Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 2329

Bitist um listina á lokametrunum

Eitt þeirra verka sem finna má á uppboðinu er þetta stór og glæsilega málverk Reynis Torfasonar

Listaverkauppboði krabbameinsfélagsins Sigurvonar lýkur á miðnætti í kvöld og má ennþá slá tvær flugur í einu höggi með því að næla sér í vestfirska list í stofuna og styrkja í leiðinni krabbameinsfélagið til góðra verka. Lokadagurinn virðist ætla að verða fjörugur að sögn Tinna Hrundar Hlynsdóttur gjaldker félagsins: „Við höfum fengið nokkur boð bara í dag, svo að fólk virðist vera að bítast um þetta svona á lokametrunum sem er æðislegt!“

Listaverkauppboðið er nýjung í fjáröflun hjá félaginu og eru á uppboðinu sjö verk eftir níu listamenn. Uppboðið fer fram á netinu og getur fólk tekið þátt með því að senda tölvupóst á netfangið sigurvon@snerpa.is eða í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook, þar sem einnig má sjá myndir af öllum verkunum.

annska@bb.is

Auglýsing

Þrír Ísfirðingar á pall

Anna María Daníelsdóttir í brautinni á Landsmóti.

Isak Stiansson Pedersen frá Skíðafélagi Akureyri sigraði í 10 km göngu með frjálsri aðferð á Skíðamóti Íslands sem fer fram á Akureyri. Ísfirðingurinn Albert Jónsson koma fast á hæla hans og var einungis þremur sekúndubrotum á eftir sigurvegaranum. Dagur Benediktsson úr Skíðafélagi Ísfirðinga var í þriðja sæti, sex sekúndum á eftir Isak.

Í dag, föstudag, fór einnig fram 5 km ganga kvenna og var gengið með frjálsri aðferð. Elsa Guðrún Jónsdóttir frá Ólafsfirði sigraði og Anna María Daníelsdóttir úr Skíðafélagi Ísafirðinga varð í öðru sæti. Veronika Lagun frá Skíðafélagi Akureyringa hafnaði í þriðja sæti.

Smári

Auglýsing

Höfum burði til að vera öflug fiskeldisþjóð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Ég hef hvatt fiskeldisfyrirtækin til að kunna sér hóf. Það þarf að byggja greinina upp á ábyrgan hátt og ekki líta á vöxtinn sem kapphlaup. Ef skynsemin ræður ferðinni, reglurnar eru skýrar og ekki vaðið fram þá höfum við alla burði til að gera Ísland að mjög öflugri fiskeldisþjóð. Við þurfum ekki að finna upp hjólið og getum lært mikið af Norðmönnum og þeim stífu reglum og ströngu kröfum um að búnað í fiskeldi sem þar gilda“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við 200 mílur, sjávarútvegsblað Morgunblaðsins í dag.

„Eins og staðan er í dag þurfum við að fá skýrari sýn á framtíð fiskeldis á Íslandi. Gera þarf mjög ítarlegar kröfur umhverfisvernd og ábyrgan vöxt. Fiskeldið má alls ekki skaða lífríkið í fjörðunum og alls ekki skemma villta stofna auk þess að eðlilegt er að gera kröfu um auðlindagjald í einhverju formi,“ segir sjávarútvegsráðherra í viðtalinu.

Í samtali við 200 mílur segir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra ennfremur æskilegt að gjaldið renni að miklu eða öllu leyti til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er rekið.

„Norðmenn líta svo á að þeir hafi gert mistök með því að láta þau gjöld sem tekin voru af fiskeldinu ekki skila sér í meira mæli til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið fer fram“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Smári

Auglýsing

Fjöldi gistinátta rýkur upp

Gistinætur á hótelum í febrúar voru 331.800 sem er 21% aukning miðað við febrúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 21% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 18%.

Flestar gistinætur á hótelum í febrúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 227.100 sem er 13% aukning miðað við febrúar 2016. Um 68% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 48.200. Erlendir gestir með flestar gistinætur í febrúar voru Bretar með 107.600 gistinætur, Bandaríkjamenn með 69.900 og Þjóðverjar með 20.300, en íslenskar gistinætur í febrúar voru 37.400.

Í gögnum Hagstofunnar eru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi taldar saman. Þeim fjölgaði um 34% í febrúar samanborið við febrúar 2016. Fjölgun gistinátta er enn skarpari sé litið yfir lengra tímabil. Á tímabilinu mars 2015 til febrúar 2016 voru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi 124.248, en á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 voru þær 176.357 eða fjölgun um 42%.

Á tólf mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum á Íslandi 3.969.500 sem er 33% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Smári

Auglýsing

Skattahækkun kemur verst við landsbyggðina

Ferðamenn á Látrabjargi.

Áform ríkisstjórnarinnar um að hækka ferðaþjónustuna úr lægra virðisaukaskattþrepi upp í það hærra kemur eins og blaut tuska framan í ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Þetta kom fram á neyðarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í gær. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að gengisstyrking og kostnaðarhækkanir stefni nú þegar afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu í mikla hættu, en með boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar versni samkeppnishæfni Íslands til mikilla muna. Í ályktuninni segir að afleiðingarnar verða alvarlegastar fyrir landsbyggðina sem á nú þegar undir högg að sækja þegar kemur að ferðaþjónustu. Samkvæmt upplýsingum Samtökum ferðaþjónustunnar fer Ísland í annað sæti yfir hæstan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í heiminum komi skattahækkunin til framkvæmda, en dönsk ferðaþjónustufyrirtæki greiða 25 prósenta virðisaukaskatt.

