UUA: tímabundin breyting á eldissvæði í Djúpinu þarf ekki í umhverfismat

Þjónustubáturinn Kofri á siglingu í Djúpinu. Mynd: Háafell.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu samtakanna Laxinn lifi sem vildi að Háafell yrði að framkvæma sérstakt umhverfismat í Ísafjarðardjúpi fyrir því að um tveggja ára skeið yrðu tveir árgangar af eldisfiski í Seyðisfirði.

Í febrúar 2024 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að Háafell þyrfti ekki að gera sérstakt umhverfismat fyrir þeirri breytingu að hafa frá vori 2024 til vorsins 2026 mismunandi árganga eldislax innan sama árgangasvæðis á eldissvæðunum Ytra-Kofradýpi og Seyðisfirði.

Háafell fékk rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Ísafirði og var í aðdraganda þess unnið mat á umhverfisáhrifum á Djúpið vegna framleiðslunnar. Skipulagsstofnun telur tímabundnu breytinguna ekki líklega til þess að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og því munu umhverfismatið sem gert var lýsa áhrifunum nægjanlega. Umhverfisstofnun benti á að nýtt umhverfismat myndi ekki varpa skýrara ljósi á áhrif eldisins en þegar lægi fyrir.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að „að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd breyting skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum studd haldbærum rökum. Verður og ekki annað séð en að stofnunin hafi að rannsökuðu máli lagt viðhlítandi og sjálfsætt mat á þá þætti sem máli skipti um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Verður því að hafna kröfu um ógildingu hennar.“

DEILA