Miðvikudagur 7. maí 2025
Heim Blogg Síða 2113

Sjötíu ár frá strandi togarans Dhoons undir Látrabjargi

Í dag 12. desember 2017 eru 70 ár liðin frá því að togarinn Dhoon frá Fleetwood strandaði undir Látrabjargi í slæmu veðri. Bændur á Látrum og nágrenninu brugðust við og náðu að bjarga 12 mönnnum við nánast ólýsanlegar aðstæður en 3 höfðu áður farist úr áhöfninni.

Í tilefni þessara tímamóta fóru nokkrir félagar úr björgunarsveitinni Bræðrabandinu í gær 11. desember að minnismerkinu um atburðinn, sem er efst á Geldingsskorardali, og kveiktu á þremur friðarljósum.

Að sögn Úlfars B. Thoroddsen var snjólétt var á svæðinu og færð góð. Sólin sigldi lágt yfir Snæfellsnes og lýsti upp strandlengjuna norðan Breiðafjarðar  og björtum glampa sló á hæstu fjallatinda norðan Arnarfjarðar. En nú 12. desember er dimmt yfir og aðstæður nær því sem var fyrir 70 árum.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Olíunotkun flotans minnkað um 43%

Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43% frá árinu 1990 til ársins 2016. Þetta kemur fram í umhverfisskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegir. Skýrslan er gefin út í tilefni þess að tvö ár eru frá undirritun Parísarsamkomulagsins um baráttu gegn loftslagsbreytingum. Í skýrslunni er fjallað olíunotkun í sjávarútvegi og væntanlega notkun til ársins 2030, auk annarra umhverfisþátta í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Mikið hefur áunnist á undanförunum áratugum og mjög hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til sjávarútvegs á Íslandi. Sú þróun heldur áfram á komandi árum. Einkum er horft til áranna 1990 til 2030 í skýrslunni, en það er það tímabil sem Parísarsamkomulagið miðast við.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirgreindar:

  • Sterkir fiskistofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða hafa leitt til verulega minni olíunotkunar í sjávarútvegi og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43% frá árinu 1990 til ársins 2016.
  • Reiknað er með að eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafi dregist saman um 134 þúsund tonn frá árinu 1990 til ársins 2030. Þá verði bræðsla á fiski nær eingöngu knúin með rafmagni og raforkuframleiðsla um borð í fiskiskipum heyri til undantekninga þegar skip eru í höfn. Gangi þetta eftir mun eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafa dregist saman um 54% á tímabilinu.
  • Ársnotkun eldsneytis í sjávarútvegi árið 2016 var sú lægsta frá árinu 1990, bæði frá fiskiskipum og fiskimjölsverksmiðjum.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi hefur farið minnkandi ár frá ári síðan 1990 en þá var hlutfallið 19,5% af heildarlosun Íslands. Árið 2007 var hlutfallið komið niður í 13% og árið 2014 í 9,7%.
  • Sjávarútvegur á Íslandi hefur þegar náð markmiði Parísarsamkomulagsins
  • Fjárfestingarþörf í fiskiskipum fram til ársins 2030 er metin um 180 milljarðar króna. Nýrri og tæknivæddari skip munu draga enn frekar úr umhverfisáhrifum sjávarútvegs.
  • Hagkvæmnisútreikningar sýna að hagstæðara er að nota rafmagn úr landi þegar skip eru í höfn, frekar en að keyra ljósavélar sem ganga fyrir olíu.
  • Frá árinu 2006 til ársins 2016 hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sent á eigin vegum eða haft milligöngu um endurvinnslu á 8.400 tonnum af veiðarfæraúrgangi.

smari@bb.is

Auglýsing

Kólnar aftur í kvöld

Hláka framundan.

Það verður austanátt 8-15 m/s á Vestfjörðum í dag. Minnkandi úrkoma eftir hádegi, mun hægari og dálítil él seinnipartinn. Hiti um frostmark. Norðaustan 10-18 m/s og él, einkum norðantil á morgun og vægt frost. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að nú ganga skil frá lægð á Grænlandssundi yfir landið með suðaustanátt og rigningu eða slyddu og heldur hlýrra lofti en hefur legið yfir landinu undanfarn daga. Suðvestantil er stytt upp í bili, en við taka skúrir eða él þegar líður á morguninn. Annars staðar verður úrkoma af og til í dag, ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Þó loftið sé nokkuð hlýrra en undanfarna daga er það þó skammgóður vermir því í kvöld og nótt snýst aftur í fremur kalda norðanátt með snjókomu eða éljum á norðanverðu landinu og frosti um mest allt land.

Spár gera ráð fyrir norðanátt og svölu veðri næstu daga, en á laugardag og sunnudag er útlit fyrir lægðargang með hvassviðri á köflum og talsverðri úrkomu.

Á Vestfjörðum er víðast nokkur hálka, snjóþekja eða krapi á vefum. Ófært er yfir Dynjandisehiði og Hrafnseyrarheiði.

smari@bb.is

Auglýsing

Metvika í Dýrafjarðargöngum

Munni Dýrafjarðarganga í Arnarfirði.

