Óvanalega mikill músagangur

Nú berast víða af landinu fréttir um óvanalega mikinn músagang í húsum og má vera að tíðarfar þetta árið spili þar eitthvað hlutverk og vill Matvælastofnun af gefnu tilefni ítreka að óheimilt er að beita aðferðum sem valda nagdýrunum óþarfa limlestingum og kvölum. Slíkt brjóti í bága við lög um velferð dýra. Ekki er heimilt að notast við drekkingargildrur og límgildrur við músaveiðar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að felligildrur tryggi skjóta aflífun með sem minnstum sársauka fyrir dýrin. Slíkra gildra verði þó að vitja daglega.

Þá séu til svokölluð músahótel sem fangar mýs án þess að skaða þær. Í framhaldinu verði að aflífa mýsnar eða sleppa þeim. Það brjóti í bága við lög um velferð dýra að láta mýs svelta til dauða í gildru. Þá verði að tryggja að eitur valdi ekki tjóni á öðrum dýrum en meindýrum.

smari@bb.is

DEILA