„Ferðaþjónusta er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfa því á alþjóðlegum markaði og í samkeppni við erlenda áfangastaði þar sem ferðaþjónustan er almennt í lægri þrepum virðisaukaskattskerfisins. Það hefur sýnt sig að þau lönd sem eru t.a.m. með gististaði í efri skattþrepum hafa lotið í lægra haldi í samkeppni við aðra áfangastaði. Tillögur um hækkun á virðisaukaskatti vega þannig alvarlega að samkeppnishæfni Íslands,“ segir í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar.

Smári

Auglýsing

Hvessir og bætir í úrkomu í nótt

Það verður norðaustanátt á Vestfjörðum í dag 5-10 m/s. Að mestu leiti verður þurrt, en smá éljagangur á norðanverðum Vestfjörðum er fram kemur í spá Veðurstofu Íslands. Það hvessir og bætir í úrkomu í nótt og má gera ráð fyrir 10-18 m/s í fyrramálið, en minnkandi vindur og stöku él annað kvöld. Hiti verður frá frostmarki að fjórum stigum. Í veðurspá fyrir landið í heild sinni á sunnudag er gert ráð fyrir austan og síðar suðaustan 13-20 m/s með slyddu og síðar talsverðri rigningu, hvassast verður syðst á landinu. Úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýnar í veðri og hiti 3 til 8 stig um kvöldið. Á mánudag kólnar að nýju.

Það eru hálkublettir, hálka eða snjóþekja á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum en autt á láglendi.

annska@bb.is

Auglýsing

Leggst eindregið gegn vegi um Teigsskóg

Strandlína Teigsskógs.

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Í ályktun Fuglaverndar segir að ákvörðun Vegagerðarinnar að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir veglínu Þ-H brjóti í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem Vegagerðin var gerð afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að „stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir.“

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Smári

Auglýsing

Ísborgin nýskveruð

Ísborgin í slipp í Njarðvík. Mynd: Skipamyndir Emils.

Hún ber aldurinn vel, Ísborg ÍS 250, þrátt fyrir að eiga ekki nema tvö ár í sextugt. Ísborgin hefur verið í slipp Njarðvík og var sett niður í gær. „Það var verið að mála og gera klárt,“ segir Arnar Kristjánsson útgerðarmaður. Arnar segir að fljótlega verði haldið á úthafsrækjuveiðar. Ísborgin var smíðuð í A-Þýskalandi árið 1959, einn hinna svokölluðu tappatogara. Alls voru smíðuð 12 skip fyrir Íslendinga af þessari gerð og Ísborg er það eina sem enn er í útgerð.

Smári

Auglýsing

Ein ísfirsk verðlaun á fyrsta degi landsmóts

Sigurður Arnar (t.h.) komst á pall í gær.

Í gær lauk fyrstu keppni á Skíðamóti Íslands á Akureyri þegar keppt var í sprettgöngu. Fyrst fóru allir keppendur í tímatöku og eftir það var raðað í undanúrslit og að lokum voru úrslit. Í loka úrslitum kvenna kepptu fjórar konur til úrslita og á endanum sigraði Elsa Guðrún Jónsdóttir nokkuð örugglega. Í öðru sæti var Kristrún Guðnadóttir, Veronika Lagun hafnaði í þriðja sæti og Ísfirðingurinn Anna María Daníelsdóttir í fjórða sæti.

Hjá körlunum voru fimm keppendur í lokaúrslitum. Keppnin var mjög jöfn en um miðja göngu náði Isak Stiansson Pedersen nokkuð þægilegri forystu sem hann lét ekki af hendi. Í öðru sæti var Sturla Björn Einarsson og Sigurður Arnar Hannesson hafnaði í þriðja sæti, efstur af fjórum keppendum frá Skíðafélagi Ísfirðinga.

Í dag verður keppt í göngu með frjálsri aðferð og í alpagreinunum verður keppt í stórsvigi.

Smári

Auglýsing

Opið hús á Engi

Á Engi verður starfrækt gestavinnustofa listamanna

ArtsIceland eru alþjóðlegar gestavinnustofur listamanna við Aðalstræti á Ísafirði. Þar eru tvær vinnustofur sem listamenn hafa haft færi á að dvelja í og vinna að listsköpun sinni síðan árið 2014. Misjafnt er hversu lengi hver listamaður dvelur á staðnum en það getur verið allt frá tveimur vikum að þremur mánuðum. Kol og salt ehf sem stendur að baki reksturs ArtsIceland skrifaði nýverið undir leigusamning við Ísafjarðarbæ um afnot af Engi til tveggja ára og með því bætast 3 vinnustofur við í sex mánuði á ári frá vori fram á haust, en Engi er á snjóflóðahættusvæði og því ekki leyfilegt að dvelja þar yfir vetrarmánuðina.

Á laugardag býður ArtsIceland gestum á opið hús og listamannaspjall á Engi. Þá gefst listunnendum kostur á að skoða húsakynnin og heyra þrjár listkonur tala um verk sín. Það eru þær Anastasia Lobkovski kvikmyndagerðarkona frá Finnlandi sem nú dvelur í gestavinnustofu ArtsIceland og myndlistarkonurnar Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nina Ivanova sem báðar eru búsettar á Ísafirði.

Stilla úr einu verka kvikmyndagerðarkonunnar Anastasia Lobkovski

Húsið opnar kl. 16 og dagskráin hefst kl. 16:30 með ávarpi Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Boðið verður upp á smáréttasnarl og óformlegt spjall eftir kynningarnar og eru gestir eru beðnir um að taka með sér það sem þeir vilja drekka með matnum. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Meira um viðburðinn og listakonurnar má finna hér.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir