Síðasta vísitasía biskups Íslands var í Bolungavík

Biskup Íslands í Hólskirkju. Mynd: Einar K. Guðfinnsson.

Síðasta vísitasíumessa biskups Íslands fór fram á sjómannadaginn í Hólskirkju í Bolungarvík.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir er fyrrverandi sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli og kvaddi hún söfnuð sinn á sjómannadegi árið 2012 þegar hún tók við embætti biskups Íslands.

Kirkjan var þétt setin nú á sunnudaginn þegar biskup prédikaði og blessaði söfnuðinn.

Sr. Fjölnir Ásbjörnsson þjónaði fyrir altari en hann þjónar nú sem prestur í Bolungarvík, sem tilheyrir nú Ísafjarðarprestakalli.

Karlmenn mynduðu kórinn eins og ávallt þennan dag og sungu þeir einnig í kirkjugarðinum þegar kransar voru settir á minnismerki um drukknaða og horfna.

Hjónin Kristján L. Möller og eiginkona hans Oddný Jóhannsdóttir afhentu kirkjunni gjöf að upphæð kr. 2,5 milljónir en það var að mestu ágóði af sölu jólaóróa með mynd af Hólskirkju og nágrenni hennar sem þau gáfu út.

Formaður sóknarnefndar Einar Jónatansson þakkaði þessa veglegu gjöf.

Biskup Íslands þakkaði öllum þeim sem koma að kirkjustarfi í Bolungarvík, presti, sóknarnefnd, organista og kór, meðhjálpara og ræstitæknum, þeim sem taka grafirnar og sjá til þess að öllu leyti að kirkjustarf og athafnir gangi vel fyrir sig.

DEILA