér er best að vera að mínu mati.

Auglýsing

Hálka á heiðum

Vegagerðin segir hálku vera á flestum fjallvegum til dæmis Hálfdán, Kleifaheiði og Dynjandisheiði en krap er á Steingrímsfjarðarheiðiog Gemlufallsheiði. Eitthvað er um snjóþekju og hálkubletti.

Þá er í dag unnið að þrifum í Dýrafjarðargöngunum. Vegfarendur eru beðnir að aka varlega.

Auglýsing

Ný stjórn Byggðastofnunar: enginn Vestfirðingur

Halldór Gunnar Ólafsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar.

Í gær var haldinn ársfundur Byggðastofnunar og var hann að þessu sinni í Breiðadalsvík á Austfjörðum.

Þar var tilkynnt um nýja stjórn stofnunarinnar, en það er Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra sem skipar hana. Skipt var um alla sex stjórnarmennina.

Nýr formaður er Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti á Skagaströnd. Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson, Hornafirði er varaformaður.

Aðrir stjórnarmenn eru:

Steindór R. Haraldsson, Skagaströnd

Heiða Ingimarsdóttir, Egilsstöðum

Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra

Margrét Sanders, Reykjanesbæ.

Heiða er varaþingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi og Heiðbrá er varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Vigfús Þórarinn var 6. maður á lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.

Í fráfarandi stjórn var einn Vestfirðingur, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Bolungavík.

Uppfært kl 10:33. Tveir stjórnarmannanna eiga ættir að rekja til Vestfjarða. Margrét Sanders flutti ung frá Ísafirði til Njarðvíkur með foreldrum sínum, Albert Sanders og Sigríði Friðbertsdóttur, sem voru frá Ísafirði og Súgandafirði. Heiðbrá Ólafsdóttir er dóttir Ólafs þ. Þórðarsonar fyrrv. alþm. frá Stað í Súgandafirði og segist sannarlega vera Vestfirðingur í hjarta sínu.

Þá má bæta því við að Steindór Haraldsson er hálfbróðir Smára Haraldssonar, fyrrv. bæjarstjóra Ísafirði, en þeir eru samfeðra.

Auglýsing

Kjörstaður verður á Ísafirði í pólsku forsetakosningunum

Í fyrsta sinn verður unnt að kjósa á Ísafirði í komandi forsetakosningum í Póllandi. Að sögn Janina Magdalena Kryszewska, sem situr í kjörstjórn, þurfa þeir sem kosningarétt eiga, að skrá sig. Skráningu lýkur 13. mái næstkomandi. Um 500 Pólverjar á Vestfjörðum hafa kosningarétt og þegar hafa 109 þeirra skráð sig.

Á myndinni með fréttinni eru leiðbeiningar um það hvernig unnt er að skrá sig fyrir forsetakosningarnar.

Kosið verður í Vestrahúsinu 1. hæð á Ísafirði dagana 18. maí og 1. júní. Opið verður frá kl 7 að morgni til kl 9 að kvöldi báða þessa daga.

Auglýsing

Skönnun og varðveisla skipulagsuppdrátta

Nú í upphafi árs gerðu Þjóðskalasafnið og Skipulagsstofnun með sér samkomulag um afhendingu á hluta af skjalasafni Skipulagsstofnunar. Þar er meðal annars að finna frumrit af upphaflegum uppdráttum skipulagsnefndar ríkisins af helstu byggðarlögum á landinu. Verkefnið snýr að forvörslu, frágangi, skráningu og afhendingu elstu skipulagsuppdrátta í safni stofnunarinnar til Þjóðskjalasafns, til varanlegrar varðveislu.

Þjóðskalasafnið hefur nú tekið á móti tólf uppdráttum frá árunum 1927-1943 ásamt fleiri uppdráttum sem stofnunin átti í skjalasafni sínu. Safnið er hluti af okkar sameiginlega menningararfi og er einstakt fyrir margra hluta sakir. Þar má finna ýmsar gersemar sem gefa innsýn inn í íslenska skipulagssögu og hugmyndir um byggðaþróun og bæjarmyndun í upphafi 20. aldar.

Vinnu Þjóðskjalasafns við frágang og skráningu verður skipt á tvö ár, 2025-2026. Afurð skráningarinnar er skjalaskrá sem birt verður á vef Þjóðskjalasafnsins, þar sem uppdrættirnir verða aðgengilegir í stafrænu afriti ásamt helstu upplýsingum um hvern og einn.

Uppdrættirnir verða jafnframt gerðir aðgengilegir á vef Skipulagsstofnunar ásamt upplýsingum um framvindu verkefnisins og næstu skref en í skjalasafni stofnunarinnar er að finna ýmis önnur gögn sem einnig er fyrirhugað að gera aðgengilegri.

Auglýsing

Nýjustu fréttir