Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 124

Við þökkum traustið

Eyjólfur Ármannsson, alþm og samgönguáðherra.

Síðastliðinn laugardag fóru fram sögulegar kosningar til Alþingis. Ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu miklu fylgi og flokkur fyrrum forsætisráðherra datt af þingi, sem og Píratar og Sósíalistar náðu ekki inn. Flokkur fólksins er einn af sigurvegurum kosninganna og vann stóran sigur, fór úr 8.9% árið 2021 í 13,8% og bætti við sig tæplega 13 þúsund atkvæðum. Í Norðvesturkjördæmi rúmlega tvöfaldaði Flokkur fólksins fylgi sitt í atkvæðum talið, fékk 16,7% og tvo þingmenn einn flokka í kjördæminu.

Í kosningabaráttunni fann Flokkur fólksins fyrir mjög miklum meðbyr og jákvæðni, sem og mikinn vilja til breytinga og nýrra áherslna við stjórn landsins. Í Norðvesturkjördæmi er krafan skýr um jöfn búsetuskilyrði í landinu, atvinnufrelsi sjávarbyggða og áratuga innviðaskuld er enn til staðar. Krafa er að átak verði gert í uppbyggingu grunninnviða og að þeir standist samanburð við höfuðborgarsvæðið. Er þar átt við samgöngur, heilbrigðisþjónustu, orkumál, menntun og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil þakka kjósendum Norðvesturkjördæmis það mikla traust sem Flokki fólksins var sýnt í alþingiskosningunum síðastliðinn laugardag. Ég þakka árangurinn því að kjósendur í kjördæminu hafa trú á málflutningi okkar og þeim forgangsmálum sem flokkurinn berst fyrir og metur vinnu okkar á síðasta kjörtímabili. Einnig því jákvæða hugarfari sem Flokkur fólksins stendur fyrir þegar kemur að viðfangsefnum samfélagsins.

Flokkur fólksins lítur með bjartsýni til næsta kjörtímabils og þeirra verkefna sem bíða okkar í að bæta íslenskt samfélag. Í kosningunum endurnýjaði flokkurinn umboð sitt og með tveim þingmönnum frá Flokki fólksins hefur Norðvesturkjördæmi eignast öfluga málsvara.

Við erum þakklát kjósendum kjördæmisins fyrir þá góðu kosningu sem Flokkur fólksins fékk á kjördag og við munum vinna eftir fremsta megni. að málefnum kjördæmisins. Flokkur fólksins þakkar traustið.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur var kjörinn 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis í alþingiskosningunum 30. nóvember sl.

Auglýsing

Vísindaport: Að meta efnahagslega velferð og horfa út fyrir verga landsframleiðslu – íslensk tilviksrannsókn

06.12.2024 kl. 12:10 Vísindaport

Í mörg ár hafa hagfræðingar og fjölmiðlar vísað til hagvaxtar sem aðalmælikvarðans til að meta framfarir. Mælikvarðinn verg landsframleiðsla (VLF) gefur gagnlegar upplýsingar um umfang efnahagsstarfsemi en segir okkur lítið um hvort þessi starfsemi stuðli jákvætt að velferð okkar. Ýmislegt, eins og mengun og kostnaður við hreinsun, teljast jákvæðir í útreikningum VLF, á meðan mikilvægar hliðar sem ekki koma fram á markaði, eins og gildi frítíma okkar og sjálfboðavinnu, eru alfarið sniðgengnar.
Aðrir mælikvarðar á efnahagslega velferð eru nú þegar til sem leitast við að laga nokkra af þeim ágöllum sem VLF hefur. Einn slíkur mælikvarði er Genuine Progress Indicator (GPI), sem nýlega var prófaður og birtur fyrir Ísland og er nú í endurskoðun. Í fyrirlestrinum verður fjallað um niðurstöður úr prófunarverkefni sem náði yfir tímabilið 2000-2019 og nýjar niðurstöður sem byggja á nýrri aðferðafræði og taka einnig tillit til COVID-19 áranna.

