Þjófnaður á jólatónleikum í kirkjunni

Fingralangir þjófar gerðu sér lítið fyrir og stálu verðmætum yfirhöfnum tónleikagesta í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi. Yfirhafnirnar voru geymdar í anddyri kirkjunnar meðan á jólatónleikum Heru Bjarkar, Jógvan Hansen og Halldórs Smárasonar stóð. Um var að ræða lykla, greiðslukort, ökuskírteini og peningaseðla svo dæmi sé tekið.

Fljótlega eftir að lögreglu var tilkynnt um þjófnaðinn voru tveir karlmenn handteknir í miðbæ Ísafjarðar, grunaðir um verknaðinn. Þeir eru í haldi meðan rannsókn fer fram.

Allmargir tónleikagestir, sem urðu fyrir þessum þjófnaði, gáfu sig fram við lögregluna. Vera kann að fleiri hafi tapað þarna verðmætum. Þeir eða þau eru hvött til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444 0400.

Þá þiggur lögreglan upplýsingar frá þeim sem kunna að geta gefið upplýsingar um verknaðinn, séð til grunsamlegra mannaferða eða annað sem gæti komið að gagni.

smari@bb.is

DEILA