Í síðustu viku voru grafnir 78,5 m í Dýrafjarðargöngum sem er það mesta sem hefur verið grafið á einni viku hingað til. Heildarlengd ganganna í lok viku 49 var 741,2 m sem er 14,0% af heildarlengd ganganna.

Fram til föstudags var grafið í gegnum samskonar basalt og hefur verið síðustu vikur. Á föstudag kom í ljós kargi í gólfinu og var þá hætt að keyra efni á haugsvæði og því keyrt beint í fyllingu í veg.  Á nokkrum stöðum lekur aðeins af vatni inn í göngin í gegnum sprungur eða drenholur.

Á meðfylgjandi mynd er munninn til hægri. Lengst til vinstri má sjá efnið sem hefur verið haugsett til síðari nota.

smari@bb.is

Auglýsing

Þjófnaður á jólatónleikum í kirkjunni

Fingralangir þjófar gerðu sér lítið fyrir og stálu verðmætum yfirhöfnum tónleikagesta í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi. Yfirhafnirnar voru geymdar í anddyri kirkjunnar meðan á jólatónleikum Heru Bjarkar, Jógvan Hansen og Halldórs Smárasonar stóð. Um var að ræða lykla, greiðslukort, ökuskírteini og peningaseðla svo dæmi sé tekið.

Fljótlega eftir að lögreglu var tilkynnt um þjófnaðinn voru tveir karlmenn handteknir í miðbæ Ísafjarðar, grunaðir um verknaðinn. Þeir eru í haldi meðan rannsókn fer fram.

Allmargir tónleikagestir, sem urðu fyrir þessum þjófnaði, gáfu sig fram við lögregluna. Vera kann að fleiri hafi tapað þarna verðmætum. Þeir eða þau eru hvött til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444 0400.

Þá þiggur lögreglan upplýsingar frá þeim sem kunna að geta gefið upplýsingar um verknaðinn, séð til grunsamlegra mannaferða eða annað sem gæti komið að gagni.

smari@bb.is

Auglýsing

Umhverfisráðherra fékk fyrsta fossadagatalið

Frá vinstri: Tómas Guðbjartsson, Ólafur Már Björnsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Mynd: mbl.is / RAX

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra tók í dag við fyrsta ein­tak­inu af fossa­da­ga­tal­inu 2018 úr hendi þeirra Tóm­as­ar Guðbjarts­son­ar hjartask­urðlækn­is og Ólafs Más Björns­son­ar augn­lækn­is. Þá fékk ráðherra einnig af­hent­an 44 síðna bæk­ling með mynd­um af 30 af þeim foss­um sem verða und­ir ef Hvalár­virkj­un verður að veru­leika. Í tilkynningu segir að lang­flest­ir foss­anna hafi, áður en þeir settu fossa­da­ga­talið á Face­book í sept­em­ber á þessu ári, ekki sést á mynd.

Fram­takið kosti þeir fé­lag­ar úr eig­in vasa og eng­in sam­tök né stjórn­mála­flokk­ur komi að út­gáf­unni. Graf­ísk­ur hönnuður var Guðbjörg Tóm­as­dótt­ir.
„Á morg­un send­um við öll­um ráðherr­um, alþing­is­mönn­um, sveit­ar­stjórn­ar­mönn­um á Vest­fjörðum og stjórn­um orku­fyr­ir­tækja daga­talið og bæk­ling­inn, þeim að kostnaðarlausu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Mark­mið okk­ar er að láta nátt­úr­una á þessu svæði njóta vaf­ans, en við telj­um þetta svæði ein­hverja helstu nátt­úruperlu Íslands, ekki síst foss­ana en þarna leyn­ast 5 foss­ar, sem flest­ir eru lítt þekkt­ir og nafn­laus­ir, sem við telj­um nátt­úrperl­ur á heims­mæli­kv­arða. Þarna telj­um við kjörið að stofna friðland eða þjóðgarð þar sem foss­arn­ir gætu verið í for­grunni.“

Daga­talið verður sett í sölu í út­vist­ar­versl­un­um Ev­erest og Fjalla­kof­ans og í Lyfja­veri og Mela­búðinni.

Ágóði af út­gáf­unni renn­ur til Rjúk­anda, sam­taka um vernd­un nátt­úru og menn­ing­ar­verðmæta í Árnes­hreppi á Strönd­um.

Auglýsing

Móta framtíðarsýn vestfirsks rannsóknarumhverfis

Vestfirskt vísindafólk kom saman á Rannsóknaþingi Vestfjarða fyrir helgi til að ræða og móta framtíðarsýn fyrir vestfirskt rannsóknarumhverfi. Þátttakendur voru fjölbreyttur hópur fólks sem starfar innan vébanda vísindastofnanna á Vestfjörðum sem og sjálfstætt starfandi vísindamenn.

