Örvinglan hjá Petersen og Kaldal

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Áróðursherferð Gunnars Arnar Petersen, framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga og Jóns Kaldal, talsmanns IWF náði ákveðnu hámarki í gær þegar matvælaráðherra voru afhentir undirskrifarlistar gegn sjókvíaeldi þar sem krafan er að eldið verði bannað. Herferðin hefur staðið linnulaust yfir í gott ár, fengið viðstöðulausa og gagnrýnislausa umfjöllun í sjónvarpsstöðvum og helstu útvarpsstöðvum landsins, haldnir hafa verið útifundir, auglýst í blöðum, keyptar skýrslur og forystufólk í stangveiði og ferðaþjónustu hefur sent út ákall í opnuauglýsingu í Morgunblaðinu.

Niðurstaðan er hins vegar ekki nærri því í samræmi við fjárausturinn og áróðurinn. Undirskrifirnar urðu aðeins 46 þúsund. Þeir sem ekki skrifuðu undir eru um 220 þúsund. Fyrir hvern einn sem skrifaði undir áskorunina eru fimm sem gerðu það ekki. Það er augljóst að lítill minnihluti getur ekki fengið sína kröfu fram. Það er líka ljóst af áformum ríkisstjórnarinnar að það stendur ekki til að banna sjókvíaeldi. Ráðherrar úr öllu stjórnarflokkunum hafa sagt það skýrt á síðustu mánuðum að fiskeldið sé komið til að vera og að ætlunin sé að nýta hagstæð skilyrði við landið til þess að auka landsframleiðsluna og bæta efnahag landsmanna. Tilgangur lagafrumvarps um atvinnugreinina sé að lágmarka óæskileg áhrif sem kunna að vera og hámarka efnahagsleg áhrif.

Október 2023: ekkert fiskeldi væri til staðar

Þegar matvælaráðherra kynnti stefnumörkun ríkisstjórnarinnar síðastliðið haust, nánar tiltekið 4. október 2023, sem var undanfari frumvarpsins í desember var Jón Kaldal kallaður samdægurs í beina útsendingu í sjónvarpsfréttum RUV til þess að bregðast við. það stóð ekki á svörunum, Jón Kaldal var bara nokkuð ánægður með stefnumörkunina og sagði að ef þessi umgjörð um eldið væri í gildi í dag væri ekkert sjókvíaeldi til staðar.

Nú er annað hljóð í strokknum hjá þeim Petersen og Kaldal. Það má heyra örvinglan í málflutningi þeirra og stóryrðum. Þeim hefur mistekist að ná fram kröfum sínum. Ástæðan er einföld. Krafan er ekki byggð á nógu góðum rökum. Sjókvíaeldið er einn helsti vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi, útflutningstekjur nema tugum milljarða króna á hverju ári og munu á næstu árum vaxa upp í um 100 milljarða króna. Beinu störfin sem þegar eru orðin til eftir aðeins áratug nema hundruðum og óbeinu störfum bætast við þau. Vel er fylgst með álagi á lífríki í hafinu og brugðist við þegar við á. Áhætta á blöndum við villta laxastofna er lítil og að mestu afturkræf. Engir innlendir nytjastofnar hafa orðið fyrir áhrifum af eldinu og jafnvel slysasleppingin slæma í ágúst síðastliðnum af kynþroska laxi kemur að öllum líkindum ekki til með að hafa merkjanleg áhrif. Fyrir liggur það álit Hafrannsóknarstofnunar um áhættu á erfðablöndun að það þurfi mikla blöndun í langan tíma til þess að vænta megi varanlegra áhrifa. Stakur atburður er að sama skapi ekki áhyggjuefni til langs tíma.

Framfarir á Vestfjörðum eru hræðilegar!

Eftir áróðursherferðina stendur hávaðinn í ómerkilegum málflutningi Petersen og Kaldal, sem sker í eyru.

Eftir að kvótanum var sópað af Vestfjörðum varð mikil fólksfækkun og almenn afturför í fjórðungnum. Fólki fækkaði um 40%. Svo kom fiskeldið að frumkvæði heimamanna. Það lofaði góðu en fékk ekki nægan stuðning fjárfesta og leitað var til útlendinga. Pólverji og Norðmenn komu að uppbyggingunni með Íslendingum og lögðu til mikið fé. Síðan hefur þróunin snúist við til hins betra. Fólki hefur fjölgað á Vestfjörðum síðasta áratuginn, störfum hefur fjölgað, fasteignaverð hefur hækkað og fjárfestingar í atvinnutækjum nema tugum milljarða króna.

Þetta telja þeir Petersen og Kaldal að geti ekki gengið og fá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að gera skýrslu um áhrif laxeldisins. Óvænt dró skýrslan fram jákvæð áhrif laxeldisins á Vestfjörðum. Verðmæti framleiðsluleyfanna er talinn geta verið um 100 milljarðar króna. Það er býsna mikið. Þá kemur fram að í Vesturbyggð, þar sem laxeldið hófst fyrst, hefur fjölgað fólki um 16% frá 2014 og að laxeldið eigi stóran þátt í því.

Þar kemur lika fram að fasteignaverð á sunnanverðum Vestfjörðum hefur þrefaldast. Það sé að jafnaði 230-240 þúsund krónur á fermetra í sérbýli á árunum 2022 og 2023. Verðið hafi sem sé verið fyrir 100 fermetra einbýlishús 7 -8 m.kr. fyrir laxeldi en sé orðið 23 – 24 m.kr. eftir nokkurra ára starfsemi. Hækkunin er um 16 m.kr. sem er eignamyndunin. Íbúar á þessu svæði, og reyndar einnig á norðanverum Vestfjörðum, eru aftur farnir að búa við þau skilyrði að eignir þeirra hækka í verði, eitthvað sem fólk missti af um áratugaskeið. Fjöldi fjölskyldna hefur tapað miklu fé vegna undanhaldsins í kjölfar framsals botnfiskkvótans á sínum tíma. Nú eru breyttir tímar vegna sjókvíaeldisins og þá koma þeir félagar Petersen og Kaldal og hrópa á torgum að þetta verði að banna. Hróp þeirra segja okkur að það eigi að taka þennan ávinning af okkur og lækka fasteignaverðið aftur.

Fulltrúar Vestfjarðastofu minntu á það í grein á bb.is eftir Morgunblaðsauglýsinguna, sem áður var minnst á, og krafist er að eldið verði bannað, að um 300 störf á Vestfjörðum myndu hverfa í einu vetfangi sem myndu þýða að um 1.000 manns myndu flytjast burt.

Fækkum fólki á Vestfjörðum hrópa Petersen og Kaldal. Svo bæta þeir við, þetta eru hvort sem er útlendingar, bönnum sjókvíaeldið! Björk og Bubbi spila og syngja undir hávaðakórnum og hrópa að það sé allt merkilegra en Vestfirðingarnir sjálfir. Það þurfi að vernda náttúruna og laxinn en fólkið sem býr í fjórðungnum geti etið það sem úti frýs.

Laxeldi er lausn en ekki vandi

Það er einmitt þetta sjálfhverfa kaldlyndi ríka og fræga fólksins sem hefur orðið til þess að herferð Petersen og Kaldal mistókst. Stjórnmálamönnum er ljóst að það er ekki hægt að banna laxeldi, nema í staðinn komi önnur atvinnustarfsemi jafngild , ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur einnig fyrir land og þjóð. Og það er ekkert annað í boði. Það hafa síðustu 30 ár, eftir kvótakerfið, ekki verið neinar lausnir. Laxeldið er lausn og það góð lausn, ekki alveg áhættulaus, en áhættulítil. Það hefur ekki skaðað stangveiði hingað til og er ekki líklegt til þess að gera það. Vandi stangveiðimanna er annar en laxeldi og veiðiréttarhafar eiga að snúa sér að því að takmarka veiðar úr ofveiddum stofni og huga að ám sínum.

Laxeldinu munu fylgja efnahagslegar framfarir og almennur lífskjarabati á næstu áratugum.

Það er kjarni málsins.

-k

DEILA