David starfar sem aðjúnkt við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans snúast um tengsl hagkerfa, sjálfbærni og velferð manna. David kennir umhverfishagfræði og vistfræðihagfræði við Háskóla Íslands og hefur einnig kennt umhverfishagfræði við Háskólasetur Vestfjarða frá árinu 2019.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á ensku

Auglýsing

Ný rannsókn: engin mælanleg áhrif laxeldis á lúsagengd á villtum laxi

Breski vefurinn SalmonBuisness.com greindi frá því á þriðjudaginn að ný rannsókn í Bresku Kólómbíu á Kyrrahagsströnd Kanada hefði sýnt að engin mælanleg áhrif væru af laxeldi í sjókvíum á lúsagengd á villtum laxi. Er það í andstöðu við það sem lengi hefur verið haldið fram að banna við sjókvíaeldi myndi draga úr lúsum á villtum laxi og vera til hagsbóta fyrir hann.

Rannsóknin leiddi í ljós að fjöldi lúsa á villtum laxi hefði haldist mjög svipað eftir að laxeldiskvíum á tilteknu svæði sem var til rannsóknar var lokað. Viðbótarrannsóknar Salmon Coast Research Station sem birtar voru í vikunni hefðu sýnt óverulegar breytingar á lúsaálagi.

Þessar rannsóknir eru í takt við niðurstöður rannsókna í Noregi, sem greint var frá fyrr á þessu ári í Reviews in Aquaculture. Þar voru niðurstöðurnar að lúsaálag í eldiskvíum hefðu ekki mælanleg áhrif á villta laxastofna.

Haft er eftir Simon Jones sem er vísindamaður hjá Fisheries and Oceans Canada (DFO), opinberri stofnun í Kanada sem fer með málefni hafs og vatns að þetta væri mikilvæg niðurstaða sem þýddi að afla þyrfti frekari skýringa á þeim atriðum sem hafa áhrif á villta laxastofna.

Samtök laxeldisbænda í Bresku Kólombíu í Kanada hafa af þessu tilefni áréttað nauðsyn þess að nýta vísindin til þess að þróa atvinnugreinina.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: tekjur hafnasjóðs losa milljarð á næsta ári

20.júlí sl. voru tvö stór skemmtiferðaskip við Sundabakka og eitt lá við akkeri útar. Við Mávagarð lá laxaflutningskip til marks um gróskuna á Vestfjörðum sem tengjast þessum atvinnugreinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tekjur hafnasjóðs munu fara yfir milljarð króna á næsta ári samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2025 sem er til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi í dag.

Gjöld hafnasjóðs eru liðlega helmingur teknanna afgangur því nálægt hálfum milljarði króna. Mikil breyting hefur orðið á afkomu hafnasjóðsins frá covidárinu 2020 þegar gjöldin voru hærri en tekjurnar. Tekjurnar hafa ríflega fimmfaldast á þessum tíma og eru áætlaðar á þessu ári nálægt milljarði króna.

670 m.kr. framkvæmdir

Framkvæmdageta hafnasjóðs er mikil veegna hinnar góðu afkomu. Samkvæmt tillögunni að fjárhagsáætlun er áætlað að framkvæma fyrir 670 m.kr. Þar af eru 458 m.kr. við framkvæmdir á Ísafirði. Meðal framkvæmda á næsta ári eru gatnagerð við Hrafnatanga þar sem gatan verður flutnings- og
aðkomuleið að Sundabakka þegar girðing er lokuð vegna hafnverndar. Mikil þörf er á að lengja viðlegukanta fyrir ferðaþjónustubáta í Sundahöfn, þar sem þeim hefur fjölgað og þeir stækkað undanfarin
ár. Stefnt er að því að fjölga viðleguplássum fyrir skútur og minni báta á Ísafirði og halda áfram frágangi
og byggingu þjónustuhúss við gamla olíumúlann. Þá er verið að hanna móttökuhús, og gönguleiðir fyrir farþega frá Sundabakka yfir að Byggðasafni og Sundahöfn, að Mávagarði til að tryggja öryggi þeirra og aðskilja þá eins og hægt er frá vinnusvæðum á hafnarsvæðinu.

Á Suðureyri er áætlað að stækka höfnina og bæta við einni flotbryggju til að auka viðlegurými. Kostnaður er 62 m.kr. og fást 37,5 frá ríkissjóði. Hlutur hafnasjóðs verður 24,5 m.kr.

Á Þingeyri er áætlað að kaupa stál til að endurbyggja hafskipabryggjuna árið 2025. Kostnaður er 150 m.kr. og þar af greiðir ríkið 112,5 m.kr. Hlutur hafnasjóðs verður því 37,5 m.kr.

Hlutur hafnasjóðs í framkvæmdunum öllum verður 520 m.kr.

