Móta framtíðarsýn vestfirsks rannsóknarumhverfis

Vestfirskt vísindafólk kom saman á Rannsóknaþingi Vestfjarða fyrir helgi til að ræða og móta framtíðarsýn fyrir vestfirskt rannsóknarumhverfi. Þátttakendur voru fjölbreyttur hópur fólks sem starfar innan vébanda vísindastofnanna á Vestfjörðum sem og sjálfstætt starfandi vísindamenn.

Nokkrar rannsóknarstofnanir á svæðinu kynntu starfsemi sína og verkefni sem unnið er að en einnig fór fram málstofa sem helguð var sjónarmiði samfélagsins hvað þessi mál varðar. Þar tóku til máls Ragnheiður Birna Fossdal, líffræðikennar í MÍ og Smári Haraldsson, stjórnarformaður Náttúrustofu Vestfjarða og fyrrverandi forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Að þessum tveimur málstofum loknum var hugað að innri málum rannsóknaumhverfissins og þess hvert skuli stefna. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að styrkja tengslin við almenning og auka samskiptin við íbúa Vestfjarða í þeim umræðum.

Rannsóknaþingið var styrkt með sérstökum hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða en markmið þess var að gefa rannsóknastofnunum og vísindamönnum tækifæri til að bera saman bækur og stilla saman strengi. Þingið gæti markað tímamót í því að styrkja tengsl innan rannsóknarumhverfissins á Vestfjörðum og efla tengslin við samfélagið. Á þinginu var ákveðið að vinna að því að gera rannsóknarumhverfið á Vestfjörðum sýnilegra. Vefsíða Háskólaseturs Vestfjarða og sérstök Facebook síða gætu nýst í þeim tilgangi. Þátttakendur komu einnig með margar aðrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig mætti auka sýnileika og tengjast betur innbyrðist sem verður forvitnilegt að sjá hvernig þróast í framtíðinni.

smari@bb.is

DEILA