„Maður er náttúrlega vanur mýrarboltanum“

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

„Það var draumi líkast að ná að skora í fyrsta landsleiknum, það var líka mikill léttir eftir að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Að ná að koma til baka og skora,“ sagði bolvíski fótboltamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason eftir landsleikinn við Indónesíu í gær. Andri Rúnar lék sinn fyrsta landsleik og skoraði opnunarmark Íslands í 6-0 sigri. Fótbolti.net ræddi við hann að loknum leik.

Ausandi rigning var í Yogakarta í gær og erfiðar aðstæður og dómarinn stöðvaði leikinn um tíma vegna vatnselgsins og í seinni hálfleik var völlurinn orðinn einn stór vatnspollur. Andri Rúnar lék ekki í síðari hálfleik og var með svar á reiðum höndum þegar blaðamaður fótbolta.net spyr hvort hann hafi ekki verið hálf feginn að sleppa við að spila seinni hálfleikinn í ljósi ástands vallarins. „Maður er náttúrulega vanur mýrarboltanum á Ísafirði og það hefði verið fínt að taka þátt! En já þetta voru erfiðar aðstæður, pollar um allt, en við gerðum virkilega vel í seinni hálfleik. Við skoruðum fimm mörk í þessum aðstæðum sem er virkilega vel gert.“

DEILA