Auglýsing

Gul marsipanviðvörun

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Þakka ber það sem vel er gert. Í aðdraganda kosninga sá fjárlaganefnd að ekki yrði lengur hægt að fresta tveimur lykilframkvæmdum í vegakerfinu á Vestfjörðum. Þriðji áfangi vegar yfir Dynjandisheiði og bygging tveggja brúa í Gufudalssveit hefur fengið fjárveitingu. Nú vonum við að veglagningu yfir Dynjandisheiði ljúki á næsta ári og að nýjar brýr í Gufudalssveit verði tilbúnar í árslok 2026.

Síðustu misseri hafa orðið þáttaskil í samgöngum milli norðanverðs Djúps og annarra landshluta. Þungi ferða hefur flust úr Djúpinu á svokallaða vesturleið. Stærstu þrír þættirnir í því eru Dýrafjarðargöng, vegbætur á Dynjandisheiði og þverun Þorskafjarðar auk tengdra framkvæmda. Þær tvær framkvæmdir sem settur var peningur í eru lokahnykkurinn í tveimur síðarnefndu verkefnunum.

Namm, marsipan!

Þegar þessu lýkur þarf að klippa á borða og baka stórar marsipantertur með jarðarberjafrómas og súkkulaðiskreytingu ofaná. Og ekki misskilja mig: það verða bæði margar marsipantertur og að minnsta kosti þrjár athafnir. Fyrst á áningarstaðnum fyrir ofan Geirþjófsfjörð (til vara niðri við Dynjanda, af því að þar er aðgengi að klósettum) til að fagna áfangasigrinum á Dynsunni.

Svo verður aftur veisla, í þetta skiptið á Grónesi, nesinu milli Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Grónes verður í alfaraleið þegar firðirnir sitthvoru megin verða þveraðir og væntanlega jafntamt í munni Vestfirðinga og fjarðanöfnin í Djúpinu og nöfn handboltahetjanna í silfurliðinu 2008.

Seinnipart 2026, getum við svo haldið fjar-marsipantertuveislu á öllum þjóðvegum Vestfjarða, því samkvæmt samningum á þá að ljúka uppsetningu 23 sendimastra fyrir farsímanet víða á kjálkanum. Ekki verður lengur slitrótt samband á vegum, sem bæði auðveldar manni að nýta tímann til að hringja símtöl, en eykur einnig öryggi veganna.

Önnur góð frétt í fjárlögum er hin svokallaða halaklipping vetrarþjónustu, en þar var uppsafnaður halli Vegagerðarinnar vegna snjómoksturs gerður upp. Vonandi losnar við það spenna sem verið hefur á fjárheimildum þeirra og við getum séð fram á lengri opnunartíma vega.

Og hvað svo? Trostansleggur Dynjandisheiðarinnar er sennilega efstur á blaði af einstökum framkvæmdum, sem og samgöngubætur í tengslum við virkjanaframkvæmdir í Árneshreppi. Samhliða halda jarðgangarannsóknir áfram og viðgerðir á köflum sem hafa látið mikið á sjá. 

Innviðafélag Vestfjarða hefur náð að setja þessi mál öll á dagskrá með það að markmiði að fá samgöngusáttmála fyrir Vestfirði inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Það væri stóráfangi.

Gylfi Ólafsson, formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga

Auglýsing

Barnabætur fyrirframgreiddar á fæðingarári barns

Barnabætur verða frá og með næsta ári einnig fyrirframgreiddar á fæðingarári barns í samræmi við nýja reglugerð fjármála- og efnahagsráðherra sem tekur gildi 1. janúar 2025.

Í núverandi barnabótakerfi tekur greiðsla barnabóta mið af fjölda barna í lok síðastliðins árs og hafa foreldrar janúarbarna því þurft að bíða í þrettán mánuði eftir fyrstu greiðslu barnabóta í febrúar ári síðar. Nú mun þessi biðtími verða að hámarki fjórir mánuðir.

Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári í núverandi kerfi. Fyrstu tvær greiðslur ársins eru fyrirframgreiðslur í febrúar og maí og nema þær helmingi áætlaðra barnabóta ársins. Þær eru dregnar frá útreiknuðum barnabótum ákvörðuðum við álagningu miðað við tekjur á skattframtali og er eftirstöðvunum skipt í tvær greiðslur í júní og október.

