Gestir skemmtiferðaskipanna GEFA ÍSLENSKU SÉNS

Glöggir vegfarendur hafa ef til vill rekið augun í skilti eða veggspjöld sem komið hefir verið fyrir víðsvegar um Ísafjörð, bæði á staurum svo og inn í verslunum og á veitingahúsum. Hugsanlega hafa þeir hinir sömu spurt sig hverju sætir. Er ekki úr vegi að útlista það ögn.

Þannig er mál með vexti að átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag var úthlutað verkefnisstyrk úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæjar. Styrkinn hlaut verkefnið til að standa að eins konar samkvæmisleik fyrir gesti skemmtiferðaskipana og annað ferðafólk.

Nú er vitað mál að sumum þeirra erlendu gesta sem sækja Ísafjörð heim leikur forvitni á að vita hvernig maður segir hitt eða þetta á íslensku. Sumir þeirra eiga það til að spyrja þjónustuaðila eða jafnvel fólk á förnum vegi um slíkt. Framandi eða öðruvísi tungumál, ásamt öðruvísi menningu, er jú hluti þess að vera gestur í erlendu landi, hluti af því að upplifa eitthvað nýtt, læra eitthvað nýtt.

Fæddist því sú hugmynd hvort ekki væri sniðugt að útbúa veggspjöld og skilti með QR-kóða sem leiðir fólk inn á þessa síðu: www.gefumislenskusens.is/godandaginnisafjordur. Þar gefur að líta fjóra þjóðfána sem standa fyrir ensku, þýsku og frönsku. Smelli gesturinn til dæmis á þýsku fær hann algenga frasa á íslensku með hljóðskrá ásamt þýðingu á þýsku. Slíkt hið sama á auðvitað við um hina þjóðfánana nema hvað þýtt er á ensku og frönsku. Ætti gesturinn því að vera í stakk búinn til að bjóða manni og öðrum góðan daginn á íslensku og ef til vill panta sér kaffi á íslensku. Til þess er leikurinn gerður.

Viljum við því hvetja Ísfirðinga og aðra til að benda fólki á veggspjöldin og skiltin fái þeir fyrirspurn um hvernig maður segir þetta eða hitt á íslensku. Það ætti að geta sett skemmtilegan svip á bæinn ef hjarðar túrista rölta um bæinn vopnaðar myndavél og bjóða gestum og gangandi góðan daginn hægri vinstri. Auk þess sem það ætti tvímælalaust að geta skapað Ísafirði sérstöðu sem áfangastaður á Íslandi eða allavega þangað til einhver annar tekur þessa hugmynd upp.

Ísafjörður var allavega fyrstur til þess að gera eitthvað þessu líkt eftir því sem við best vitum.

Fyrir hönd Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri

DEILA