Kerecis völlurinn: stefnt að 14. júní

Frá lagningu lagna á völlinn. Mynd: Arnar Guðmundsson.

Stefnt er að því að nýi gervigrasvöllurinn á Torfnesi, Kerecis völlurinn, verði tilbúinn til notkunar 14. júní næstkomandi. Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður Ísafjarðarbæjar segir að beðið sé eftir verktakanum Metatron. Starfsmenn fyrirtækisins séu á Akureyri og fari svo til Sauðárkróks til viðgerða á gervigrasvelli en Jóhann vonast til þess að þeir verði á Ísafirði á fimmtudaginn.

Þá verði hafist handa við að steypa niður púðana og áætlað er að það taki fjóra daga. Síðan þurfi tíu daga til þess að leggja gervigrasið. Framgangur verksins sé hins vegar háður veðráttunni. Það þurfi að vera þurrt þegar púðarnir verða steyptir og hitastig a.m.k. 8 gráður á celsíus og hitinn má ekki fara niður fyrir 5 gráður við niðurlagningu gervigrassins. Haldist veðráttan hagstæðin verður völlurinn tilbúinn 14. júní.

Samúel Samúelsson, formaður meistarflokksráðs Vestra í knattspyrnu sagði í samtali við Bæjarins besta að miðað við þessa áætlun verði fyrsti leikur Vestra á Kerecisvellinum í Bestu deildinni gagn Val þann 22. júní og fyrsti leikurinn verður strax 15. júní þar sem kvennalið Vestra leikur í annarri deildinni.

Ekkert verður af því að fyrsti leikurinn verði á sjómannadaginn 2. júní eins og áður var að stefnt og verður sá leikur, sem er gegn Stjörnunni, spilaður í Laugardalnum í Reykjavík á leikvelli Þróttar en mun teljast sem heimaleikur Vestra. Samúel sagði mikinn kostnað fylgja hverjum leik sem þyrfti að færa suður.

DEILA