Um sölu á hjúkrunarheimilinu Eyri

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Leiguleiðin var nauðsyn

Á eftirhrunsárunum var ríkissjóður í spennitreyju. Gat ekki tekið meiri pening að láni. En gamalt fólk hélt áfram að eldast, biðlistar eftir rými á hjúkrunarheimilum héldu áfram að lengjast og fólk festist inni á sjúkrahúsum á meðan á þeirri bið stóð.

Þá voru góð ráð dýr. Eitt úrræði var að fá pening að láni með óbeinum hætti. Í tilviki hjúkrunarheimila var uppleggið þannig að sveitarfélög voru fengin til að byggja húsin gegn löngum leigusamningum. Þannig var hægt að byggja ný heimili án þess að taka lán. Þetta fyrirkomulag var einnig í stíl við þær hugmyndir sem þá voru á lofti um að færa málefni aldraðra alfarið frá ríki til sveitarfélaga.

Fyrirkomulagið er úrelt

En nú er hrunið orðið fjarlæg fortíð og fallið hefur verið frá því að færa hjúkrunarheimili yfir til sveitarfélaga. Eftir sitja hinsvegar þau sjö heimili sem byggð voru samkvæmt þessari leiguleið. Í tilviki Eyrar er heimilið rekið af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en húsnæðið er rekið af Ísafjarðarbæ.

Þetta er tímaskekkja. Rekstur fasteigna er ekki hluti af kjarnastarfsemi sveitarfélaga. Bærinn hefur um langa hríð reynt að losna undan þessu enda skuldirnar þungar, leigugreiðslurnar duga ekki fyrir kostnaði og svo er bærinn ekki sérlega góður eigandi fasteigna. Þessu hefur verið tekið fálega af ríkinu, meðal annars vegna þess að þá gæti ríkið fengið öll hin heimilin sem svipað er ástatt um í fangið.

Hjúkrunarheimili hafa verið byggð eftir þeirri reiknireglu að ríkið borgar 85% og sveitarfélög 15%. Það fyrirkomulag hefur ekki ýtt undir nægjanlega fjölgun hjúkrunarrýma. Viðbygging með tíu nýjum rýmum var hugsuð eftir því fyrirkomulagi. Það hefði verið afkáralegt að hafa þrjár einingar með einu eignarformi en þá fjórðu með öðru.

Stefnubreyting ríkisins opnar nýja kosti

Þetta breyttist í vor. Þá var gefin út skýrsla sem heitir Breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila.  Þar var opnað á að ríkið færi í auknum mæli að breyta markaðsfyrirkomulagi við nýbyggingar, en einnig að núverandi hjúkrunarheimili yrðu seld til einkaaðila. Þjónustan yrði í sömu höndum og áður, í tilviki Eyrar hjá heilbrigðisstofnuninni.

Í kjölfarið hefur Ísafjarðarbær skoðað hvaða lausnir eru í stöðunni og haldið marga fundi með hagaðilum, þar á meðal stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Nú hefur bæjarstjórn ákveðið að hefja söluferli á hjúkrunarheimilinu. Byggir fyrirkomulagið á því sem gert var á Seltjarnarnesi ekki fyrir löngu. Síðar mun koma í ljós hvort nægilega góð tilboð muni fást í eignina og þá hvort af þessu verður.

Málið flækist aðeins vegna þess að á sínum tíma höfðu Ísafjarðarbær og ríkið ekki alveg sömu sýn á bygginguna í einu veigamiklu atriði. Kröfulýsing ríkisins gerði ekki ráð fyrir sameiginlegum sal fyrir einingarnar þrjár, en það taldi Ísafjarðarbær þörf á að byggja. Það gerði bærinn því á eigin reikning, en hefur leyft heilbrigðisstofnuninni að nota salinn þrátt fyrir það. Gera þarf upp þau mál í samhengi við söluna.

Þjónusta við íbúa breytist ekki nema til batnaðar

Verði af sölunni mun það engar breytingar hafa í för með sér fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins eða starfsfólk þess, nema þá í því að í stað Ísafjarðarbæjar verði húsið í eigu aðila sem hafa það sem sína sérhæfingu að eiga, viðhalda og sinna húsnæði. Á grundvelli þessa gætum við farið að sjá öflug leigufélög hasla sér völl, sem eykur fjölbreytni í húsnæðismarkaði og atvinnulífi.

Skuldahlutfall Ísafjarðarbæjar mun lækka talsvert verði af þessari sölu en gera má ráð fyrir að það muni lækka úr 134% niður í 115%. Ísafjarðarbær fjármagnaði bygginguna með lánum og hafa leigutekjur frá ríkinu ekki dugað fyrir afborgunum og hefur bærinn því greitt með rekstrinum. Árið 2022 28 m.kr. tap á rekstri Eyrar og 33 m.kr. tap í fyrra. Þetta er fjármagn sem mætti nota í skemmtilegri verkefni í þágu bæjarbúa.

Gylfi Ólafsson, Í-lista, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Uppfært kl 11:30 12.6. lagfært orðalag.

DEILA