Bolungavík: skuldahlutfall lækkar og veltufé frá rekstri eykst

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ársreikningur Bolungavíkurkaupstaðar hefur verið lagður fram í bæjarstjórn. Rekstur sveitarfélagsins var jákvæður á síðasta ári um 43 m.kr. Heildartekjur voru 1816 m.kr. og heildargjöldin námu 1.773 m.kr. Skuldahlutfall A hluta lækkaði úr 99% í 89% af tekjum og fyrir alla samstæðuna var skuldahlutfallið um síðustu áramót óbreytt frá fyrra ári eða 104%.

Veltufé frá rekstri var 241 m.kr. sem er um 18% af tekjum ársins og nærri tvöfaldaðist frá fyrra ári.

Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er launakostnaður en hann var 995,4 m.kr. og hækkaði um 100 m.kr. frá 2022. Stöðugildin í árslok voru 82.

Heildarskuldir og lífeyrisskuldbindingar voru 2.700 m.kr. í árslok 2023 og hækkaði um 240 m.kr. milli ára.

Jón Pall Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að skýringin á jákvæðri afkomu væri að tekjuaukning sveitarfélagsins á síðasta ári hefði orðið mikil og mun meiri en útgjaldaukningin. Tekjur af útsvari hefðu hækkað, m.a. vegna íbúafjölgunar, fasteignaskattur hefði hækkað og eins hefðu framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga farið hækkandi. Þá væru tekjur hafnarinnar að aukast umtalsvert og gætti þar áhrif af auknu laxeldi og opnun sláturhússins Drimlu.

Jón Páll kvaðst eiga von á áframhaldi á góðum rekstri sem kæmi sér vel því sveitarfélagið væri í miklum fjárfestingum, svo sem við nýja vatnsveitu og það væri keppikefli að geta farið í þær án þess að skuldahlutfall hækkaði.

DEILA