Nokkrar rannsóknarstofnanir á svæðinu kynntu starfsemi sína og verkefni sem unnið er að en einnig fór fram málstofa sem helguð var sjónarmiði samfélagsins hvað þessi mál varðar. Þar tóku til máls Ragnheiður Birna Fossdal, líffræðikennar í MÍ og Smári Haraldsson, stjórnarformaður Náttúrustofu Vestfjarða og fyrrverandi forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Að þessum tveimur málstofum loknum var hugað að innri málum rannsóknaumhverfissins og þess hvert skuli stefna. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að styrkja tengslin við almenning og auka samskiptin við íbúa Vestfjarða í þeim umræðum.

Rannsóknaþingið var styrkt með sérstökum hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða en markmið þess var að gefa rannsóknastofnunum og vísindamönnum tækifæri til að bera saman bækur og stilla saman strengi. Þingið gæti markað tímamót í því að styrkja tengsl innan rannsóknarumhverfissins á Vestfjörðum og efla tengslin við samfélagið. Á þinginu var ákveðið að vinna að því að gera rannsóknarumhverfið á Vestfjörðum sýnilegra. Vefsíða Háskólaseturs Vestfjarða og sérstök Facebook síða gætu nýst í þeim tilgangi. Þátttakendur komu einnig með margar aðrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig mætti auka sýnileika og tengjast betur innbyrðist sem verður forvitnilegt að sjá hvernig þróast í framtíðinni.

smari@bb.is

Auglýsing

Ekki komið leyfi eftir sex ára vinnu

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Á ann­an tug um­sókna um starfs- og rekstr­ar­leyfi fyr­ir sjókvía­eldi er í vinnslu hjá Mat­væla­stofn­un og Um­hverf­is­stofn­un. Þrjú leyf­anna verða vænt­an­lega gef­in út á næstu vik­um og bú­ist er við að 5-7 leyfi til viðbót­ar verði gef­in út á fyrri hluta næsta árs.

Leyf­in sem lengst eru kom­in í vinnslu eru stækk­un hjá Arctic Sea Farm í Dýraf­irði og leyfi sama fyr­ir­tæk­is og Arn­ar­lax í Pat­reks- og Tálknafirði, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um þessi mál í Morg­un­blaðinu í gær. Þar kemur meðal annars fram að sex ár eru síðan Arctic Sea Farm hóf að vinna í stækkun í Dýrafirði en í reglugerð um fiskeldi kemur fram að umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skuli afgreiða innan sex mánaða frá því þær berast. Hafa ber í huga að eftir atvikum þurfa umsóknir um fiskeldisleyfi að fara í umhverfismat og engar kvaðir eru á Skipulagsstofnun að afgreiða umsóknir um umhverfismat á tilteknum tíma.

smari@bb.is

Auglýsing

Annar útisigurinn í höfn

FSu tók á móti Vestra í íþróttahúsi Hrunamanna um helgina. Fyrir leikinn höfðu Vestramenn landað sínum fyrsta útisigri tímabilsins gegn Gnúpverjum og vildu freista þess að bæta útileikjasigurhlutfallið enn frekar.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrstu og liðin skiptust á að hitta og ákefðin á báðum endum vallarins sást vel. Hvorugt liðið hafði forystuna þegar fyrsta leikhlutanum lauk og stigin voru að dreifast vel á leikmenn beggja liða. Liðin fóru inn í annan leikhluta í stöðunni 19-19 og gestirnir settu fljótt í annan gír sem FSu átti erfitt með að fylgja í fyrstu. Þegar blásið var til hálfleiks var staðan 40-45, Vestra í vil.

Fyrstu 6-7 mínúturnar af seinni hálfleiknum voru nokkuð jafnar og FSu hleyptu Vestra aldrei of langt fram úr sér. En hægt og bítandi hertu Vestramenn tök sín á leiknum sem endaði með 74 : 88 sigri Vestra.

Vestri er í fjórða sæti 1. deildar Íslandsmótsins með 16 stig en ekki eru nema tvö stig upp í topplið Breiðabliks og Vestri hefur leikið einum leik færra en lið Blikanna.

smari@bb.is

Auglýsing

Eldsupptök liggja ekki fyrir

Mynd: Rúnar Karlsson.

Lögreglan á Vestfjörðum lauk vettvangsrannsókn á brunanum á Ísafirði á laugardagskvöld. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir ekkert liggja fyrir um eldsupptök. Lögreglan vinnur nú úr þeim gögnum sem var aflað á vettvangi. „Ég tel ekki rétt að vera með einhverjar vangaveltur áður en það er búið að vinna úr þeim gögnum sem við öfluðum,“ segir Hlynur. Hann telur að niðurstaða úr rannsókn lögreglu ætti að liggja fyrir á næstu dögum.

Það má með sanni segja að mikil mildi hafi verið að ekki fór verr í brunanum og réði þar snarræði slökkviliðsmanna og annarra sem börðust við eldinn. Að auki var stafalogn á Ísafirði sem gerði léttara að hefta að eldurinn læsti sig í nærliggjandi hús.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir