Frítt inn fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar á Byggðasafn Vestfjarða um sjómannadagshelgina

Á sjómannadagshelginni þann 3 -4. júní verður frítt inn fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar inn á Byggðasafn Vestfjarða.

Sett hefur verið upp örmálverkasýning af bátum frá mismunandi tímabilum í skipa – og útgerðarsögu bæjarins á neðri hæð. Það er einnig meira til að finna á öðrum hæðum tengt sjómennsku og alþýðulífi til þess að leyfa huganum að reika og minnast líðandi stundar.

Á myndinni er Ásgeir litli Ásgeir litli var fyrsta vélknúna kaupskipið í eigu Íslendings og fyrsti póstbátur á Íslandi, en heimahöfn hans var alla tíð í Kaupmannahöfn. Kom fyrst til Ísafjarðar í júlímánuði árið 1890 eftir vetrardvöl í Færeyjum.

Hóf hann fljótlega póstferðir um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði og fór öðru hvoru norður í Aðalvík og Hornvík og vestur á firði. Auk póstferðanna var Ásgeir litli í vöruflutningum fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði til útibúanna. Hann aðstoðaði einnig seglskip út og inn sundin á Ísafirði.

Árið 1910 hætti hann alveg póstferðum og sigldi eftir það eingöngu fyrir Ásgeirsverslun.

Ásgeir litli hætti siglingum árið 1915. Stóð fyrst í stað í upp í slipp, sem gerður hafði verið fyrir hann til að standa í á vetrum (hann var yfirleitt ekki á ferðinni nema á sumrin). Síðan var hann settur upp í fjöru og notaður til íbúðar í nokkur ár og var að lokum rifinn þar.

DEILA