Fyrirframgreiðsla barnabóta á fæðingarári barns tekur mið af 50% af hámarksfjárhæð barnabóta fyrir hjón og sambúðarfólk og reiknast sem hlutfall af fjárhæð barnabóta sem gilda við álagningu á fæðingarárinu. Fyrirframgreiðsla á fæðingarári barns greiðist eftir atvikum og að hámarki með þremur jöfnum greiðslum á tekjuárinu. Fyrsta fyrirframgreiðsla barnabóta er greidd mánuði eftir lok hvers ársfjórðungs.

Með þessu fyrirkomulagi verður fyrirframgreiðslu á fæðingarári barns, ásamt þeim tveimur fyrirframgreiðslum sem þegar eru ákvarðaðar á álagningarári, dreift í 3-5 skipti allt eftir því hvenær barnið fæðist, og kemur fyrirframgreiðsla á fæðingarári barns til frádráttar fyrirframgreiðslum barnabóta næsta árs, þ.e. febrúar- og maígreiðslunum sem nema 50% af áætluðum barnabótum ársins.

Auglýsing

Forseti Íslands – Verndari ÍSÍ

Á dögunum áttu forystumenn Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fund með nýkjörnum forseta Íslands og verndara ÍSÍ, Höllu Tómasdóttur, en það voru þeir Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Andri Stefansson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem heimsóttu Höllu á skrifstofu forseta Íslands á Sóleyjargötu. 

Forseti Íslands hefur frá lýðveldisstofnun verið verndari ÍSÍ og í gegnum tíðina hefur embættið komið að starfi ÍSÍ með fjölbreyttum hætti.

Á fundinum var rætt um ýmsa þætti sem snúa að íþróttastarfi á Íslandi bæði í fortíð, nútíð og framtíð, samvinnu embættisins við ÍSÍ og árangur Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Forseti Íslands og eiginmaður hennar eru mjög áhugasöm um íþróttir og heilbrigt líferni og margt í áherslum forseta fellur vel með því starfi sem íþróttahreyfingin sinnir á Íslandi.

Auglýsing

Ísafjarðarbær með akstursstyrkir vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna

Ísafjarðarbær veitir akstursstyrki vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna árið 2024.

Styrkirnir eru til handa foreldrum barna og unglinga á grunnskólaaldri sem eiga lögheimili í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði og taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í Ísafjarðarbæ. Aðeins er veittur einn styrkur á hvert heimili á ári, óháð fjölda barna.

Ekki er greiddur út styrkur til barna og unglinga sem eiga lögheimili í Skutulsfirði þar sem frístundarúta milli Skutulsfjarðar og Bolungarvíkur þjónar þeim.

Sótt er um styrkinn á vefsíðu Ísafjarðarbæjar og er umsóknarfrestur til 16. desember.

Auglýsing

Samdráttur í kjötframleiðslu

Kjötframleiðsla í október 2024 var samtals 6.334 tonn, 2% minni en í október 2023. Svínakjötsframleiðslan var 3% minni en í október í fyrra. Hins vegar var alifuglaframleiðslan 14% meiri og nautakjötsframleiðslan 9% meiri. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan hefur birt.

Sauðfjárslátrun lauk í október, heildarframleiðsla yfir sláturtíðina reyndist 5% minni en 2023 eða 7.964 tonn, bæði vegna færri skrokka og minni fallþunga.

Kindakjötsframleiðslan hefur aðeins einu sinni verið minni sl. 40 ár eða árið 1997 en þar munar aðeins 61 tonni.

Auglýsing

Suðureyri: Íslandssaga 25 ára – opið hús

Suðureyri. Mynd: Íslandssaga hf.

Fiskvinnslan Íslandssaga hf á Suðureyri fagnar á föstudaginn , þann 6. desember, 25 ára afmæli.

Í tilefni af því verður opið hús hjá fyrirtækinu og eru allir boðnir velkomnir að koma og skoða starfsemina. Boðið verður uppá lagköku og snúða sem að Kvenfélagið Ársól færir félaginu á þessum tímamótum.

Opna húsið verður á milli 11-15 föstudaginn 6 desember nk.

Gestir verða leystit út með sýnishorni af framleiðslunni.

Miklar breytingar eru fram undan hjá fyrirtækinu og verður hægt að sjá og fræðast um það á þessum hátíðisdegi segir í tilkynningu frá Íslandssögu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir