Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 123

Horfin býli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu

Út er komin bókin Horfin býli og hulddar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu. Höfundur er Ólafur J. Engibertsson.

Um er að ræða 2. útgáfu bókarinnar, aukna og endurbætta. Snjáfjallasetur gaf út 1. útgáfuna 2003, en sú bók er löngu uppseld.

Í Snæfjallahreppi og Grunnavíkurhreppi urðu mikil umskipti á 20. öldinni. Um aldamótin 1900 var mannlíf í miklum blóma á þessu svæði og íbúafjöldinn umtalsverður á landsmælikvarða. Síðasti bóndinn flutti í burtu 1995. Hér er að finna frásagnir sem þræða hina horfnu byggð, allt frá landnámi til síðustu ábúenda. Fjöldi mynda prýðir bókina.

Árið 1703 voru 8 býli í byggð á Snæfjallaströnd með samtals 147 íbúum, þar af 5 ómögum. 1801 voru býlin jafnmörg, en íbúum hafði fækkað niður í 130. Í flestum tilvikum var tví- eða þríbýli og á einum stað, Unaðsdal, var fjórbýli, svo bæirnir voru í reynd 20. Íbúafjöldinn á Snæfjallaströnd fór eftir það ört hækkandi og voru þar yfir 300 manns um aldamótin 1900, þegar árabátaútgerð var í hvað mestum blóma. Árið 1910 var íbúafjöldinn hinsvegar kominn niður í 223 og um 1930 var 21 bær í byggð í Snæfjallahreppi með um 150 íbúa. Á þessum árum og fram eftir 4. áratugnum fór fólki svo ört fækkandi og fjölskyldur fluttu í burtu, einkum af ytri Ströndinni. Gamlar kostajarðir fóru þá í fyrsta sinn í eyði og í ritinu er lögð áhersla á að bregða ljósi á hvernig umhorfs var um og eftir 1930 þegar hinar miklu umbreytingar urðu og ásýnd Strandarinnar breyttist. Byggt er á upplýsingum í bókinni Undir Snjáfjöllum eftir Engilbert S. Ingvarsson sem Snjáfjallasetur gaf út 2007.

Á ytri Ströndinni í landi Sandeyrar og Snæfjallastaðar var talsverð þurrabúðabyggð um aldamótin 1900. Þegar mest var bjuggu þar fjórtán fjölskyldur í litlum kotum með lítið undirlendi, en gjöful fiskimið skammt undan landi. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum ritaði ítarlega um búendur og bátaformenn þar árið 1901 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga. Í Grunnavík var uppgangur í útgerð eftir aldamótin og fram yfir 1950.

Þorvaldur Thoroddsen segir í Ferðabók sinni rétt fyrir aldamótin 1900 að kotahverfi sé niður við sjóinn í Grunnavík. Um 80 manns eru þá taldir eiga þar heimili. Jóhann Hjaltason skrifar 1949 að þarna sé snotur byggð og að bæirnir standi þar þétt. Byggðin var þá kölluð Í Víkinni og voru íbúarnir enn um 70. Ljóst er að þarna var vísir að þéttbýliskjarna sem hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu á rúmum áratug. Byggð hélst áfram í blóma á innri Snæfjallaströnd, þó býlum fækkaði. Með samgöngubótum og Inn-Djúpsáætlun var reynt að sporna gegn því að byggðin legðist í eyði, líkt og raunin varð á með Grunnavík haustið 1962. Þróunin varð þó ekki umflúin og síðasti bóndinn hvarf af Ströndinni haustið 1995. Síðan hefur einungis verið fólk þar á sumrum, líkt og í Grunnavík og á Höfðaströnd, utan ábúenda í Æðey sem dvelja þar meira og minna allt árið.

Myndir í bókinni eru m.a. eftir Hjálmar R. Bárðarson, Mats Wibe Lund, Ingva Stígsson og Halldór Jónsson. Margar myndir koma úr einkasöfnum. Einnig eru margar brunavirðingateikningar frá 1934 í bókinni, sem eru í mörgum tilvikum einu heimildirnar sem til eru um útlit bæjanna.

Snjáfjallasetur er með upplýsingar um hvern bæ á vef sínum: https://snjafjallasetur.is/byli/index.html

Bókin fæst hjá útgefendum, Sögumiðlun og Snjáfjallasetri. 

Bókin er einnig til sölu í völdum verslunum. Pantanir óskast á netfangið olafur@sogumidlun.is

Auglýsing

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða : styrkveitingar 2024

Frá úthlutnarhófi sem haldið var á fimmtudaginn. Mynd: Vestfjarðastofa.

Uppbyggingarsjóður hefur tilkynnt um styrkveitingar sínar fyrir næsta ár.

Stofn- og rekstrarstyrkir til ellefu menningarstofnana eru samtals 17.000.000 kr.

Eftirfarandi styrkir voru veittir:

Listasafn Samúels 1.000.000

ArtsIceland og Úthverfa 1.000.000

Safn Gísla á Uppsölum 1.000.000

Skrímslasetrið á Bíldudal 1.000.000

Baskasetur í Djúpavík 1.500.000

Báta og hlunnindasýningin á Reykhólum 1.500.000

Netagerðin Skapandi vinnustofur – 2.000.000. lækkandi styrkur til þriggja ára

Edinborgarhúsið 2.000.000 til tveggja ára

Strandagaldur 2.000.000 til þriggja ára

Kómedíuleikhúsið – atvinnuleikhús 2.000.000 til þriggja ára

Sauðfjársetrið á Ströndum 2.000.000 til þriggja ára

Fagráð menningar fer yfir umsóknir og ákveður hvaða verkefni fái styrk og úthlutunarnefnd ákveð fjárhæð styrksins.

Í fagráði menningar sitja:

Smári Haraldsson, Ísafjarðabæ
Jóhann Örn Hreiðarsson, Vesturbyggð
Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir, Reykhólum
Elsa Arnardóttir, utan svæðis – formaður

Í fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar eru:

Tinna Ólafsdóttir, Ísafjarðarbæ
Jónas Snæbjörnsson, Vesturbyggð
Þorgeir Pálsson, Strandabyggð
Hólmfríður Einarsdóttir, utan svæðis – formaður

Í úthlutunarnefnd eru:

Kristján Þór Kristjánsson, Ísafjarðarbæ, formaður
Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð
Arnlín Óladóttir, Kaldrananeshreppi
Formaður fagráðs menningar
Formaður fagráðs nýsköpunar

Auglýsing

Jóladagatal Samgöngustofu

Jóladagatal Samgöngustofu hófst á sunnudaginn.

Um er að ræða 24 skemmtilegar sögur um jólasveinana og ævintýri þeirra, m.a. í umferðinni. Í sögunum fáum við ekki bara að heyra um jólasveinana 13 heldur kynnumst við einnig öðrum minna þekktum íslenskum jólasveinum.

Hægt er að lesa eða hlusta á sögurnar, svara einfaldri spurningu og senda inn svarið. Tvö svör eru dregin út daglega fram að jólum og hljóta þau heppnu veglegan endurskinsbakpoka. Í janúar er svo einn heppinn grunnskólabekkur dreginn út og hlýtur hann pizzu-veislu og borðspil.

Við hvetjum fólk til að lesa sögurnar eða hlusta á þær, leyfa börnunum að svara getrauninni og kannski taka smá umræðu um efni sögunnar.

Jóladagatalið má finna hér: http://joladagatal.umferd.is

Auglýsing

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar

Árleg jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar undir yfirskriftinni „Hjálpumst að heima og heiman“ er hafin og er nú í fullum gangi.

Utan Reykjavíkur er aðstoðin veitt í góðri samvinnu við Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, mæðrastyrksnefndir og kirkjusóknir vítt og breitt um landið og með frábærum stuðningi frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.

Bjarni Gíslasona framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar hvetur söfnuði landsins til að minna fólk á að taka þátt í söfnuninni og nýta öll tækifæri sem gefast til að taka þátt í söfnuninni.

Opnað var fyrir umsóknir um jólaaðstoð á netinu 21. nóvember.

Lokað verður fyrir netumsóknir þann 10. desember.

Opnað verður að nýju fyrir almennar umsóknir um neyðaraðstoð á netinu 8. janúar.

Prestar og djáknar í dreifbýli hafa milligöngu um aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar við einstaklinga jafnt sem barnafjölskyldur en á svæðum þar sem aðrar hjálparstofnanir starfa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við efnalitlar barnafjölskyldur.

Auglýsing

Leiguverð var lægst á Ísafirði á þriðja ársfjórðungi

Alls tóku 6.478 samningar gildi í Leiguskrá HMS á þriðja ársfjórðungi 2024 á sama tíma og 3.909 samningar féllu úr gildi, þannig fjölgaði samningum í Leiguskrá um 2.569.

Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr Leiguskrá nú í upphafi nóvember.

Á höfuðborgarsvæðinu var meðaltal markaðsleigu á bilinu 270 til 309 þúsund þar sem dýrast var að leigja í Garðabæ. Af þessum sveitarfélögum var hins vegar markaðsleiga að meðaltali lægst í Reykjavík, en þar var fjöldi fermetra að meðaltali lægstur.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var markaðsleiga hæst í sveitarfélaginu Árborg, um 250 þúsund, en til samanburðar var markaðsleiga um 230 þúsund á sama tíma í fyrra.

Á Ísafirði var leiguverðið tæpar 175 þúsund krónur, í Fjarðarbyggð 183 þúsund og á Akureyri 211 þúsund.

Auglýsing

Ert þú sérfræðingur í fiskeldi sem vilt starfa á Vestfjörðum?

Kvíar í Arnarfirði

Matvælastofnun óskar eftir að ráða tvo metnaðarfulla og skapandi sérfræðinga í fiskeldisdeild til að taka þátt í að móta og þróa framtíð lagareldis.

Um er að ræða 100% starf á starfstöð stofnunarinnar á Patreksfirði, Ísafirði eða í Neskaupstað.

Markmið fiskeldisdeildar er að stuðla að ábyrgu lagareldi og standa vörð um heilbrigði og velferð lagardýra. Traust, gagnsæi og fagleg umgjörð er lykilatriði til að greinin fái að vaxa og dafna í sátt við umhverfið og samfélagið.

Lagareldi er fjölbreytt atvinnugrein með mörgum undirgreinum, s.s sjókvíaeldi, landeldi, úthafseldi, skelrækt og þörungarækt. Lagareldi á sér langa sögu á Íslandi en hefur vaxið hratt síðasta áratuginn. Miðað við núverandi áform getur lagareldi orðið ný stoð í íslenska hagkerfinu og mikilvægt að greinin þróist og vaxi með sjálfbærum hætti.

Til að ná háleitum markmiðum þarf frábæra liðsheild, þess vegna viljum við fá í okkar hóp tvo metnaðarfulla og skapandi einstaklinga sem hafa áhuga á að taka þátt í að þróa framtíð lagareldis segir i auglýsingu Matvælastofnunar.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: laun bæjarstjóra hafa hækkað um 278.504 kr á mán á 2 árum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Fram kemur í bókun Kristjáns Þórs Kristjánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins að laun bæjarstjóra ísafjarðarbæjar hafa hækkað um 278.504 kr á mánuði síðustu tvö árin vegna ákvæða í samningi við Örnu Láru Jónsdóttur, fráfarandi bæjarstjóra um tengingu launanna við launavísitölu. „Það þýðir að árslaun bæjarstjóra sem voru árið 2022 22.047.948 kr eru í dag 25.389.996 kr. Sem þýðir einnig að laun bæjarstjóra hafa hækkað á tveimur árum um 3.342.048 kr.“ segir í bókuninni. „Við í Framsókn ítrekum bókun okkar frá því árið 2023 að samningar bæjarstjóra og bætum núna við annarra starfsmanna sveitarfélagsins sem eru með vísitölutengda samninga verði teknir upp og breytt þannig að þeir hækki skv. kjarasamningum líkt og allir aðrir starfsmenn sveitarfélagsins.“ Telur Kristján hækkun launa bæjarstjóra óhóflegar síðustu tvö ár.  

Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum samningur við Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur um starf bæjarstjóra. Laun hennar eru 1.260.115 kr á mánuði í föst laun auk fastrar yfirvinnu 60 klukkustundum á mánuði eða 785.178 kr. Samtals eru launin 2.045.293 kr. á mánuði. Til viðbótar eru greiddar eru mánaðarlega 500 km. í bifreiðastyrk samkvæmt ákvörðun um akstursgjald
ríkisstarfsmanna nú 141 kr./km. Það gera 70.500 kr. á mánuði. Samningurinn gildir út kjörtímabilið og á bæjarstjóri rétt á þriggja mánaða biðlaunum. Launaliðirnir taka breytingum 1. januar 2025 til samræmis
við þær breytingar er verða á launavísitölu miðað við grunn í október 2024.

Auglýsing

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025: Enn betri þjónusta, framkvæmdir og ríflegur afgangur

Í gær afgreiddi bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fjárhagsáætlun næsta árs. Afgangur af A-hluta verður 223 m.kr, og af A og B hluta samanlögðum verður hann 776 m.kr. Þetta gerist þrátt fyrir útgjaldaaukningu sem ætlað er að bæta lífsgæði íbúa enn meira. Frístundastyrkir, enn ríkari áhersla á menningarlíf og gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru meðal þeirra breytinga sem hafa áhrif á daglegt líf íbúa á næsta ári. 

Við upphaf kjörtímabilsins var það okkar fyrsta verk að setja bænum metnaðarfull fjárhagsleg markmið. Þau sneru að tekjum, gjöldum, skuldahlutföllum og fleiru. Markmiðin hertust eftir því sem leið á tímabilið. Skemmst er frá því að segja að nær öll þessi markmið hafa náðst, og árið 2025 verður ekki undantekning. 

Þar er að þakka blöndu af vestfirsku góðæri og styrkri fjármálastjórn. Tekjur bæjarins hafa hækkað með auknu útsvari og hærra fasteignamat eykur þær enn frekar. En við ætlum ekki að sofa á verðinum. Fasteignaskattsprósentan fyrir íbúa heldur áfram að lækka, og fer nú í 0,5% af fasteignamati en var 0,56% við upphaf kjörtímabilsins. 

Við þökkum starfsfólki bæjarins, fráfarandi bæjarstjóra og minnihlutanum í bæjarstjórn kærlega fyrir gott samstarf við undirbúning áætlunarinnar. 

Of langt mál er að rekja allar fréttir og breytingar, en ég bendi á samantekt Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra, greinargerð og glærukynningu sem gefa góða innsýn inn í helstu þætti áætlunarinnar.  

Rekstur bæjarins er traustur, stjórnin styrk og þjónusta bæjarins heldur áfram að batna. 

Gylfi Ólafsson

oddviti Í-listans

Auglýsing

Aðventutónleikar á Þingeyri, Ísafirði og í Bolungarvík

Kórarnir á sameiginlegri æfingu á dögunum. mynd: aðsend.

Kvennakór Ísafjarðar og Karlakórinn Ernir munu sameina krafta sína á tvennum tónleikum nú á aðventunni. Fyrri tónleikarnir verða í félagsheimilinu á Þingeyri þriðjudaginn 10. desember kl. 20 og þeir síðari í Ísafjarðarkirkju miðvikudaginn 11. desember kl. 20. Á efnisskránni eru jóla- og aðventulög af fjölbreyttu tagi og munu kórarnir ýmist flytja þau saman eða hvor í sínu lagi. Stjórnendur eru þau Rúna Esradóttir og Jóngunnar Biering Margeirsson, en undirleikarar eru Judy Tobin og Gylfi Ólafsson. Aðgangseyrir er kr. 3.500.

Þessu til viðbótar mun karlakórinn koma fram einn síns liðs í félagsheimilinu í Bolungarvík fimmtudaginn 12. desember kl. 20 og er aðgangur að þeim tónleikum ókeypis. Þá mun kvennakórinn koma fram á jólatónleikum sem söngkonan Guðrún Árný stendur fyrir í Edinborgarhúsinu miðvikudaginn 18. desember. 

Auglýsing

Edinborgarhúsið: sextíu kíló – heimur bókanna opnast

Sunnudaginn 8. desember í Bryggjusal kl. 20:00

Hallgrímur er kunnur sögumaður og hefur haldið gríðarlega vinsæl námskeið þar sem hann opnar bækurnar upp á gátt fyrir lesendum sínum og nú gerir hann gott betur og býður gestum til sætis í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Á sviðinu rekur hann frásögnina í gegnum skáldsögurnar af alkunnri list, les upp úr bókunum, lyftir hulunni af vinnuferlinu, baksögunum og innblæstrinum og gæðir persónur sínar lífi sem aldrei fyrr. Sýningin er unnin í samvinnu við Borgarleikhúsið.

Hallgrímur Helgason er margverðlaunaður metsöluhöfundur sem fangað hefur hug og hjörtu þjóðarinnar með verkum sínum um fólkið í sjávarþorpinu Segulfirði í bókum sínum Sextíu kíló af sólskini, Sextíu kíló af kjaftshöggum og þriðju bókinni, Sextíu kíló af sunnudögum sem væntanleg er nú í haust.

Kaupa miða.

Auglýsing

Nýjustu fréttir